"GAGA" ("MAD") er óviðunandi ógn. Ekki gleyma Hamborg 1943.

Tilvist kjarnorkuvopna heimsins er óviðunandi ógn við líf mannkynsins og lífríki jarðar.

"GAGA" kenningin (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra), - á ensku "MAD" (Mutual Assured Destruction), sem kjarnorkuvopnabirgðir heimsins og hernaðaráætlanir byggjast á, er yfirgengilegur fáránleiki og glæpur.

Japanir voru byrjaðir á samningaumleitunum 1945 en það hentaði ekki Bandamönnum.

Búið var að eyða nær öllum skipa- og flugvélaflota landsins, drepa 100 þúsund manns í einni loftárás á Tokyo og eyða helmingi allrar borgarbyggðar í landinu.

Bandaríkjamenn voru með áætlun um að varpa alls sex kjarnorkusprengjum í viðbót næstu mánuði.

Í upphafi var Kyoto, án nokkurs hernaðarlegs gildis, jafnvel helgari borg en Róm er fyrir kristna menn, efst á dauðalistanum á þeim forsendum að með því að eyða henni væri hægt að valda hámarks andlegu og líkamlegu tjóni, ekki bara vegna helgi borgarinnar og ómetanlegra menningarminja, heldur vegna þess að í borginni væri saman komið mest af hæfileikaríku og menntuðu fólki á einum stað, hægt að eyða hámarki andlegrar getu og valda mesta mögulega andlegu áfalli!

Einum manni, Henry L. Stimson hermálaráðherra, tókst að stöðva þessa vitfirrtu hugmynd.

Hiroshima og Nagasaki voru ekki mannskæðustu stóru hryðjuverkin. Fyrsta hryðjuverkið af þessari stærð í sögu lofthernaðar var árásin á Hamborg í júlí 1943 þar sem rúmlega 42600 voru drepnir, fleiri en í Nagasaki, en að vísu á þremur dögum í stað eins. Og síðar áttu fleiri eftir að deyja af afleiðingum árásarinnar á Nagasaki.  

Í Hamborg varð til í fyrsta sinn fyrirbrigðið "eldstormur" af þeirri stærð að ekkert jafn stórt hafði áður sést, - þar sem eldhafið varð svo öflugt, víðfeðmt og eyðandi, að það myndaði kerfi af stormum eða eins konar "eldstrokkum" (samanber skýstrokkum) sem sogaði fólk og lausa hluti inn í sig úti um alla borgina og steikti allt sem á vegi varð.Hamborg eftir loftárás 

Árásin var réttlætt með þörfinni á að eyðileggja höfnina og iðnfyrirtæki, en til þess þurfti ekki að drepa allt þetta fólk og gereyða heilum íbúðahverfum, sjá myndir frá Hamborg eftir árásirnar. 

Hamborg vill gleymast enn má ekki gleymast.   

Hamborg, Dresden, Tokyo, Hiroshima, Nagasaki. Með þessum stríðsglæpum var að vísu verið að hefna fyrir Guernica, Coventry og Belgrad, hina nýju tegund hryðjuverka og stríðsglæpa sem nasistar innleiddu, en söm var þó gerð allra sem að þessum skelfilegu árásum stóðu.

GAGA var næstum búið að leiða gereyðingu yfir mannkynið 1983 vegna bilunar í tölvu.

Eins og varðandi árás á Kyoto kom einn maður kom í veg fyrir stórslys og var refsað fyrir það. Mannkynið má ekki sætta sig við slíkt ástand.  

 

 

  


mbl.is Fullkomin tortíming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki rétt hjá þér Ómar að fyrsti eldstormurinn (e. firestorm") hafa verið í Hamborg 1943. 

Hið rétta er að hinn fyrsti gerðist í loftárásum Þjóðverja á bresku borgina Coventry tveimur og hálfu ári fyrr, hinn 14 nóvember 1940, og það tók Breta talsverðan tíma að átta sig á hvernig þetta hefði getað gerst. Síðan beittu þeir sjálfir þessari aðferð á óvini sína. Árásin á Dresden í febrúar 1945 þótti bandamönnum hálf misheppnuð þar sem ekki tókst að framkalla almennilegan eldstorm þar.

Það er auðvelt að fletta uppá svona einföldum staðreyndum á netinu nú til dags.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 6.8.2015 kl. 12:16

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er auðvelt að fletta því upp á mörgum stöðum að eldstormarnir í Hamborg voru af áður óþekktri stærð enda sýna mannfallstölurnar og eyðingin í Coventry og Hamborg vel þann mikla mun. 

Ómar Ragnarsson, 6.8.2015 kl. 12:46

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mannfallstölurnar eru: Coventry 568. Hamborg 42600. 

Ómar Ragnarsson, 6.8.2015 kl. 12:51

4 identicon

Eins og venjulega, þegar fleipur, og ósannindi sannast á þig, þá reynir þú að klóra þig út úr því með hártogunum og útúrsnúningum.

FYRSTI  eldstormurinn var EKKI í Hamborg heldur Coventry.
Fyrirbærið var fundið upp þar.

Hvort að þeir eldstormar sem fylgdu í kjölfarið í öðrum borgum voru meiri eða minni er svo allt annað umræðuefni.

Meiri menn biðjast forláts og leiðrétta sig þegar þeir fara með ámóta fleipur, en það er sjálfsagt til of mikils ætlast af þér.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 6.8.2015 kl. 13:03

5 Smámynd: Pétur Kristinsson

Þessi tilgáta um að USA hafi ætlað að bomba Kyoto af þeirri ástæðu að þar byggju menntaðra fólk var borin fram af sagnfræðingi í þættinum í gærkvöldi. Líklegri ástæða að mínu mati var að borgin hefur trúarlegt gildi og hefði skapað mun meiri óvild í garð USA en árás á Hiroshima. Það er líka eins og mig minni að flug til Hiroshima hafi verið styttra því flugleiðin frá eyjunni sem lagt var upp af var á þolmörkum flugþols B-29.

Pétur Kristinsson, 6.8.2015 kl. 13:21

6 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

"Hiroshima og Nagasaki voru ekki mannskæðustu stóru hryðjuverkin. Fyrsta hryðjuverkið af þessari stærð í sögu lofthernaðar var árásin á Hamborg í júlí 1943 þar sem rúmlega 42600 voru drepnir, fleiri en í Nagasaki, en að vísu á þremur dögum í stað eins."

Þetta er alrangt Ómar. Hiroshima og Nagasaki voru víst mannskæðustu stóru hryðjuverkin. Á sekúndubroti voru yfir 100 þús. manns drepnir í Hiroshima og um 80 þús í Nagasaki, Um þetta má víða finna heimildir. Þetta er töluvert fleiri en í árásinni á Hamborg (Operation Gomorrah), sem reyndar tók rúma viku, en ekki 3 daga, og drap 42,000 eins og þú réttilega segir.

En nú 70 árum síðar er fólk enn að deyja og kveljast í Japan vegna þessara aðgerða. Þessar tvær sprengingar, sem drápu jafnmarga og raun bar vitni á þessu örstutta andartaki, jafnast ekki á við neitt annað af mannavöldum í veraldarsögunni. Hvernig geturðu haldið öðru fram?!!

Með þessu er ég ekki að segja að árásin á Hamborg hafi verið réttlætanleg, hún var einfaldlega ekki nærri neinu sem gerðist í Japan.

Erlingur Alfreð Jónsson, 6.8.2015 kl. 13:43

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hér að ofan fara menn mikinn í því að nota aukaatriði til þess að geta sagt að ég fari með fleipur og vitleysu. 

Aðalatriðið, fjöldi þeirra sem drepnir voru, verður að aukaatriði hjá þessum mönnum. 

Fram til 1943 var árásin á Belgrad, borg með enga hernaðarlega þýðingu, með 17 þúsundum drepnum, versta hryðuverk í sögu lofthernaðar. 

Stökkið upp í 42600 í Hamborg var hins vegar stærsta stökkið í mannslífum talið fram að því.  

Ómar Ragnarsson, 6.8.2015 kl. 21:48

8 identicon

Ég sé litla ástæðu til að aðskilja kjarnorkusprengjurnar frá öðrum vísvitandi sprengjuárásum á almenna borgara. "Verknaðurinn" er sprengjuherferð bandamanna í heild og hún varð á bilinu 600 þús til 1,2 milljónum að bana í Japan, Þýskalandi og á Ítalíu.

Bjarki (IP-tala skráð) 7.8.2015 kl. 08:13

9 identicon

Ja hérna, reykspólar á flóttanum (í smábíl?) alla leið til Belgrad. !

Allt upphaflega bloggið gengur út á það að skapa einhverskonar samúð með Þjóðverjum og Japönum handa óupplýstum lesendum og sjálfsagt einnig til þess að friðþægja kertafleytingaliðið þessa dagana.  Ætlunin er að sanna að illskan hafi öll verið Bandamannamegin (bloggarinn Bjarki gengur beint í gildruna). Sparðatýningur og fleipur er sett fram sem styður tilgátuna, en hinu sem ekki passar er sópað undir teppið eða ekki á það minnst.

Hvernig skyldi standa á því að hvorki Þjóðverja né Japanir setja fram ámóta "röksemdir" þegar slíka afmælisatburði í þeirra sögu ber upp á almanakinu ? Hinir fyrrnefndu steinþegja (langbesta aðferðin), á meðan þeir síðarnefndu endursýna nokkur viðtöl við gamalmenni og yfirlitsmyndir yfir borgarrústirnar, efni sem verður svo endurnýtt að ári. Hvorugir kveinka sér.

Það er einfaldlega vegna þess að þeir vita upp á sig skömmina: báðar þjóðir voru með kjarnorkusprengju í smíðum í stríðslok og hefðu ekki hikað eina sekúndu við að beita henni á andstæðingana ef tækifæri hefði gefist til.

Enginn kippir sér lengur upp við hernaðarlegar sprengjuherferðir (e. strategic bombing) af þessu tagi. Reyndar var aðferðin þróuð og endurbætt í Víetnamstríðinu, þar sem í stað þess að einbeita sér að einstaka fyrirfram ákveðnu skotmarki eða borg, þá voru sprengjuteppi (e. carpet bombing) lögð yfir gríðarstór landsvæði og jafnvel heilu löndin. Aðferðin gefst svo vel, (nýlegasta dæmið: Lýbía), að nú telja hernaðarsérfræðingarnir að einna besti árangurinn náist með því að sprengja andstæðinginn alveg "niður á steinaldarstigið".
 


Björn Jónsson (IP-tala skráð) 7.8.2015 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband