8.7.2015 | 10:04
Gullaldir og hrun, feit og mögur ár.
Gullaldir og hrun, feit ár og mögur ár, eru stef í sögu flestra þjóða. Það birtist mönnum enn og aftur í skálarústum í miðbæ Reykjavíkur og hliðstæðum rústum mannvirkja um allt land, sem hafa komið í ljós síðustu ár.
Árið 2000 hefði engan órað fyrir því að innan áratugar hefðu risið hús á borð við Hörpuna og Manhattan-líka skýjakljúfaröð við Sæbraut og Borgartún í Reykjavík, stærsta mannvirki Íslandssögunnar með áhrifum á landslag og náttúrufar á þúsundum ferkílómetra svæði á Norðausturlandi og 303ja megavatta risa jarðvarmavirkjun á Hellisheiði.
Enginn veit hvað næstu þúsund ár munu leiða yfir land og þjóð, hvort menn muni undrast það eftir þúsund ár þegar eftir bylgjur uppsveiflna og hruna að rekast á minjar um þau stórvirki sem risið hafa um allan heim á olíuöldinni stuttu og miklu 1900-2080.
Skálinn við Lækjargötu bendir til að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi byggð og húsakostur verið mun meiri milli tjarnar og víkur en blasti við um miðja 18. öld þegar nesið, sem þessi byggð stóð á, hafði blásið upp úr því að vera skógi vaxin "holt" (holt þýðir skógur) í uppblásnar urðir stóran part.
Svipað er að segja um nágrenni Reykjavíkur, svo sem land Garðabæjar, þar sem hafa fundis rústir enn stærri skála en í Reykjavík. Þó virðist ekki útséð með það hve langur Reykjavíkurskálinn var.
En inn til landsins leyndist ekki sá möguleiki til hafnargerðar sem var í Reykjavík og varð grundvöllurinn að myndun kaupstaðar og síðar bæjar og höfuðborgar.
Um síðustu aldamót áttuðu menn sig á því að um endilangar heiðar og hálsa í Þingeyjarsýslu hefðu legið voldugir landamerkjagarðar svo tugum kílómetra skipti á Þjóðveldisöld, mannvirki á borð við nútíma þjóðvegi.
Augljóst er að það var ríkt þjóðfélag sem gat staðið að því að gera slík mannvirki á dögum þrælahalds og mannafla.
Þannig spegla fornminjar ris og hnig þjóðfélaga og slíkt á eftir að gerast aftur og aftur hér eftir sem hingað til.
Oft byggðust stórveldi á rányrkju landgæða, svo sem í Mesópótamíu (Írak)og Fönikíu (Líbía).
Nú stendur mannkynið frammi fyrir afleiðingum margfalt stærri rányrkju á helstu auðlindum jarðar og þar með hugsanlegu hruni, sem gæti valdið því að eftir þúsund ár muni þálifandi fólk undrast stærð rústanna frá olíuöld.
Skáli frá landnámsöld fannst óvænt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mörlendingur graðgar í sig sviðakjamma - Myndband
Þorsteinn Briem, 11.7.2015 kl. 02:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.