Hvað hefur breyst svona mikið í 80 ár ?

Í 80 ár hefur það gerst án undantekninga að verðbólga hefur farið af stað í kjölfar launahækkana og í kjölfar hækkandi verðlags hefur myndast þörf fyrir nýjar launahækkanir.

Fyrr á tíð voru það að mestu atvinnurekendur á frjálsa markaðnum, sem gátu spornað við því að hækka verðlag á vörum og þjónustu en síðustu áratugi er svo stór hluti launa borgaður af opinberum stofnunum og fyrirtækjum hjá ríki og sveitarfélögum, að kjörnir fulltrúar almennings í stjórnum þessara stofnana og fyrirtækja hafa talið sig knúna til að hækka gjöld, því að annars myndist rekstrartap hjá þeim sem bitni á almenningi, sem að langstærstum hluta eru launþegar.

Þegar menn hafa vonað, að í þetta sinn, það fyrsta í 80 ár, myndi þetta ekki gerast, hefur sú röksemd ein heyrst, að vilji sé allt sem þarf, viljinn til þess að hleypa launahækkunum ekki út í verðlagið.

En það hefur svo sem heyrst áður í þessi 80 ár, án þess að hægt hafi verið að uppfylla þessa ósk.

1959 var reynd niðurfærsla launa og verðlags og 1970 var reynd verðstöðvun. Hvorugt tókst. Hvað hefur breyst svona mikið síðan þá?    


mbl.is Verðbólga eykst hraðar en spáð var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"... í kjölfar hækkandi verðlags hefur myndast þörf fyrir nýjar launahækkanir."

Án nokkurra útskýringa ertu að gefa hér sterklega í skyn að ekkert þýði að hækka laun hér á Íslandi því það leiði sjálfkrafa af sér að verðlagshækkanir verði hér jafn miklar og launahækkanir.

Þorsteinn Briem, 24.7.2015 kl. 12:53

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þegar launakostnaður atvinnurekanda hækkar hefur hann aðallega fjóra valkosti um hvernig hann bregst við því:

    • Að draga úr öðrum rekstrarkostnaði með hagræðingu.

    • Að draga úr eigin arðsemiskröfum til rekstrarins.

    • Að velta hækkuninni út í verð á vörum og þjónustu.

    • Að leggja niður starfsemina viljandi eða nauðugur.

    Ef vel er að gáð leiðir aðeins einn þessarra valkosta til verðbólgu, það er nr. 3 að hækka verð á vörum þjónustu. Verðbólga er hinsvegar slæm fyrir alla, bæði neytendur og atvinnurekendur sem eru sjálfir líka neytendur undir vissum kringumstæðum. Það er því kannski kominn tími til að atvinnurekendur íhugi einhverja af hinum valkostunum þremur, frekar en verðbólguna?

    Til dæmis leiðir nr. 3 óhjákvæmilega til nr. 2 þar sem sá arður sem fæst af rekstrinum verður minna virði ef verðbólga eykst og því gætu atvinnurekendur komist að sömu niðurstöðu með því að fara beint í nr. 1 hagræðingu í rekstri eða nr. 2 að draga úr arðsemiskröfu, án þess að það myndi leiða til aukningar mældrar verðbólgu. Treysti þeir sér ekki til þess er nr. 4. hvort sem óhjákvæmileg niðurstaða í slíkum tilvikum því með sívaxandi verðhækkunum mun fólk hætta að hafa efni á viðskiptum við hlutaðeigandi atvinnurekanda og þá stöðvast reksturinn og fer á hausinn. Það er því alveg eins gott í slíkum tilvikum að hætta rekstrinum strax og sleppa verðbólgunni alveg.

    Eins og hér hefur verið sýnt fram á er það aldrei skynsamlegasta ákvörðunin sem atvinnurekandi getur tekið, að velta launahækkunum beint út í verðlag, og reyndar er það í öllum tilvikum versta ákvörðunin af þeim sem eru mögulegar. Ástæðan fyrir þessu sögulega mynstri verðlagshækkana í kjölfara launahækkana á íslenskum vinnumarkaði, virðist því öðru fremur vera skammsýni og skorti á sjálfbærri ákvarðanatöku um að kenna. Hér pissa allir í skóna sína.

    Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2015 kl. 18:00

    3 Smámynd: Einar Örn Gissurarson

    Skammsýni spilar oft stóran þátt í ákvörðunartöku, Guðmundur, en aðrir þættir geta spilað inn.

    Til að nefna, langar mig að spyrja hvort þú hafir heyrt af valþröng fangans (e. Prisoner's dilemma), sem er klassískt dæmi úr leikjafræði.

    Það lýsir sig með einföldu dæmi, þar sem tveir menn eru í varðgæslu, grunaðir um glæp en lögreglan er bara með nóg sönnunargögn til að ákæra þá báða fyrir vitorð um glæpinn. Báðir fangarnir eru haldið aðskildum og þeir hafa val um að neita öllum ásökunum eða semja við lögregluna og svíkja þar með félaga sinn.
    Við þær aðstæður eru 4 mögulegar útkomur.
    a) Báðir menn þegja. Þeir verða ákærðir fyrir vitorð og fá báðir mildan dóm.

    b) Maður A þegir en B kjaftar. A fær þungan dóm og B sleppur laus.

    c) Maður A kjaftar og B þegir. B sleppur laus og A fær þungan dóm.

    d) Báðir kjafta. Báðir menn fá þungan dóm, sem væri hugsanlega mildaður ef þeir ákveða svo að játa.

    Í rauninni er best fyrir báða menn að halda kjafti. Þó svo að það leiðir til dóms, því að þeir myndu sleppa fljótlega út aftur. En, ef annar kjaftar og hinn ekki, þá gæti sá sem kjaftar sloppið með skrekkinn. Báðir aðilar vita að ef hinn kjaftar, þá mun sá sem þegir sitja í súpunni.

    Þannig að í aðstæðum þar sem báðir menn treysta ekki hvorum fullkomlega, þá er líklegast að báðir munu kjafta, þar sem þeir gera báðir ráð fyrir því að hinn kjafti. Báðir menn búast ekki við að geta fengið útkomu a og gera sjálfkrafa ráð fyrir útkomu d, þó svo að þeir vonist eftir útkomu b/c, sér í hag.

    Í viðskiptum er þetta ekki það ólíkt. Hér nefnirðu aðstöðu, þar sem fyrirtæki hafa ákveðna valkosti til að bregðast við launahækkunum. Ef allir rekstraraðilar veldu hagræðingu, niðurskurð á arði eða blöndu af bæði, þá værir það náttúrulega best fyrir efnahagið

    Augljóslega er auðveldast að hækka vöruverð, en eins og við vitum öll í dag, þá leiðir það til verðbólgu. Náttúrulega vita þeir það líka, þar sem það er búið að vera mikið í umræðunni.

    Svo að hvers vegna gera þeir það?

    Vegna þess að þeir búast við verðbólgunni.

    Þeir treysta ekki að hin fyrirtækin séu tilbúnir að leggja á sig erfiðar hagræðingar og mögulega niðurskurð á sínu eigin arði, til að draga úr verðbólgu.

    Ef fyrirtæki X er eina fyrirtækið til að leggja á sig slíka vinnu tapar hann mest. Hann er ekki bara búinn að standa í þeim erfiðleikum að hagræða reksturinn og draga úr arðgreiðslu, heldur tapar hann meira þegar verðbólgan bítur á, sem hækkar rekstrarkostnað og dregur enn meira úr arði.

    Þess vegna hækka allir verðið.

    Einar Örn Gissurarson, 24.7.2015 kl. 18:55

    4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

    Mikið til í þessu Einar Örn.

    Ráðið sem við neytendur höfum við þessu er fyrst og fremst að verðlauna með viðskiptum okkar þá atvinnurekendur sem eru tilbúnir að taka "erfiða valkostinn" og hagræða frekar en að velta launum út í verðlag.

    Það er eitt sem vantar líka á Íslandi: ábyrg neytendahegðun.

    Góðar stundir.

    Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2015 kl. 19:10

    5 identicon

    Inn í þessa leikjafræði vantar alveg að hagræðing leiðir af sér lélegri vöru sökum sparnaðar. Þannig að endingin er orðin mjög lítil og því ekki hagræðing frekar sóun á verðmætum og hráefni.

    Haraldur Gudbjartsson (IP-tala skráð) 24.7.2015 kl. 21:23

    6 identicon

    Ekki má gleyma að drifkraftur verðbólgu er peningaútgáfa.

    Það yrði erfiðara fyrir atvinnurekandann að velta hækkuðum launakostnaði út í verðlagið ef ekki væri verið að dæla peningum inn í kerfið.

    Við slíkar aðstæður hefði hann einungis hina þrjá kostina eftir en allir myndu þeir verða til að draga úr framboði á atvinnu ef launakröfur yrðu of háar.

    Þess vegna vantar inn í að hægt sé að lækka laun komi í ljós að launakröfurnar voru of háar, en slíkt er aldrei gert.

    Eina leiðin út úr krísu atvinnulífsins sem verður við of háar launagreiðslur er því sú að fjármálavaldið gefi út fleiri krónur.

    Orsök verðbólgunnar er semsagt A. Laun eru aðeins hækkuð en ekki lækkuð (í krónum talið) og B. Krónum er dælt inn í hagkerfið.

    Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.7.2015 kl. 08:13

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband