22.4.2007 | 23:04
AF HVERJU NÚNA?
Þessa dagana spyrja margir: Hvers vegna að leggja áherslu á 5 ára stöðvun stóriðjuframkvæmda núna fyrst framundan er hlé hvort eð er? Í Silfri Egils sagði Geir H. Haarde að ekkert nýtt álver risi næstu tvö ár og ástæðulaust að stöðva neitt. En tvö ár eru nánast augnablik þegar álverahraðlestin er annars vegar.
Auk þess liggja fyrir áætlanir um að fyrsti áfangi álvers á Keilisnesi rísi 2010 og það verður bara byrjunin því að fyrir liggur að álver verða ekki arðbær nema þau séu 500 þúsund tonn.
Vegna þessarar hagkvæmnisstærðar er athugað á vegum Alcan að ná markmiðinu um 460 þúsund tonna álver á Keilisnesi. Þessi tvö álver munu fullrisin þurfa orku frá svæðum utan Reykjanesskaga svo sem Torfajökulssvæðinu, Skaftárveitu eða Kerlingarfjöllum hvað sem líður síðustu mínútna frumvarpi Jónínu Bjartmarz á þingi sem auðvitað fékk ekki afgreiðslu.
Fyrir 2011 verða álver í Þorlákshöfn og á Bakka við Húsavík líklegast komin á flugstig með þeim fyrirsjáanlegum afleiðingum að alla virkjanlega orku landsins þurfi fyrir þau áður en yfir lýkur. Það er alveg morgunljóst að í kosningunum árið 2011 verður of seint að snúa við. Þá verður of seint að iðrast.
Eins og Presley söng: "It´s now or never", - nú eða aldrei. Þeir sem halda öðru fram eru annað hvort andvaralausir eða reyna að svæfa og slæva andófið.
Athugasemdir
Þetta er orðið virkilega óhugnanlegt.
Unnur Birna (IP-tala skráð) 22.4.2007 kl. 23:27
Óttalegt bull er þetta í þér Ómar. Þú ert að segja að Jónína Bjartmarz sé vísvitandi að ljúga þegar hún birtir kort sitt af því hvað væri undir og hvað ekki og hvað þyrfti að meta betur. Það er ómerkilegur málflutningur og gengisfellir þig verulega. Mér finnst virkilega miður hvaða stefnu stjórnmálaferill þinn virðist vera að taka. Skoðið kortið. Birti það á síðu minni hér. Þar kemur skýrt fram að Torfajökulssvæðið, Kerlingafjöll, Jökulsá á Fjöllum og önnur svæði sem þú talar gegn betri vitund um að séu á hraðleið til glötunar, megi ekki snerta. Torfajökulssvæðið er þegar friðað, Jökulsá á Fjöllum er hluti af Vatnajökulsþjóðgarði og næsta verk er að vinna að friðun Kerlingafjalla. Þannig að hættu þessu bulli og farðu að tala um umhverfismál út frá staðreyndum. Ekki bara náttúruvernd og ekki bara út frá kjaftasögum.
Gestur Guðjónsson, 23.4.2007 kl. 00:03
Ekki hefði verið fræðilegur möguleiki að setja upp hugbúnaðarfyrirtæki á Reyðarfirði fyrir nokkrum árum, þegar ekkert annað en dauðinn blasti þar við. Núna er líf þar og stórfeld uppbygging og svæðið stefnir í að verða samkeppnishæft við suðvesturhornið í náinni framtíð. Í dag væri alveg raunhæft að koma slíkri starfsemi á legg þar, því núna er að verða lífvanlegt þarna fyrir manneskjur; "líf kallar á líf" eins og einn frambjóðandi Íslandshreyfingarinnar orðaði það í sjónvarpinu í dag.
Stóriðja/virkjanir hefur engin truflandi áhrif á fjármögnun hugbúnaðarfyrirtækja eða annarra nýsköpunarfyrirtækja, nema síður sé. Aðalvandamálið þar er að áhættufjármagnsmarkaður er ekki til á Íslandi. Háir vextir eru ekki vegna framkvæmdana fyrir austan; þeir eru vegna bankaþenslunar hér á höfuðborgarsvæðinu - 2500 milljörðum af lánsfé hefur verið dælt inn í hagkerfið í formi lána síðan framkvæmdirnar hófust fyrir austan 2003. Þá hafa bankarnir valdið þenslu á vinnumarkaðnum, sérstaklega hvað varðar háskólamenntað fólk; verkfræðinga, tölvunarfræðinga og viðskipta-/hagfræðinga.
Bjarni M. (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 00:58
Eru hundruð milljarða erlendra gjaldeyrisspekúlanta áhættufjármagn á hvorn veginn sem á það er litið Bjarni? Það er ástæða vaxtaþenslunnar og menn þora ekki að slaka á stýrivöxtum vegna þessa. Spekúlantar úti í heimi eru með meðvitað hreðjatak á seðlabankanum og raunar hafa nú mikið orðið að segja um sjálfstæði okkar.
Opinberar framkvæmdir eru hluti þessarar þenslu og vegna þeirra skuldbindinga er erfiðara um vik að hafa stjórn á efnahagslífinu. Vextir og stjörnugengi eru að sliga innlendan iðnað og þorra manna á landinu. Afleiðingar af vaxtalækkun eru líkleg til að leggja landið í rúst. Það er taktík þessara efnahagsglæpamanna að dæla fjármagni inn á veika markaði til að ná yfirtöku. Það hefur þegar skeð hér.
Það væri nánast betra að byggja efnahagslífið á Nígerísku peningaþvætti en þessu. Allt annað hangir á þessari spýtu. Náttúrurómantík er því ekkert annað en skelfileg alkohólísk afneitun á ástand, sem er að draga okkur hvert og eitt í svaðið.
En mottóið er:Drekkum í dag og Deyjum á morgun! Syngjum ættjarðarljóð og förum með væmin ljóð. Klöppum mosanum.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.4.2007 kl. 03:54
Aðeins hluti af svæðinu milli Suðurjökla og Vatnajökuls er friðað, Friðland að Fjallabaki. Tveir ráðherrar Framsóknarflokksins, Siv og Valgerður, hafa bent á að friðun þýði ekki að henni megi ekki aflétta þegar þörf krefur.
Siv fór létt með að aflétta friðun af þeim hluta Kringilsárrana, sem sökkt er undir Hálslón. Langisjór er ekki friðaður, heldur ekki sá hluti Torfajökulssvæðisins sem nú er beðið um a fá að fara inn á til að bora rannsóknarholur.
Línan fyrir Vatnajökulsþjóðgarð er þannig dregin að Skjálfandafljót er ekki friðað og heldur ekki Kverká, sem fellur í Jökulsá á Fjöllum.
Ómar Ragnarsson, 23.4.2007 kl. 08:46
Ég hélt því aldrei fram að Jónína Bjartmarz væri að ljúga. Frumvarp hennar var hins vegar lagt svo óskaplega seint fram að það varð hvorki rætt né afgreitt fremur en mörg önnur síðustu mínútna frumvörp sem dagaði uppi.
Ómar Ragnarsson, 23.4.2007 kl. 08:48
Mér finnst fáránlegt að þræta um þetta. Hvað ætti Ómar á því að græða að fara rangt með mál, og snúa útúr orðum annara stjórmála manna?
Það er augljóst mál að umhverfismál eru *ekki* í fyrirrúmi hjá flestum stjórnmálamönnum -- og er það ekki bara eðlilegt?
Þurfa allir sem vettlingi geta valdið að þykjast vera einhverjir náttúruunnendur og verndarar umhverfisins núna rétt fyrir kosningar, bara til að forðast að alvöru náttúruverndarsinnar komist inn á þing?
Come on fólk, ef hinir flokkarnir hefðu verið að hlusta á Ómar og aðra sem annt er um náttúruna, frekar en nokkrar krónur, þá hefði Ómar aldrei farið í framboð.
Einnig finnst mér ágætt að benda á (enn og aftur) að stopp á stóriðjuna (LENGUR EN í TVÖ ÁR!) er ekki bara nauðsynlegt náttúrunnar vegna, heldur þenslunnar -- það ættu nú sjallarnir að drullast til að skilja.
Steinn E. Sigurðarson, 23.4.2007 kl. 09:15
Ómar og félagar gera mig að stóriðjusinna. Hugmyndirnar þeirra kalla á meiri mengun sem mun verða einhvers staðar annars staðar.
Komið nú með hugmyndir um að minnka orku- og náttúruauðlindabruðlið á Íslandi og ég skal kjósa Íslandshreyfinguna. Þangað til mun ég gleðjast yfir hverju atkvæði sem Íslandshreyfingin nær frá VG (ætla sjálfur að skila auðu).
Að mótmæla olíuhreinsunarstöðvum og heimta fleiri flugvelli er heimtufrekja. Að koma með hugmyndir um minni bensíneyðslu og mótmæla olíuhreinsunarstöðvum er heiðarlegt.
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 09:57
Ómar. Siv og Valgerður hafa, eins og heiðarlegum stjórnmálamönnum ber, bent á alla þá möguleika sem eru í stöðunni. Aflétting friðlýsingar er einn af þeim þáttum og ég man ekki í svipinn eftir öðrum afléttingum en afléttingunni á Kringilsárrana. Það hefðu forsvarsmenn Samfylkingarinnar betur gert fyrir kosningarnar í Straumsvík, svo dæmi sé tekið.
Það að orkufyrirtækin vilji pissa af svæði fyrir sig er ekki það sama og að þau fái svæðin. Það er þess vegna sem að það er nauðsynlegt fyrir öll framboðin að þau geri grein fyrir því hvað þau vilji vernda og hvað eigi að hugsa um. Kortið er stefnumörkun Framsóknar, þau svæði sem eru rauð svæðum, þmt Torfajökulssvæðið, telur Framsókn að eigi alls ekki að snerta. Ég á erfitt með að trúa öðru en að Langisjór komist klakklaust í gegnum matið, sem yrði tilbúið 2010. Skjálfandafljót er einnig hluti af þessu mati. Það er ekkert komið til með að segja að það verði til friðunar eða vernduna, þeas Fljótshnjúkurinn en Hrafnabjörgin ættu ekki einu sinni að fara í mat, þau á ekki að snerta. Að ætla Jónínu að fara inn á þau svæði sem þú nefnir er að brigsla fólki um óheilindi, sem ég sé það sama sem að saka það um að ljúga. Þannig er það amk þar sem ég ólst upp á Suðurlandi.
Frumvarpið var fyrir talsverðu kynnt og undirbúið í fullri sátt við stjórnarandstöðuna, svo það var ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða það. Stjórnarandstaðan hótaði aftur á móti málþófi til að koma í veg fyrir að það yrði afgreitt. Rétt skal vera rétt og ekki sanngjarnt að kenna Jónínu um það.
Gestur Guðjónsson, 23.4.2007 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.