31.7.2015 | 23:11
"Hentu okkur af við Hallærisplanið."
Rúm sem kemur manni á fætur í bókstaflegri merkingu minnir mig á atvik á unglingsárum mínum, þegar ég fékk oft lánaðan vörubílinn hans pabba til þess að fara á samkomur í Menntaskólanum eða bara til að fara á rúntinn.
Stundum var svonefnt "boddý" á bílpallinum, einfalt botnlaust tréskýli fyrir verkamenn með tveimur bekkjum langsum, sem notað var til að fara með þá í eða úr kaffi eða mat.
Boddýið var ekki á bílnum í eitt sinn þegar við höfðum setið á Laugavegi 11, og ég bauð nokkrum skólafélögum mínum að skutla þeim niður á rúntinn.
Þeir þáðu það, enda mikið sport að fara rúntinn standandi eins og í heiðursstöðu á pallinum og heilsa liðinu sem gekk eftir gangstéttunum.
Stóðu þeir þá fremst á pallinum og héldu sér í handrið, sem var þversum við fremri brún hans.
"Hvar viljið þið fara úr?" spurði ég strákana.
"Hentu okkur af við Hallærisplanið" svarað einn þeirra.
Það var einhver kvöldgalsi í mér, því að eftir að ég var búinn að aka niður Bankastræti, beygja suður Lækjargötu, taka þar beygju og aka til baka og vestur Austurstræti, renndi ég bílnum inn á Hallærisplanið, stöðvaði hann þar og byrjaði að sturta pallinum, bókstaflega sturtaði þeim aftur af honum.
Þetta voru frískir strákar og fljótir í viðbrögðum og stukku allir aftur af pallinum áður en hann hafði lyfst að ráði, - nema einn sem hélt áfram dauðahaldi í handriðið á pallinum, sem hélt áfram að lyftast hátt í loft upp.
Þar hékk hann skelfingu lostinn hátt yfir bílnum og planinu, en kliður fór um fólkið, sem var þarna, - enginn hafði áður séð neitt þessu líkt, - alveg fáránleg sjón.
Mér brá og lækkaði pallinn aftur niður, og var dauðfeginn að stráksa tókst að halda sér föstum allan tímann.
Hann fór síðan niður af pallinum að framverðu, upp við bílstjórahúsið og varð fátt um kveðjur.
Rúm sem kemur þér á fætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú er nú meiri grallarinn
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.8.2015 kl. 08:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.