23.4.2007 | 19:57
ÁLVERADÝRÐIN OG DÁSEMDIN
Mikil var nú álveradýrðin og dásemdin í ljósvakamiðlunum í kvöld. Von á 2000 nýjum borgurum í Fjarðabyggð sem margfeldisáhrif 450 starfa í álverinu, 500 fleiri en Nýsir reiknaði út að þarna myndi fjölga. Ekki minnst á það í fréttum að þrátt fyrir veru allt að 2000 starfsmanna á svæðinu þegar mest var fjölgaði íslenskum íbúum ekki á Austurlandi.
Þegar allir þessir starfsmenn við framkvæmdirnar verða farnir reikna álversmenn samt með að 2000 manns muni flytja inn á svæðið ef marka má fréttaflutninginn!
Annað er eftir þessu. Mikið gumað af 53ja milljarða ársframleiðslu álversins. Þetta er þó aðeins bókhaldsatriði því Alcoa á álverið og tekur þetta söluvirði til sín.
Gott er að hafa til hliðsjónar erindi Harðar Arnarsonar forstjóra Marels þar sem hann tætir niður þau rök að þessi framkvæmd sé arðsöm, - þvert á móti er arðsemin langt fyrir neðan það sem einkafyrirtæki telja viðunandi.
Hörður telur upp langan lista að fríðindum sem Alcoa nýtur á ótal sviðum opinberra gjalda og gleymir þó að taka það með að Impregilo hefur allan virkjunartímann fengið ókeypis rafmagn sem nemur framleiðslu Lagarfossvirkjunar.
Innlendur virðisauki af áltonni er 27 þúsund krónur en af hverjum ferðamanni 93 þúsund krónur eins og kemur fram annars staðar í bloggi mínu. Ef þessir 120 milljarðar hefðu verið settir í ferðaþjónustu eða betri flugvöll eystra og uppbyggingu í störfum sem byggjast á hugviti og aðdráttarafli einstæðrar náttúru sem nú hefur verið stórlöskuð væri framtíð Austurlands bjartari þegar til lengri tíma er litið.
Athugasemdir
Ég ætla ekki að dæma um tölurnar en fjárhagslega hliðin á þessu álveraævintýri er og hefur alltaf verið hálf vafasöm, sér í lagi þessir leynilegu samningar Landsvirkjunar.
Hins vegar er það óumdeilanlegt að álver á Íslandi geta sparað náttúruauðlindir en ferðamálahugmyndirnar þínar eru hrein sóun á náttúruauðlindum.
Þú getur ekki kallað þig náttúruunnanda fyrr en þú skýrir út hvaðan olían á flugvélarnar og bílana sem eiga að flytja ferðamennina um landið á að koma.
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 21:47
Dharma, ég tek ofan fyrir þér.
Hilmar Ingi Ómarsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 22:49
Það er bara gaman fyrir Ausan núna ilmandi fiskilykt og álverslykt. Ekkert svifryk og engin brennisteins fíla. Og Marel er ekki landsbyggðar fyrirtæki. ( Ísafjörður ?? )
Björn Emil Traustason
Björn Emil Traustason, 24.4.2007 kl. 00:13
Fáeinar spurningar til þín Dharma.
1. Hversvegna er það hagkvæmara að byggja álver hér á Íslandi en t.d í Brasilíu þar sem kostnaður við vinnuafl er bara einn fjórði af því sem hann er hér, þar sem hráefnið er nokkra kílómetra frá verksmiðju í stað þúsunda kílómetra, þar sem næg endurnýjanleg orka er til staðar og þar sem pólitískt ástand er nokkuð stöðugt.
2. Er það vinstrimennska að vilja stöðva fjárfestingar sem eru greiddar niður af almennum rafmagnsnotendumÐ Er það að leyfa frelsi veiða hjá krókabátum undir 6 tonnum vinstrimennska? Er það vinstrimennska að afnema tekjutengingar hjá öryrkjum og öldruðum svo þeir fái frelsi til að vinna sér inn aukatekjur án þess að bætur skerðist?
3. Hefurðu komið á fjölförnustu ferðamannastaði í heimi eins og t.a.m. Yellowstone eða Grand Canyon? Þangað koma milljónir ferðamanna á hverju ári. Eru þar skýjakljúfar og mislæg gatnamót?
4. Heyrðir þú fréttir í dag um álver í Helguvík? Byrjað að byggja í haust, byrjað að bræða eftir tvö ár.
5. Ef Sjálfstæðisflokkurinn er hægrisinnaður afhverju voru hann og Samfylkingin þá með eiginlega alveg eins stefnu í mjög mörgum málum á landsþingunum þeirra um daginn? Ef Sjálfstæðisflokkurinn er hægrisinnaður afhverju var hann 20 árum á eftir með að selja ríkisbankana og Símann og afhverju er Pósturinn ennþá ríkistofnun(og fær að kaupa einkafyrirtæki). Ef Sjálfstæðisflokkurinn er hægrisinnaður af hverju gaf hann þá kvótann? Hefði ekki verið eðlilegast að bjóða hann upp? Ef Sjálfstæðisflokkurinn er hægriflokkur afhverju er hann þá að ræna landi frá bændum um land allt með þjóðlendulögunum?
Með von um skjót svör
Lárus Vilhjálmsson, 24.4.2007 kl. 00:17
Ómar. Ég vil endilega biðja þig um að horfa vandlega í kringum þig hér í Fjarðabyggð þegar þú kemur hingað austur til að kynna þitt fraboð. Og ekki bara í Fjarðabyggð, heldur á austurlandinu öllu.
Hér er meiri uppgangur en nokkru sinni fyrr, og bjrstýni og framkvæmdagleði skýn úr andlitum fólks hér í fjórðungnum.
Ég skal meira að segja fara með þér í ökuferð um Reyðarfjörð, og sýna þér hvað þetta verkefni hefur gert fyrir okkur, og ég skal í sömu ferð benda þér á þau hús sem voru tóm, og yfirgefin en eru nú full af fólki sem telur þessar framkvæmdir vera eitt mesta tækifæri sem það hefur komist í tæri við á lífsleiðinni.
Varðandi íbúatölur þá get ég bent á að íbúar á Reyðarfirði eru nú rúmlega 900 en voru áður en þessar framkvæmdir hófust, rétt um 670, sem sagt fjölgun um 35% og ekki eru erlendir starfsmenn inni í þeirri tölu.
Mér finnst einnig það að nefna Marel hér á nafn vera nokkuð varhugavert, því að það er "hátækniiðnaður" sem á nú að bjarga landsbyggðinni, en spor þeirra sýna ekki að það sé vilji til þess hjá þeim.
Vandamálið er að mörg fyrir af þessari tegund og stærðargráðu eiga alltof auðvelt með að loka bara og hlaupa burt, vegna þess að fjárfesting þeirra og eignir á svæðinu eru litlar sem engar, en hvað Fjarðaál áhrærir þurfum við ekki að óttast það...
Eiður Ragnarsson, 24.4.2007 kl. 03:20
Á meðan almenningur og allur annar íðnaður á Íslandi niðurgreiðir orku til stóriðju eru slíkar framkvæmdir i anda gamla sovétsins. Sjálfur forstjóri ALCOA segir raforkuverð á Íslandi um helming þess sem fyrirtækið þarf að greiða í Brasilíu. Vissulega vill ALCOA vera þar sem hráefnið er á staðnum, vinnulaun brot af því sem gerist hér og næg raforka en staðreyndin er sú að vegna þess að hið "opinbera" á orkufyrirtækin og getur niðurgreitt orku til stóriðju með okri á almenningsveitum undir yfirskini dreifikostnaðar undirbjóða Íslensk stjórnvöld þróunarlöndin í orkuverði.
Það má vera ljóst að eini aðilinn sem í raun hagnast -auk nokkurra eigenda verktaka og verkfræðistofa - er álfyrirtækið en það greiðir skatta af hagnaði erlendis
Við þetta bætist að landið og önnur möguleg nýting er ekki metin til fjár ( sjá greinar Indriða fyrrum ríkisskattstjóra og ráðuneytisstjóra xD)
Það er algert lágmark að fjárfestingar skili alvöruarði. Það gerir þessi orkusala ekki heldur er verið að færa fé úr vasa skattaborgara til erlendra stórfyrirtækja.
Afleiðingar þessarar vitlausu efnahagsstefnu er tímabundin meint velsæld á miðausturlandi en eignaupptaka í öðrum landshlutum þar sem verðbólgan étur upp eignir manna. Þannig geta Vestfirðingar verið þessari stefnu afskaplega þakklátir eða hitt þó heldur.
Hvað varðar mannlíf í Fjarðabyggð þá vona ég innilega að þeir sem hér eru að tjá sig hafi rétt fyrir sér. Þannig fór ekki í Fjarðaálversbæjum Noregs sem einkennast af kvennaflótta (fáar konur endast að vinna í kerskálum enda andstyggilegir vinnustaðir)og urmul einhleypra karla sem auglýsa stöðugt eftir félagsskap í einkamáladálkum.
Áður en lengra er haldið í orku útsölu þá verður að aðskilja orkusölu til stóriðju frá orku til annarra kaupenda. Þá fyrst verður orka til stóriðju á raunverði. Þá fyrst getur fók tekið upplýsta ákvörðun.
Hins vegar má öllum vera ljóst að börnin okkar langar ekki að vinna í stóriðjuverum, að fæstir vilja að börnin þeirra vinni þar - Hver á þá að vinna þar????
Ásta (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 10:04
ómar!mig langar að fá álit þitt á að virkja eigi Merkigil í skagafirði.þetta er merkur staður og væri sárt ef fallegu gilin færu undir vatn
.austur og vesturdalur eiga sér langa sögu, og ábær gamli kirkjustaðurinn færi sennilega undir vatn.hræðilegt bara
Adda bloggar, 24.4.2007 kl. 10:07
Alveg ótrúlegt að lesa þessar samsæriskenningar eins og hjá Ástu hér að ofan. Eða hvers vegna ættu íslensk orkufyrirtæki (eða eigendur þeirra) að plotta svona gegn almenningi og okra á rafmagni til almennings til að niðurgreiða raforku til stóriðju? Hvar, fyrirgefið, er mótívið í þessari kenningu? Ítrekað hefur komið fram að samningar um söluna til stóriðju hafa verið forsenda þess að hægt yrði að reisa stórar virkjanir og öflugt flutningskerfi og þannig forsenda fyrir miklu lægra raforkuverði til almennings en ella. Og þeir sem halda því fram að Jón og Gunna eigi að geta keypt rafmagn - svona annað slagið þegar þeim hugnast að kveikja á sínum tækjum og tólum - á sama verði og t.d. Alcan sem kaupir milljónfalt meira magn og það stöðugt (afgangsrafmagn fer til spillis, geymist ekki á lager) hafa greinilega ekki græna glóru um hvernig fyrirtæki eru rekin, hvernig markaður virkar eða hvernig verðmætin verða til. Fólk sem vill ekki hlusta á þetta heldur áfram fáránlegum samsæriskenningum. Og svo fylgir þarna með hefðbundinn hroki í garð þeirra þúsunda Íslendinga sem starfa eða munu brátt starfa í álverum. Voru ekki tvö þúsund að sækja um hjá Alcoa? Það fólk mun fá mjög góð laun (framkvæmdastjóri ASÍ hefur m.a. flutt um það erindi, reyndar um Alcan) og mun greiða af þeim heilmikið fé í tekjuskatt og útsvar. Eitthvað segir mér að hluti þeirra fjármuna muni síðan renna í vasa hennar Ástu sem úthúðar þessu fólki.
Gústaf (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 14:53
Sæll Ómar, það sem ég hef lært af þessu bloggi þínu er miðað við viðbrögðin (hvort sem fólk er með eða á móti) að þú hreyfir vissulega við þjóðinni. Þér hefur tekist að skapa mikla og góða umræðu þrátt fyrir að sumir sem skrifi athugasemdir séu nánast dónalegir við þig og þau sjónarmið sem þú trúir á.
Mér langar að biðja fólk um að sleppa persónuníði við Ómar og aðra í athugasemdum því slík ummæli dæma sig, og þann sem ritar, ómerk og ganglaust níð.
Ég vill þakka Ómari fyrir þann dugnað og þor að koma fram með þeim hætti sem hann hefur gert og myndi vilja sjá aðra fulltrúa Íslandshreyfingarinna (sérstaklega þá sem er u í efstu sætum í kjördomum) til að gera slíkt hið sama.
Ómar leggur mikla tilfinningu í sín störf og hvort sem fólk er með eða á móti ætti að standa upp fyrir honum og klappa.
Ómar, þú átt þakkir skildar, þú hefur hreyft við þjóðinni verulega og ekki síður við samkeppnisaðilum þínum um þingsætin í maí, hvert aflið rís upp á fætur öðru og teygir sig til móts við Íslandshreyfinguna.
takk,
árni
Árni Haraldsson (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 15:34
Á meðan Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki ber fyrirtækinu skylda til að sannfæra eigendur sína, þjóðina, um að það fari vel með sín fjármál. Ríkisábyrgðin, samningaleyndin og margt annað er mjög vafasamt.
Það er mjög einföld lausn á þessu sem hefði betur verið farin við Kárahnjúkavirkjun. Ríkið leigir út landið undir virkjanir, setur kröfur um náttúruvernd en lætur einkafyrirtæki um framkvæmdina.
Þetta eru hins vegar fjárhagsleg rök. Öll náttúruverndarrök mæla frekar með því að fjölga virkjunum heldur en ferðamönnum, þvert á það sem Ómar heldur fram.
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 17:31
Kárahnjúkavirkjun og álbræðsla á Reyðarfirði eru því miður hæpin fyrirtæki - fyrir Íslendinga. Alcoa græðir en Íslendingar tapa, ef litið er framhjá þröngum skammtímahagsmunum fáeinna einstaklinga. Þetta mun renna upp fyrir öllum landsmönnum á næstu 2-3 árum:
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1141189
http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1141305
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 12:01
Takk fyrir að benda á greinarnar. Hins vegar finnst mér þú hafa oftúlkað þær. Fyrir nokkrum árum kostaði fatið af olíu 10$, nú kostar það allt upp í 70$. Þetta gerir það að verkum að það er orðið hagkvæmara en áður að ryðja regnskóg til að rækta bensín á bíla og setja upp orkufrekan iðnað á Íslandi.
Indriði gerir fyrirvara um að það þurfi að skoða tölurnar í sambandi við áliðnaðinn. Styðjum hann frekar í þeirri viðleitni heldur en að draga ályktanir umfram þær sem höfundur hefur sett fram.
Á þessi álveradeila að verða enn eit moldviðrið sem skilur ekki eftir sig eina einustu staðreynd í kollinum á fólki.
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 12:30
Sæll Ómar. Þú hefur eftir Herði Arnarsyni forstjóra Marels að arðsemin sé langt fyrir neðan það sem einkafyrirtæki telja viðunandi. Gott og vel. Reynsla Ísfirðinga bendir hins vegar til þess að sú arðsemi sem Hörður telur viðunandi náist ekki svo auðveldlega. Getur verið að arðsemiskrafa Harðar sé of há? Hvernig heldur þú að Ísfirðingar myndu svara því?
Baldur Már Bragason, 26.4.2007 kl. 09:00
Það er varla að ég nenni orðið að leiðrétta allt´bullið sem hér kemur fram frá andstæðingum framkvæmdanna fyrir austan, Dharma og Eiður Ragnarson gera það ágætlega (nema Eiður, íbúarnir á Reyðarfirði voru komnir niður í 620 þegar fjölgunin byrjaði)
Og Ómar, þú heldur áfram að bulla eins og krakki:
"Ef þessir 120 milljarðar hefðu verið settir í ferðaþjónustu eða betri flugvöll eystra og uppbyggingu í störfum sem byggjast á hugviti og aðdráttarafli einstæðrar náttúru sem nú hefur verið stórlöskuð væri framtíð Austurlands bjartari þegar til lengri tíma er litið".
Hvaðan ætlarðu að taka þessa 120 miljarða? Þessir peningar hafa aldrei verið í ríkissjóði og taka ekkert frá öðrum verkefnum. Hvers vegna ætti betri flugvöllur á Egilsstöðum að laða að fleiri ferðamenn?, þar geta lent stórar farþegaþotur í dag.
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2007 kl. 17:26
Hægt er að smella hÉR til að sjá hvað átt hefur sér stað á Reyðarfirði undanfarið
Gunnar Th. Gunnarsson, 27.4.2007 kl. 17:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.