ÞYKJUSTULEIKUR Í UMHVERFISMÁLUM.

Þessa dagana eykst þykjustuleikur flokkanna sem hafa staðið fyrir og ætla að standa fyrir því stóriðju- og virkjanaæði sem ekki mun linna nema hægt verði að stöðva það í kosningunum og koma á 5 ára hléi á stóriðjuframkvæmdum í samræmi við vilja 58 prósent aðspurðra  í nýlegri könnun.

Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins lætur sér þetta vel líka og hlakkar yfir því að sérstaða Íslandshreyfingarinnar og VG hafi verið eytt með því að aðrir flokkar hafi tekið umhverfisáherslur inn í stefnuskrár sínar.

Í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins er talað um að ekki megi ganga of nærri náttúrunni við virkjanir. Það þýðir í raun að það megi ganga nærri náttúrunni. Síðan er verður það væntanlega túlkunaratriði ráðamanna hvernig eigi að skilgreina hvenær er gengið "of" nærri.

Sem sagt galopið enda standa enn ummæli forsætisráðherra um þá framtíðarsýn hans að hér á landi verði komin sex risaálver um 2020.

Ekki eru framsóknarmenn síðri í þessum feluleik. Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Jónínu Bjartmarz sem á að sanna að flokkur hennar ætli sér að friða flest þau virkjanasvæði sem mun þurfa að virkja á ef þessi álver Geirs rísa. Vitnar hún í frumvarp sem hún hafi lagt fram rétt fyrir þinglok og náðist auðvitað ekki að afgreiða.

Þetta er af svipuðum toga og auðlindaákvæðið fræga og ónýta sem þeir Geir og Jón lögðu fram rétt fyrir þingslit að ekki sé minnst á "þjóðarsáttarfrumvarp" Jóns sem átti ekki að komast til raunverulegra framkvæmda fyrr en 2010 þegar álverin hefðu verið komin á þann skrið að ekki yrði aftur snúið.  

Á þeim stöðum þar sem álverin eiga að rísa vinna svo heimamenn úr þessum tveimur flokknum síðan á fullu við að koma þeim á koppinn og Framsókn auglýsir í rándýrum auglýsingum sínum hvað býr að baki: "Ekkert stopp".

Samfylkingin er þó skárri hvað snertir stefnuskrána Fagra Ísland en því miður er ekki víst að hægt sé að taka mark á henni meðan harðsnúnir hópar flokksmanna standa fyrir undirbúningi álversframkvæmda af fullum krafti. Ingibjörg Sólrún benti að vísu á það um daginn að ráðherra gæti synjað um virkjunarleyfi en spurningin er hvort það standist þegar á hólminn er komið eftir dýran og langan undirbúning virkjunar.

Fyrr í vetur hafði Ingibjörg að vísu sagt að ekki væri í raun hægt að stöðva virkjunarframkvæmdir eftir að gert hefði verið deiliskipulag.

Í Mogganum í dag lýsir Össur Skarphéðinsson mjög vel skaðlegum áhrifum stóriðjustefnunnar á síðasta kjörtímabili hafandi sjálfur ásamt lunganum af Samfylkingarþingmönnum samþykkt og staðið að þeim sömu stóriðjuframkvæmdum með því að samþykkja Kárahnjúkavirkjun, mestu umhverfsspjöll Íslandssögunnar!

Yfir þessu hlakka síðan þeir sem þykjast sjá fram á það að þessar blekkingar dugi til að villa kjósendum sýn. Það yrði sorglegt ef svo færi.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru allir í þykjustuleik í umhverfismálum og þú með.
Sjálfur hef ég reynt að minnka mína olíuneyslu og set allt ál í endurvinnslu til þess að það þurfi ekki fleiri olíuhreinsunarstöðvar og álver.
Ég skil þig ekki betur en að það megi auka neysluna en verksmiðjurnar eigi að vera á einhverjum ótilteknum stað á jörðinni ( kannski á kóralrifi ? ).

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 07:07

2 identicon

Viðurkennt er að tvö af alvarlegustu vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir eru aukin orkuþörf og aukin mengun. Það blandast víst engum hugur um það heldur að órjúfanleg tengsl eru þarna á milli. Verði aukinni orkuþörf mætt með sömu lausnum og fram til þessa hefur verið beitt, með brennslu á óendurnýjanlegum orkugjöfum s.s. olíu, kolum, gasi, heldur mengunin áfram að aukast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir afkomendur okkar og jafnvel okkur sjálf. Við, sem skilgreinum okkur sem þróaðar þjóðir, notum mesta orku allra og mengum þar af leiðandi mest allra í heiminum. Hjá okkur er eftirspurnin eftir aukinni orku einnig mest og mest bruðlað með hana.

Okkur, fremur en nokkrum öðrum á þessari jörð ber því skylda til leita allra leiða til að leysa þessa hefðbundnu, mengandi orkugjafa af hólmi með nýtingu vistvænna orkulinda, nota það forskot sem okkur hefur tekist að skapa okkur í heiminum, menntun og þekkingu, til að þróa leiðir til enn meiri nýtingar hinnar vistvænu orku en nú er þekkt, þróa tækni til enn meiri orkusparnaðar en nú þekkist, til að bæta úr þeim miska, sem við höfum unnið móður jörð og öðrum ábúendum hennar.

Við Íslendingar erum ekki stikkfrí hér.

Eigum við að segja við aðrar þjóðir; 'við Íslendingar ætlum ekki að skíta okkur og land okkar út á því að framleiða neitt sem mengar með okkar umhverfisvænu orku. Þið verðið að framleiða álið í flugvélarnar okkar ....Ómar, og bílana okkar ....Ómar, með ykkar mengandi og þverrandi óendurnýjanlegu orku' Og hafa síðan á ste

fnuskrá okkar að fá að ganga í efnahagsbandalagið þeirra og nota gjaldmiðil þeirra. Er það utanríkisstefna sem við getum verið stolt af; bara njóta.... ekki taka þátt?

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 07:57

3 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ómar. Hér er ekki um neinn þykjustuleik að ræða. Þú verður að koma þér upp úr skotgröfunum og ræða hvað þú vilt og leggur til, annað en stórastopp og á hvaða forsendum. Ef þú lest grein Jónínu og skoðar kortið, þá er alveg ljóst að af þeim kostum sem mögulega væri hægt að hefja framkvæmdir við, Svartsengi, Hellisheiði, Þjórsá og Kröflusvæðið, er afl þeirra þvílíkt að það líður langur tími þar til þörf er á að fara í önnur svæði. Hugsanlega verða djúpboranatilraunir komnar það langt þá að sú pressa verði enn minni. Þannig ætti að gefast góður tími til að fara yfir þau, þeas þau sem merkt eru með upphrópunarmerki. Hin á ekki að snerta og gerðu fólki ekki upp þann óheiðarleika að ætla þeim annað.

Þú hefur ekki bent á margt sem ætti að koma í stað iðnþróunar í umræðunni annað en ferðaþjónustu. Hvernig ætlar þú að réttlæta þau náttúruspjöll að maður tali ekki um losun á gróðurhúsalofttegundum sem fylgir þeirri starfsemi. Sérstaklega í ljósi þess að verið er að gera tilraunir með keramikskaut, sem munu gera losun frá álverum hverfandi.

Sjá hér og hér

Gestur Guðjónsson, 22.4.2007 kl. 10:51

4 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Þessi röksemd þín Sigurjón um að Íslendingum beri skylda til að virkja allar orkulindir sínar til stóriðju til þess að minnka mengun í heiminum er frekar hæpin. Nýtanlegar endurnýjanlegar orkulindir á Íslandi eru innan við 1% af endurnýtanlegum orkulindum í heiminum og framlag okkar til minnkandi mengunar yrði því neikvætt sé tekið tillit til mengunar þeirrar stóriðju sem fyrirhuguð er.

Það væri nær að nýta frekar þá þekkingu og hugvit sem hefur skapast innan orkufyrirtækjanna til að koma á laggirnar orkuveitum í þeim löndum sem nota hvað mest mengandi orkugjafa. Gott dæmi um slíkt er t.a.m. opnun hitaveitu í Kína sem leysir af hólmi mengandi orkugjafa. 

Lárus Vilhjálmsson, 22.4.2007 kl. 10:59

5 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Þessi röksemd þín Sigurjón um að Íslendingum beri skylda til að virkja allar orkulindir sínar til stóriðju til þess að minnka mengun í heiminum er frekar hæpin. Nýtanlegar endurnýjanlegar orkulindir á Íslandi eru innan við 1% af endurnýtanlegum orkulindum í heiminum og framlag okkar til minnkandi mengunar yrði því neikvætt sé tekið tillit til mengunar þeirrar stóriðju sem fyrirhuguð er.

Það væri nær að nýta frekar þá þekkingu og hugvit sem hefur skapast innan orkufyrirtækjanna til að koma á laggirnar orkuveitum í þeim löndum sem nota hvað mest mengandi orkugjafa. Gott dæmi um slíkt er t.a.m. opnun hitaveitu í Kína sem leysir af hólmi mengandi orkugjafa. 

Lárus Vilhjálmsson, 22.4.2007 kl. 11:00

6 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Tek heils hugar undir með Kristni Péturssyni. Þú getur vel við unað nú þegar, ef árangurinn er sá að allir flokkar hafi tekið upp bætta umhverfisstefnu.Ég saskna þín úr fréttamennskunni og fann það vel þegar ég las greinargóðan pistil þinn um flugvöll á Barðaströnd.

Vilborg Traustadóttir, 22.4.2007 kl. 13:57

7 identicon

Ég verð að leyfa mér að svara þér Lárus stuttlega, þótt um síðu Ómars sé að ræða og spyr hvort þér Lárus, hafi ekki láðst að taka tillit til þess að það sem hér yrði framleitt með vistvænni endurnýjanlegri orku verður ekki framleitt annarsstaðar með olíu, kolum kjarnorku eða einhverju enn meira mengandi?  Því hlýtur framlag okkar alltaf að vera í plús því menguni frá stóriðjunni yrði hin sama.  Það er því þín jafna sem ég fæ enganvegin til að ganga upp!  Hitt er rétt og nákvæmlega það sem ég á við að með því að halda áfram að auka nýtingu okkar vistvænu orku og þróa aðferðir, tækni og þekkingu til að ná ennþá meiri tökum á nýtingu hennar, t.d. með djúpborunum,  getum við margfaldað áhrifin með því að miðla af þekkingu okkar og reynslu annarsstaðar í heiminum,  líka í Kína.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 15:11

8 identicon

Ómar. Þú hefur náð að vekja hægriflokkana til tímabundinnar meðvitundar um mikilvægi umhverfismála, a.m.k. nú rétt fyrir kosningar. Takk fyrir það. En það sem verra er virðist þú ætla að verða þess valdur að hægri stóriðjuflokkarnir munu halda velli. Hvernig heldur þú að þeir lesi slíka kosningaúrslit? Auðvitað sem stuðning við áframhaldandi stóriðjustefnu og álversbræðslur - nema hvað. Er nú ekki komin tími til að þú takir afstöðu með heilsteyptum umhverfisflokki eins og Vinstri græn eru í stað þess að leggja ríkisstjórninni lið eins og þú ert að gera núna?
Hættu þessu nú, Ómar minn. Sýndu skynsemi og gaktu í lið með þeim sem vilja stórðijuflokkana frá völdum. Safnaðu liði þínu til stuðnings sívaxandi náttúruverndarflokki Vinstri grænna. Sýndu óumdeilanlegan áhuga þinn á umhverfismálum í verki og hjálpaðu til við að koma þeim málum rækilega á dagskrá á Alþingi í stað þess að veikja málstaðinn.

Akureyringur

Akureyringur (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 15:38

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kæri Ómar, HÉR er hin raunverulega ástæða þenslunnar og af hverju ekki er hægt að slaka á.  Hér stjórnar Alþingi eða seðlabanki ekki lengur heldur erlendir spekúlantar.  Ef þið fengjuð viðskipta eða hagfræðing í lið með ykkur og nýttuð ykkur þessi rök, þá mynduð þið slá margar flugur í einu höggi. 

Jón Steinar Ragnarsson, 22.4.2007 kl. 17:05

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kæri Ómar, HÉR er hin raunverulega ástæða þenslunnar og af hverju ekki er hægt að slaka á.  Hér stjórnar Alþingi eða seðlabanki ekki lengur heldur erlendir spekúlantar.  Ef þið fengjuð viðskipta eða hagfræðing í lið með ykkur og nýttuð ykkur þessi rök, þá mynduð þið slá margar flugur í einu höggi. 

Jón Steinar Ragnarsson, 22.4.2007 kl. 17:05

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og HÉR er greinarkorn, sem útskýrir að það verður virkjað það sem virkjað verður fyrr eða síðar. Ef það verður ekki leyft, þá hjálpa menn sér að því án þess að spyrja neinn. Förum frekar að leiða hugann að smælingjum þessa lands, jöfnuði og sanngirni fyrir fólkið og hættum að eyða ótímabæru púðri í grjót og klungur upp á heiðum eða að kjafta upp gildi öræfanna.  Þessi tilfinningasemi og náttúrurómantík er komin út yfir allan þjófabálk og það er enginn að hlusta á þetta lengur. Við erum bara að horfa í buddurnar okkar. Höfðaðu til þess og þá munt þú vinna kosningarnar.  Flettu ofan af svínaríinu, sem er í gangi í fjármálum þjóðarinnar, því að nú á að einkavæða orkuna. Annað Enron...

Það er fátækt á íslandi, okur og einokun...þarf að leita að málefnum? 

Jón Steinar Ragnarsson, 22.4.2007 kl. 17:50

12 Smámynd: Baldvin Jónsson

Kæri Akureyringur, hvað eigum við þá að kjósa sem hugnast ekki hugmyndir VG?  Við sem styðjum einkavæðingu og minni afskipti ríkis af rekstri?  Hvað eigum við að kjósa sem styðjum aðildarviðræður við ESB eins og mikill meirihluti þjóðarinnar gerir greinilega?

Við sem viljum frelsi, minni ríkisafskipti, aukinn stuðning við atvinnulífið og óbreytt kerfi fjármagnsskatta en jafnframt umhverfisvæna ríkisstjórn, hvað getum við kosið?

Við erum komin með frábæran valkost, Íslandshreyfingin er algerlega sniðin að okkur.  Takk fyrir það Ómar, þetta er algerlega það sem mig og stóran hluta fólks í kringum mig vantaði. Þú hefur gefið okkur kost á að kjósa með sannfæringu okkar BÆÐI í umhverfismálum og buddunni.

Kjósum með hjartanu - setjum X við Í

Baldvin Jónsson, 22.4.2007 kl. 19:24

13 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Kristinn,

Sagði skáldið ekki:

Landið var fagurt og og frítt,

og fannhvítir jöklanna tindar.

-- þetta er að vísu tilvitnun eftir minni, en ég held að þetta hafi skolast til hjá þér.

Eiður Svanberg Guðnason, 22.4.2007 kl. 20:50

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ein virkjun var reist???

Frá hvaða plánetu er Dharma?

Theódór Norðkvist, 22.4.2007 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband