Byrjun á stækkandi vanda.

Eitt sinn var Fönikía, þar sem nú eru Túnis og Líbía. Fönikíka var stórveldi í krafti auðlinda landsins, sem fyrst og fremst fólust í góðum skilyrðum fyrir landbúnað. 

Sama má segja um stórveldistíma Mesópótamíu, þar sem nú er Írak. 

Nú eru eyðimerkur, þar sem áður voru blómleg héruð, stór hluti beggja landa. 

Hlýnun lofthjúpsins og auknir þurrkar gera ástandið verra, auk þess sem Afríka er sú álfa þar sem búist er við mestri fólksfjölgun. 

Hnignun landgæða er mest af mannavöldum og við það bætist annað sem er af mannavöldum, en það eru stórfelldir styrkir vegna landbúnaðar í Evrópu og innflutningstollar til þess að koma í veg fyrir að samkeppnisfær landbúnaður sunnar geti fengið að njóta sín. 

Allt frá ráðstefnunum í Ríó, Kyoto og Kaupmannahöfn hefur síðasti aldarfjórðungur verið markaður nær algeru getu- og viljaleysi leiðtoga þjóðanna til þess að láta af rányrkju og skammtímagræðgi. 

Því miður eru litlar líkur á að útkoman úr Parísarráðstefnunni í haust breyti miklu en þá er sennilega síðasta tækifærið til þess að mannkynið sjái að sér.

Vandinn, sem felst í fólksflóttanum frá Afríku til Evrópu, er aðeins byrjunin á því að margs konsar afleiðingar sinnuleysis þjóðanna fari að herja á þær með vaxandi þunga.  

 

 


mbl.is Reyndi að smygla 18 flóttamönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er víða pottur brotinn út í hinum stóra heimi;

það er að æra óstöðugan að ætla að setja sig inn í það allt.

Eru ekki af nógu af taka hér heima fyrir?

Viltu sölu eða bann á makríl til rússa?

Hvað er að frétta af nýju sjúkrahúsi?

Jón Þórhallsson, 9.8.2015 kl. 22:02

2 identicon

Ert þú ekki að rugla saman Líbíu og Líbanon?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 9.8.2015 kl. 22:20

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ónei, þar er um 2500 kílómetra loftlína frá því svæði þar sem Fönikía var austur til Líbanon, eða álíka löng loftlína og frá Íslandi til vestasta hluta Póllands. 

Ómar Ragnarsson, 9.8.2015 kl. 23:12

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Föníka eða Fönikía var menningarsamfélag í fornöld sem átti uppruna sinn í norðurhluta Kananslands á ströndum þess sem nú er Líbanon.

Föníka var sjóveldi og verslunarveldi sem stofnaði borgríki allt í kringum Miðjarðarhafið á 1. árþúsundi f.Kr."

Föníka

Þorsteinn Briem, 9.8.2015 kl. 23:37

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þarna hefur Hans (sem oftar) rétt fyrir sér, Ómar minn.

Fönikía var land fyrir norðan Landið helga -- var þar sem nú er Líbanon og hluti Sýrlands. Hitt er rétt, að Karþagó var upphaflega byggð af Fönikíumönnum. Þetta er allt í fornaldarsögunni, sem nú er tími til að draga fram.

Jón Valur Jensson, 9.8.2015 kl. 23:37

6 identicon

Fönikía er gríkst orð að uppruna og yfirleitt notað um Byblos, Sídon, Týros og nærsveitir þaðan sem föníkíumenn áttu uppruna sinn (svæði sem nú er í Líbanon, Sýrlandi og Ísrael).

Sennilega ert þú að hugsa um Karþagó, eina af mörgum nýbyggðum föníkíumanna.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 9.8.2015 kl. 23:39

7 identicon

Ertu alveg viss um þetta? Sjá t.d. https://is.wikipedia.org/wiki/F%C3%B6n%C3%ADka

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 9.8.2015 kl. 23:40

8 identicon

Ómar er sennilega að rugla saman Karthagó og Föníku, en það skiptir nú ekki höfuðmáli.
Flóttamennirnir, ef flóttamenn skyldi kalla eru ekki nema að litlu leyti frá Karthagó, eða Föníku, Meginuppistaðan er frá Sómalíu, Erítreu, Afganistan og Sýrlandi.
Flestir eru á efnahagslegum flótta, nema kannski þeir frá Sýrlandi.

Þeir sem ná ströndum Evrópu hafa oft á tíðum greitt hundruði þúsunda, jafnvel miljónir, til skipulagðra glæpasamtaka til að koma þeim yfir frá Líbíu. Það er því ljóst, að þeir sem leggja af stað eru ekki beinlínis á horriminni. Það eru bara þeir betur stæðir sem leggjast í þetta ferðalag. Fátækasta fólkið hefur ekki séns á þessu.

Straumurinn yfir hefur nákvæmlega ekkert með loftslagsbreytingar að gera. Hann hefur með það að gera, að múslimar í þessum löndum eru uppteknari af erjum, deilum og stríðum en að reka farsælt þjóðfélag. Heima fyrir hata þeir og fyrirlíta Evrópu og Evrópumenn, siði þeirra og venjur, en slá hendinni svo sannarlega ekki á móti lífsgæðunum sem álfan bíður uppá.
Og ef ekki er brugðist við, endum við með sama standard.

Hilmar (IP-tala skráð) 10.8.2015 kl. 01:01

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Karþagó var í þáverandi Fönikíu og borgin hryggjarstykkið og miðjan í veldi landsins, sem teygði áhrifasvæði sitt eftir endilangri norðurströnd Afríku. 

Ómar Ragnarsson, 10.8.2015 kl. 18:21

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess vegna sagði Cato hinn gamli ævinlega þegar hann vildi ráðast gegn Fönikíu: "Auk þess legg ég til að Karþagó sé lögð í eyði", minntist aldrei á borgir 2500 kílómetrum austar. 

Ómar Ragnarsson, 10.8.2015 kl. 18:22

11 identicon

Nú átti Danmörk landspildu á Indlandiog í Vestur Afríku.. Var þá Danmörk á Indlandi? Eða Vestur Afríku?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 10.8.2015 kl. 23:21

12 identicon

Fönikíumenn, líkt og Grikkir til forna, voru þjóð en ekki ríki og "veldi landsins" var aldrei til.

Fönikíumenn voru miklir kaupmenn og sæfarar og komu upp verslunarnýlendum víða um Miðjarðarhaf og ein af þeim, Karþagó, átti um tíma töluvert veldi og keppti við Róm um yfirráð við vestari hluta Miðjarðarhafs. Það breytir því þó ekki að orðið "Fönikía" vísar jafnan til þess landsvæðis þaðan sem fönikíumenn komu, sem var u.þ.b það svæði sem nú er ríkið Líbanon.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 11.8.2015 kl. 00:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband