SLÆMUR BISNESS.

Er það ekki grátlegt að flokkurinn, sem hefur haldið á lofti lögmálum frelsis og markaðlögmála skuli ganga fremst fram í því að nota ríkisstyrkt handafl til stórkarlalegra verksmiðjulausna með taprekstursævintýrið Kárahnjúkavirkjun sem flaggskip? Stefnir síðan að því að selja alla virkjanlega orku á spottprís til mengandi álvera svo að ekkert verði afgangs handa þekkingariðnaði eða vetnisvæðingu sem gætu vafalaust borgað hærra orkuverð án mengunar.

Enn óskynsamlegra er það að fórna mesta verðmætinu, íslenskri náttúru, fyrir þetta án þess að nokkuð sé gert til að kanna virði hennar heldur gengið út frá því að hún sé einskis virði. Það sem bar fyrir augu á hinu einstæða svæði sem á engan sinn líka í heiminum og nú er að sökkva undir Hálslón, - þetta var ekki metið á krónu.

Á sama tíma er útsýni úr íbúð í háhýsi við Sæbraut metið á allt að 15 milljónum króna meira virði en útsýni úr nákvæmlega eins íbúð í Túnunum. Og þó er Esjan, fjallið sem horft er á, ekkert merkilegra en tugþúsundir fjalla um allan heim.

Ég hef lengi reynt að benda á það hve nauðsynlegt það væri að setja kraft í djúpboranir sem gætu gjörbylt öllu orkuumhverfi á Íslandi og að það væri óskynsamlegt að vaða áfram í virkjanaæðinu, heldur bíða og sjá hvort hægt verði að ná sama árangri með margfalt minni umhverfisröskun.

Einnig að reyna að laða fjárfesta til þess að setja kraft í þessar djúpboranir og fylgja því svo eftir til annarra landa. Nú hefur það gerst að þýskt orkufyrirtæki hefur áhuga á því að fjárfesta í djúpborunum hér á landi og fylgja því eftir með því að flytja raforku um sæstreng til Evrópu.

Þegar litið er til þess að hugbúnaðarfyrirtæki vilja koma til landsins og kaupa raforku til mengunarlausrar starfsemi með mun betri og fleiri störfum á orkueiningu hlýtur það að teljast slæmur bisness að halda áfram álveraóðagotinu.

Bendi á www. islandshreyfing.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Hvar fáum við þá álið? Í flugvélarnar? bílana? og annað smálegt?

Vilborg Traustadóttir, 1.5.2007 kl. 00:24

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Hvað með hafsbotninn við Ísland, Íslandsmið ?

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.5.2007 kl. 00:29

3 identicon

Ómar, þú ættir að tala við sérfræðinga áður en þú hefur að skrifa um eitthvað sem þú hefur ekki þekkingu á.   Það er nóg af bessevisserum fyrir í stjórnmálum og með svona skrifum ert þú farinn að líkjast þeim versta á þessu sviði, Steingrími J. Sigfússyni, sem talaði eins og hann væri helsti sérfræðingur heimsins um ferðamannaiðnaðinn og byggingaverkfræði, þegar hann mótmælti byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á sínum tíma.   Um þetta má lesa á blogginu hans Eyþórs Arndals hér.

Ein víkum að pistli þínum:

Þú segir að orkan sé seld á spottprís.   Hvað hefur þú fyrir þér í því.  Skv. Landsvirkjun er arðsemi eiginfjár af Kárahnjúkavirkjun 11,9% sem þykir gott á þessu sviði.   Þetta mat er unnið af færustu sérfræðingum og fer í gegnum strangt verkferli, sem felur m.a. annars í sér að aðrir sérfræðingar rýna vinnu hinna.   Að sjálfsögðu er orkan seld á lægra verði en til smákaupenda, enda kostnaður við afhendingu orkunnar margfalt ódýrari og þar að auki er eðlilegt í viðskiptum að veita magnafslætti.   Síðan má benda á að afleidd arðsemi fyrir þjóðfélagið, sem felur m.a. í sér blómstrandi atvinnu- og mannlíf á Austurlandi er gríðarleg.

Hvað fegurð svæðisins sem fer undir Hálslón, þá finnst mér það móðgun við náttúru Íslands að tala um þetta sem einhverja sérstaka náttúruperlu (sem reyndar fáir höfðu haft aðgang að fyrir framkvæmdirnar).   En það er náttúrulega bara matsatriði og mitt mat eftir skoðun á þessu svæði er að það var í meginatriðum grátt og ljótt. 

Myndir þú borga extra 15 milljónir til að geta horft á Esjuna?  Þarna held ég að staðsetningin skipti meira máli og gæði byggingarinnar.   Mjög hátt hlutfall Reykvíkinga getur glápt á Esjuna út um gluggann heima hjá sér, þannig að þarna ekki beint um takmörkuð gæði að ræða.

Djúpborunarverkefnið er á góðu róli, þ.e.a.s. ekki borgar sig á þessu stigi að bora samtímis fleiri holur.    Hver svona hola er mjög dýr, allt að einum milljarði með öllu, vandamál komu upp með holuna á Reykjanesi og nú stendur undirbúningur undir nýja á Hellisheiðinni.   Undirbúningurinn einn tekur ár, áður en borinn mætir á staðinn.   Á þessu stigi væri það ekki góður bisiness að byggja áætlanir á væntingum um hvað verkefnið kemur til með að skila.  Það veit enginn í dag hver niðurstaðan verður og líklegt að hún liggi ekki endanlega fyrir, fyrr en eftir 10-15 ár, skv. útgefnum skýrslum.  Og almennt séð, þá er það ekki góður bisness að bara bíða og sjá til; tækifærisgluggar opnast og lokast á víxl, í dag lítur út fyrir að einhverjir vilji kaupa orkuna okkar í miklu magni en engin veit hvernig ástandið verður á þeim mörkuðum sem ráða hér ferð verður eftir t.d. 5 ár.

Þá kemur mér það á óvart að þú virðist fylgjandi því að flytja út orkuna okkar um sæstrengi til annarra landa, á sama tíma og þú talar í ýktum tón um að verið sé að ráðstafa allri virkjanlegri orku okkar til stóriðju.   Ég held að þjóðhagfræðilega séð væri það vitlausasta sem við gætum gert, því þá skapar hún okkur enga atvinnuuppbyggingu, enginn virðisauki verður af henni hérlendis og þar að auki efast ég um arðsemina, því það er gríðarlega dýrt að leggja svona langa sæstrengi, reyndar eitthvað sem ekki hefur reynt áður í þeim skala sem hér um ræðir.

Hvað hugbúnaðarfyrirtæki varðar, þ.e.a.s. fyrirtæki sem þróa hugbúnað, þá nota þau afar litla orku, eins og hvert annað skrifstofufyrirtæki.  Líklega notar Glitnir banki meira rafmagn heldur en öll hugbúnaðarfyrirtæki á Íslandi til samans.   Ég geri reyndar ráð fyrir að þú eigir hér við starfsemi tölvuvera eða netþjónabú eins og sumir hafa viljað kalla það.   Slík starfsemi telst ekki til orkufreks iðnaðar og þyrfti engar virkjanir þó nokkur slík myndu skjóta hér upp kollinum - bendi á þessa skýrslu til fróðleiks hvað þetta snertir.  

Forsendur frekari virkjana á Íslandi er að hér verði byggð fleiri stóriðjuver.   Komi til þess einhverntímann e. kannski 30-50 ár að bílafloti landsmanna verði orðinn vetnisvæddur, þá dygði virkjun af stærðargráðunni 200 MW til þess m.v. núverandi stærð bílaflotans og tæplega tvöfalt það til viðbótar ef við tækjum allan skipaflotann líka.   Mér sýnist því ekkert tilefni vera til þess að hafa áhyggjur af því að ekki verði næg orka til þess, þó svo að við eflum enn frekar orkufrekan iðnað hérlendis í millitíðinni.

Bjarni M. (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 03:44

4 identicon

Sælinú
Þetta var fínt yfirlit hjá þér Bjarni. Það er bara einn punktur sem mig langar að spyrja um varðandi arðsemi eiginfjár. Ég skil hugtakið þegar um einkafyrirtæki á almennum lánamarkaði er að ræða en er hægt að skilgreina þetta hugtak þegar fyrirtæki nýtur ríkisábyrgðar? Verður talan ekki bull þá?
Ég reiknaði út að það þyrfti að þrefalda raforkuframleiðslu ársins 2005 til að búa til vetni sem jafngildir olíuinnflutningi Íslendinga.
Að búa til vetni í stað áls er fullkomin sóun á náttúruauðlindum og peningum. Fyrir utan það er vetnissamfélagið á draumórastigi enn þá og að öllum líkindum ekki mjög góð lausn.
Það þarf ekki endilega að búa til ál. Það er hægt að búa til sólarsellur, það er mjög orkufrekur iðnaður. Svo styð ég líka virkjanastopp ef skemmtikraftarnir sem hafa brugðið sér í gervi "verndara náttúrunnar" fást til að leggja bílum sínum og flugvélum og sýna í verki að þeir vilji vernda náttúruna.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 07:09

5 identicon

Smá viðbót. Það er góð ábending með hafsbotninn hér að ofan. Það var skelfilega hljóðlátt hjá "náttúruverndarsinnum" þegar rætt var um verndun hafsbotnsins í fyrra.
Varðandi djúpboranir, þá vona ég að þær takist giftusamlega en ég heyri engan kvarta yfir lífrænu bensíni sem þarf 10 til 30 falt landssvæði fyrir sömu orku og kemur út úr vatnsaflsvirkjunum eftir því sem ég hef skoðað. Á meðan við leggjum jafn verðmætt land og frumskóga undir lífrænt bensín þá bið ég heldur um vatnsafl, svo kannski um djúpboranir í framtíðinni.
Það er umfjöllun og viðtöl á BBC í dag við fólk sem flytur mengandi iðju til Kína í tengslum við hversu ósanngjarnt það er að henda ruslinu til þeirra og skamma þá svo fyrir að vera skítugir.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 09:35

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég vil leyfa mér að benda á hve slæmur bisness það er að vera að hugsa um að vetnisvæða bílaflotann. Það er hægt að ná sama vistvæna markmiði með því að nota rafgeyma sem orkubera í stað vetnis. Tæknin er þegar fyrir hendi.

Vetni er um helmingi verri orkuberi fyrir farartæki en rafgeymir.  Munurinn er það mikill að óliklegt er að hægt sé að reikna það vetninu í hag.

Til að framleiða vetni fyrir bílaflotann á Íslandi þarf því tvöfalt fleiri orkuver en ef hefðbundnir rafknúnir bílar væru notaðir.

Hvort er ódýrara? Hvort er skynsamlegra? Hvort er vistvænna; tvær virkjanir, eða ein sem nægir til að knýja samgönguflotann?   Hvers vegna ekki að nota bíla með rafgeymum frekar en bíla með vetnisgeymum? Tæknin er fyrir hendi!

Nánar hér: Vetnissamfélag eða rafeindasamfélag - samanburður á tveim kostum.

Ágúst H Bjarnason, 1.5.2007 kl. 09:43

7 identicon

komdu sæll ómar. mer synist þú nú líka farinn að gleyma öllu þvi fólki sem vinnur við álverin. er ekki kominn timi fyrir þetta bull að enda

hilmar (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 10:01

8 Smámynd: Pétur Henry Petersen

Dear Mr. Nader

Please reconsider your ambitions and where they will lead our nation!

Pétur Henry Petersen, 1.5.2007 kl. 11:29

9 identicon

Sæll Ómar.

Ég hef alltaf kunnað vel við þig sem skemmtikraft og fréttamann m.m.  En í pólitík finnst mér þú ekki eiga heima þar sem að þú virkar sem draumóramaður. 

Ég er sammála Bjarna M. í röksemdum hans og sjónarmiðum. 

Ég spyr, hvað er að áliðnaði?  Eru þetta bara ekki störf eins og hver önnur störf??  Ekki geta allir unnið í hátækniiðnaði, bönkum eða við ferðaþjónustu.  Er ekki best að hafa hér blandað atvinnulíf því mismunandi starfsemi hentar í mismunandi umhverfi?

Það virðist vera náttúrulögmál að hátæknistörf séu á Höfuðborgarsvæðinu enda er umhverfið þar mjög hagstætt fyrir slíka starfsemi.  Þar er öll nærþjónusta hvað varðar aðföng og sérfræðiþjónustu og nýtur því kosti stórrekstrar og er þannig sjálfstyrkjandi. 

Ómar nefnir risa tölvu- og gagnaver sem erlendir tölvurisar hafi áhuga á að reisa hér á landi.  Hvar mun svoleiðis starfsemi rísa á landinu.  "Auðvitað" á Höfuðborgarsvæðinu, hvar annars staðar.  Slík starfsemi kallar á marga hámenntaða sérfræðinga sem mun valda enn meiri og gífurlegri þenslu á Höfuðborgarsvæðinu líkt og er að gerast innan tölvugeirans þar í dag.

Einnig nefnir Ómar ferðarmennsku og segir að sérhvar ferðamaður gefi meira af sér en áltonnið eða um 98 þús. krónur.  Síðast þegar ég vissi kostaði áltonnið 2.833 USD pr. tonn skv. LME (London Metal Exchange).  2.833 USD x 65 kr./USD eru 184.145 krónur sem áltonn kostar.  Hvernig fáið þið þetta út hjá ykkur í Íslandshreifingunni??

Hinn dæmigerði ferðamaður sem kemur til Íslands er svona:

  • Flýgur með Icelandair eða ExlandExpress til landsins (bæði flugfélögin eru með höfuðstöðvar og starfsstöðvar í Reykjavík).
  • Kemur í gegnum flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík - (nær allt starfsfólk þar býr á Suð-Vesturhorninu).
  • Gistir á hóteli í Reykjavík
  • Fer á skemmtistaði í Reykjavík
  • Verslar í Reykjavík
  • Borðar á veitingahúsum í Reykjavík
  • Leigir sér bíl hjá bílaleigu í Reykjavík eða fer í dagsferðir með rútum frá Reykvísku rútufyrirtæki.
  • Ferða Gullnahriginn (Þingvellir-Geysir-Gullfoss-Stokkseyrarbakka)
  • Fer í Bláa lónið

Eins og sést fellur allur virðisauki af hinum dæmigerða erlenda ferðamanni í skaut fyrirtækja og þjónustuaðila í Reykjavík og á Suð-Vesturhorninu.  Hvernig ætlið þið að sannfæra t.d. atvinnulaust fólk úti á landi t.d. á Vestfjörðum, að það að fá hingað fleiri ferðamenn, heldur enn að reisa t.d. álver eða olíuhreinsarstöð???  Það fylgir líka mikil mengun af fleiri ferðamönnum í formi útblásturs, meira skolps og sorpi.  Og ekki er nú ferðamennska á ofur-jeppum og snjósleðum beint umhverfisvæn þegar brunað er á þessum reður-táknum yfir náttúru landsins???

Það er líka athyglisvert að þegar Lóa Pind Aldísardóttir spurði flokkana í fréttatíma í gær (30.4.) hvernig þeir ætluðu að forgangsraða í efnahagsmálum til að draga úr þenslu, að þá vildu stjórnarandstöðuflokkarnir allir nema Frjálslindir draga úr framkvæmdum við stóriðju og virkjanir (sem eru framkvæmdir mestmegnis úti á landsbyggðinni), endu vildu þess í stað reisa hátæknisjúkrahús, tónlistarhöll og tvöfalda vegi frá Höfuðborgarsvæðinu (semsagt allt framkvæmdir á Suð-Vesturhorninu sem mindu viðhalda þenslu á því svæði). 

Svo kallar stjórnarandstaðan sig flokka sem vilja jöfnuð og velferð í landinu öllu!  Ég skil bara ekki hvað stjórnarandstaðan meinar með því!

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 12:46

10 identicon

Sælinú
Nú legg ég til enn og aftur að við reynum að halda til haga því sem er rétt í öllum þessum hrærigraut og hendum staðreyndavillum.
Ég treysti því Ómar að næsta færsla þín verði eitthvað sem ég geti borið virðingu fyrir þó að við verðum kannski ekki sammála.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 14:16

11 identicon

Örn Jónasson þú ert að fara með rangt mál varðandi hvað áltonn og ferðamaður skilur eftir sig. Það er ekki nema 20% af gróða áltonns sem verður eftir á Íslandi það eru sirka 40þúsund krónur á áltonn. Ferðamaður skilur eftir sig 70% eftir á Íslandi sem gera sirka 70þúsund krónur. Ferðaþjónusta er líka mjög atvinnuskapandi, mikið meira atvinnuskapandi en álver og afleidd störf, bein og óbein eru líka miklu fleirri í ferðaþjónustu en í álframleiðslu eða olíheinsunarstöðvum.

Ég er líka á móti öllum þessum álverum þar sem að þau eru slæm fyrir viðskiptaumhverfi bankanna og fjámálafyritækja sem skapa mikla peninga fyrir ísland í formi erlendra fjárfestinga. Ef það verður mikil kreppa hérna þá má hugleiða álver, álverið í staumsvík er t.d. mjög got dæmi um velheppnaða framkvæmd á réttum tíma, annað en kárahnjúkar.

Bjöggi (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 19:15

12 identicon

Sæll Ómar og þakkir fyrir baráttu þína fyrir verndun hálendis og að velta upp þeim spurningum sem holt er fyrir alla að velta fyrir sér. Hér fyrir ofan eru margar góðar ábendingar og svör s.s. innlegg Ágústs Bjarnasonar um vetnisvæðingu. Því miður er það svo að alltaf eru einhverjir sem ekki geta sætt sig við andstæðar skoðanir og bregðast við með skítkasti eða útúrsnúningum. Álver verða án efa byggð fleiri á Íslandi á næstu áratugum eða þau sem fyrir eru stækkuð eða endurnýjuð, óðagotið nú er hins afskaplega heimskulegt og ástæðulaust þar sem orkuverð mun bara hækka og þá næst fram ásættanleg arðsemi virkjana. Næg eftirspurn verður eftir íslenskri orku um ókomna tíð, tækniþekking við virkjun jarðvarma er að verða alþjóðleg söluvara og ef vel er haldið á málum þarf ekki að fórna náttúrperlum líkt og gerðist með Laxárvirkjun á sínum tíma, Kárahnúka nú, og hinar planlögðu virkjanir og veitur í Skaftá, jökulsánum í Skagafirði, Skjálfandafljóti og hugsanlega virkjun Jökulsá á Fjöllum. Þú ert á réttri leið í þínum málflutningi þó ég sé nú ekki alveg sammála öllu. Nú er mál til komið að hugsa og planleggja hverning við náum sem mestu út úr því sem hægt er að nýta út frá náttúrverndar og siðferðislegum sjónarmiðum, ekki bara skyndigróða örfárra.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 20:56

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil benda á nýjustu fréttir um hraðhækkandi verð í orkufyrirtækjum, samanber kaupin á hluta af Hitaveitu Suðurnesja. Þetta er bara byrjunin því að nú er eftirspurnin eftir orkunni orðin miklu meiri en framboðið. Þess vegna er fráleitt að rjúka til að ráðstafa allri orkunni sem fyrst.

Hvað sæstrenginn snertir er ég sammála því að það sé ekkert keppikefli að ráðstafa orkunni á þann hátt. Nóg önnur og nærtækari not verða fyrir hana. Hitt er eftirsóknarvert að fá erlenda fjárfesta til að taka þátt í djúpborunarverkefninu.

Ég er heldur ekkert viss um að vetnisvæðingin muni leysa málin. Ég nefndi hins vegar þetta allt til að sýna fram á fáránleika þess að tala um alla þessa ráðstöfun orku sem greinilega er hvergi nærri nóg ef öll álverin verða að veruleika miðað við núverandi virkjunartækni.

Ómar Ragnarsson, 1.5.2007 kl. 21:23

14 identicon

Ómar reiknaðu hvað það kostar að láta segjum 5 milljarða renna til sjávar eða krauma undir fótum okkar óbeislaða, segjum í 5 ár og hvað orkuverðið þyrfti þá að vera miklu hærra að loknum dvalartímanum, til að ná þeim inn aftur (sem er reyndar ekki hægt því við seljum orkuna aldrei yfir markaðsverði - frekar undir því ef eitthvað vegna ýmsra óhagkvæmra þátta varðandi Íslandi, eins og fjárlægðar frá mörkuðum og tiltölulega dýrs vinnuafls svo e-ð sé nefnt).

Í dæminu yrðir þú einnig að gera ráð fyrir fjármagnstekjum og að í samningum um orkuna væru verðtryggingarákvæði, t.d. eins og nú er gert í tilviki samninga við álver, þar sem verðið er að hluta til bundið verði á áli á heimsmarkaði, sem hefur hingað til haft nokkuð góða fylgni við orkuverð á heimsmarkaði, sem er eðlilegt, þar sem það er stórt hlutfall af framleiðslukostnaðinum.   Ég fæ ekki betur séð en að hér sé um að ræða ansi dýran biðleik, þó aðeins sé litið frá tekjum af orkusölu.  Aðrar tapaðar tekjur yrðu enn stærri pakki.   Tilgangslaus biðleikur og alls ekki góður bisness ef þú spyrð mig.

Bjarni M. (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 23:06

15 identicon

Þetta átti náttúrulega að vera 5 milljarða á hverju ári í 5 ár....

Bjarni M. (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 23:11

16 identicon

Ekki veit ég hvernig Bjöggi fær að ferðamenn skili um 70% af heildarveltu sem hreinan gróða, nema að vera skildi að að álagning í ferðaþjónustu sé svona há??  Ekki veit ég heldur hvernig hann fær að einungis 20% sé hreinn gróði af áltonni. 

Hinsvegar "gleymir" hann að nefna öll afleiddu störfin af álvinnslu - (flutningastarfsemi, hafnarstarfsemi, veitugjöld, þjónusta iðnaðarmanna vegna viðhalds og endurbóta, opinber þjónusta, sala á aðföngum, þjónusta tölvufyrirtækja, þjónusta verkfræðistofa, þjónusta ráðgjafarstofa eins og t.d. Capacent, sala á afþreyingu fyrir starfsfólk álversins, ferðir til og frá álverinu).

Jú jú, vissulega skapar ferðaþjónusta mörg störf, en þeim er misskipt t.d. fellur bróðurpartur þeirra í skaut þjónustuaðila á Höfuðborgarsvæðinu.  Einungis 2% þeirra ferðamanna sem fara um Leifsstöð fara t.d. til Austurlands.

Djúpboranir já, hljómar vel, en er ekki ráðgert að þær eigi sér eingöngu stað á Reykjanesi??  Og ég sem hélt að Reykjanes væri náttúruperla.  Nú er ekki verið að tala um umhverfisvernd, en hefðu djúpboranir átt að verða annars staðar t.d. á Austurlandi, þá er ég viss um að umhverfis-ofstopafólk hefði risið upp á afturfæturna og mótmælt eyðileggingu náttúrunnar.  

Spurningin er, það eru uppi efasemdarraddir þess efnis að gufuaflsvirkjanir séu bara ekki svo umhverfisvænar.  Það er t.d. bent á að af þeim sé mikil losun gróðurhúsalofttegunda.  Auk þess veit enginn hversu lengi þessar virkjanir endast.

Skrýtið þegar talað var um að fara í miklar virkjanir annars staðar en á Suðurlandi og þá á ég við á Austurlandi, þá urður allt í einu til einstakar náttúruperlur þar.  Man einhver eftir fyrirhugaðri Eyjabakkavirkjun á Austurlandi??  Allt ætlaði um koll að keyra þegar talað var um að virkja þar fyrir 10 árum.  Menn "uppgötvuðu" allt í einu að þetta væri einstök náttúruperla.  Í dag man sjálfsagt enginn eftir þessari náttúruperlu og líklega koma þangað engir nema fuglinn fljúgandi og kannski nokkur hreindýr.  Þvílík verðmæti og hugsið ykkur hvað þessi náttúruperla gefur okkur "miklar" tekjur.  Lýsing á þessari "náttúruperlu" í bókinni Landið þitt Ísland frá árinu 1984:  "Eyjabakkar, vatna- og mýrarsvæði norð-austur of Vatnajökli" - og þar segir áfram; ógreiðfært og erfitt að komast að því.  Mýrarsvæðið er slíkt, að sést hefur tilhreindýra sem hafa sokkið í mýrina og horfið með öllu".  Um Kárahnjúkasvæðið segir í sömu bók eitthvað á þessa leið:  "Kárahnjúkar, hrikalegt klettagljúfur umgirt eyðisöndum.  Mjög erfitt að komast að þessu svæði sökum þess hversu stórgrýtt það er".   Þvílíkar náttúruperlur!

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 23:31

17 identicon

Þegar ég tala um 70% þá er ég að tala um þá peninga sem verða eftir að því að það eru keyptar íslenkar vörur.  Svo  eru margföldunaráhrifin sem  skapast af  ferðaþjónstu mikið  meiri en af  álbræðslu

Hver ferðamaður skilur eftir sig 70 þúsund krónur sem rúllar um í hagkerfinu en eitt tonn af áli skilur eftir sig 40 þúsund krónur. Svo fer það eftir því hvernig menn eiða peningunum hvað það er mikill gróði.

Stór hluti af peningunum sem koma af hverju tonni að áli fara í gjöld og arð til erlendra eigenda. Annar stór hluti fer í að kaupa bauxit, 20-30% fara í laun, kaup á rafmagni og kaup á þjónustu og vörum frá íslandi. Restin af peningunum fer úr landi. 

Þetta kemur meðal annar fram í kb fréttum 2005

Þrátt fyrir að heildaráhrif álbræðslu á íslenska hagkerfið séu fremur lítil,
þegar framkvæmdum sleppir eru svæðisbundin áhrif á Austurlandi um 8
milljarða króna virðisauki á ári þegar Fjarðaál verður tekið til starfa. Afleidd
störf frá stóriðju teljast ekki til þjóðhagslegs ábata vegna þess að þau myndu
skapast hvort sem er í kringum aðrar greinar þrátt fyrir að stóriðjunnar nyti
ekki við og fólkið sem flytur til staðarins til þess að vinna við störf tengd
stóriðju kemur einhvers staðar frá og úr öðrum störfum.

 Þar kemur líka fram : Þrátt fyrir að virðisaukningin
sé fremur lág á hvert áltonn er þó um að ræða þreföldun á núverandi
framleiðslugetu en útflutningstekjur af 490 þúsund tonn af áli jafngilda
útflutningstekjum af 42 þúsundum tonnum af þorski og um 145 þúsundum
ferðmönnum.

Sem þýðir að hver ferðamaður skilar 3 sinnum meiri hagvexti en hvert áltonn 

Seðlabanki Íslands úttekt sinni í Peningamálum vorið 2003 sagði að núvirt hagvaxtaráhrif
álversins á Reyðarfirði, frá fyrsta starfsdegi og til framtíðar, væru um 1%. Áhrifin á
hvert ár eru því verulega lítil í þjóðhagslegu tilliti. Ástæðan er ósköp einföld.
Langtímahagvaxtaráhrif álbræðslu felast fyrst og fremst í því að þeir framleiðsluþættir
sem starfsemin nýtir fái hærri greiðslur en þekkist annars staðar í hagkerfinu, s.s. að
launin séu hærri í áliðnaði en annar staðar. Þessi áhrif eru líklega til staðar, t.d. er
líklegt að ófaglærðir starfsmenn fái hærri laun í álbræðslu en annars staðar í
efnahagslífinu.

 Svo í kb fréttum:Ljóst er ennfremur að ef áfram verður haldið á sömu braut með byggingu álvera eftir
2007 mun það hafa veruleg áhrif á aðrar greinar, einkum þær sem eru í útflutningi.
Þessu verður í raun best líkt við það ástand er ríkti á áttunda áratug síðustu aldar
með skuttogaravæðingu og aukningu á frystingu botnfiskafla. Á þeim tíma leiddi mjög
hraður vöxtur í einni grein, botnfiskveiðum, til þess að raungengi krónunnar hækkaði
verulega og öðrum útflutningi var ýtt til hliðar. Svo rammt kvað að þessu að hlutfall
útflutnings af landsframleiðslu lækkaði þegar fram í sótti þrátt fyrir mikla aukningu í
útflutningstekjum sjávarútvegsins. 

Reyndar vill ég benda á slóðina sem þið getið nálgast kb fréttir 2005 http://www.kaupthing.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4404

og skemmtilega skýrlu unna fyrir seðlabankann http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3202

Lítið um jákvæð áhrif álbræðslu á efnahagslíf á íslandi í þessum skýrslum, Reyndar ef þið farið og finnið það sem fræðimenn, bankar eða fólk með þekkingu á efnahagsmálum hefur skrifað kemur reyndar lítið jákvætt fram um álbræðslu og virkjana gerð í þeim skýrslum.

Reyndar hef ég verið að vinna verkefni sem á að útskýra hagvaxtaráhrif álvera og þjóðhagsleg áhrif gætu orðið og fundið lítið í þeirri rannsókn minni um jákvæð áhrif álvers á íslenskt efnahagslíf. Það eru helst stjórnmálamenn sem tala jákvætt um álver og hafa þá ekkert í höndunum til að styðja sitt mál.

Bjöggi (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 01:40

18 identicon

Þegar þú segir að það komi engir ferðamenn á svæðið eru að fara með rangt mál til dæmis má taka að Samkvæmt könnunum RRF má áætla að árið 2003 hafi 115-125 þúsund ferðamenn komið á "umrætt svæði"(svæði sem átti að fara undir þjóðgarð, kárahnhúkar þar með talið) norðan Vatnajökuls í 130-140 þúsund heimsóknum. Svo virðist sem 85-90% þeirra hafi komið í þjóðgarðinn í Jökulsárgljúfrum, 20-25% í Eldfjalla-þjóðgarðinn og 15-20% í Snæfellsþjóðgarð. 7
Líklega voru um tveir þriðju þeirra sem komu á þjóðgarðssvæðið erlendir ferðamenn en um þriðjungur Íslendingar.

Þekki líka til ferðaþjónstu á ásturlandi og það er alveg nóg að gera þar. Það á að stækka flufvöllin, er verið að fjölga gistirímum og bæta afþreigingu. Samkvætm tölum hagstofu jukust gistinæru í Apríl2006 um 25% og menn sega a sú aukning sé jafnvel enn meiri þetta árið. Samkvæmt þessu er mikið að gera í ferðaþjónstu á Austurlandi. Og það er rangt að það séu bara 2%starfa í ferðaþjónstu sem skapast út á landi. Landsbyggðin á ótrúlega stóran hluta gistinótta á íslandi, ekki jafn mikið og reykjavík en hlutfallið er nógu hátt til þess að segja að það sé MIKLU MEIRA en 2% starfa í ferðaþjónstu út á landsbyggðinni.

Bjöggi (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 01:59

19 identicon

Til Bjögga  - (afsakaðu Ómar að ég skuli misnota bloggsíðuna þína svona).

Maður á alltaf að taka skýrslum greiningardeilda bankanna með fyrirvara.  Það gæti verið að skýrsla KB banka sé etv. svolítið "lituð" á afstöðu þeirra til Kárahnjúkavirkjunarinnar, en KB banki hefur ekki beina fjárhagslega hagsmuni af stóriðjunni á Austurlandi öfugt við Landsbankann sem beinan og óbeinan fjárhagslegan ávinning af verkefninu gegnum ýmis fjármögnunarverkefni í sambandi við þetta.  Skýrslur Landsbankans eru mun jákvæðari í garð stóriðjunnar á þarna fyrir austan.

KB banki reiknar (réttilega) út andvirði af framleiðslu hvers áltonns og hvað það gefur í þjóðarbúið, en tekur ekki með hvað afleidd störf gefi af sér (enda er svolítð erfitt að mæla það og ekki mögulegt fyrr en eftir að verksmiðjan er farin í ganga og búin að starfa í einhvern tíma).

Þegar ég nefndi 2% var ég að tilgreina þá ferðamenn sem koma í gegnum Leifsstöð og fara til Austfjarðar.  Þetta er reyndar tala síðan FYRIR stóriðjuverkefnið á Austurlandi og gefa til kynna að svona hefði það verið áfram ef ekki hefði komið til stóriðja á Austurlandi.  Eitt af því jákvæða er að stóriðjuverkefnið þar varð einmitt til að fjölga erlendum ferðamönnum og komum annarra útlendinga til Austurlands, og náttúrulega íslendinga líka.  Ekki eru til nákvæmar mælingar hvernig þessi skipting er á milli hópa, en margir sem koma á hálendið fyrir austan eru t.d. þeir sem eru að koma í vinnuheimsóknir til Kárahnjúka t.d erlendis frá og eða mótmælendur.  Svo hefur t.d. Landsbankinn og önnur fyrirtæki verið að senda heilu þotufarmana af viðskiptavinum í skoðunarferðir þarna austur.

Ferðamennska úti á landi verður alltaf árstíðarbundin starfsemi í ca. 3-4 mánuði.  Spruningin er, hvað á fólk úti á landi að gera restina af árinu?  Í álveri hefur fólk vinnu allan ársins hring.  Er það ekki gott?? 

Er vinna í álveri ekki eins góð og hvaða vinna sem er???   Eigum við ekki að nýta orku landsins til atvinnuskapandi verkefna, þessa orku sem við höfum státað af að eiga í svo miklu magni???? 

Hvað með ef það finnst olía fyrir norð-austan land??  Á að segja að ekki megi vinna hana því hún hafi ómetanlegt verndunargildi og að vinnsla hennar sé mengandi???  Ef olía fyndist fyrir þarna, þá myndi Norð-austur horn landsins njóta góðs af, en mega þeir það???  Ætli mörgum findist ekki að agalegt ef að það skapaðist efnahaglegur vöxtur þarna norður frá og sæu ofsjónum yfir því líkt og út af uppganginum fyrir austan núna og hrópaði; þensla, þensla???

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 12:34

20 identicon

Reyndar kemur fram í skýrslu kb, seðlabankans og fleirri banka að afleidd störf séu ekki mörg af álverum, það kemur líka fram að þessi störf myndu skapast hvort sem er þannig að þjóðhagslegur ávinningur af álveri er ekki mikill. Það hefur líka oft komið fram að áframhaldandi uppbygging álvera á eftir að ríra raungildi krónunnar og koma þannig niður á örðum útfluttingi eins og á fiski eða hinum ósýnilega útflutingi, ferðamennsku. Þessar framkvæmdir auka líka á óstöðuleika í efnahaginum sem gerir það að verkum að rekstarumhverfi fyritækja eins og baknanna versnar og fjámálafyritæki flytja fjámagn úr landi.

Svo er ferðaþjónusta að verða heilsársgrein á íslandi, það koma hérna ferðmenn allt árið. Fleirri og fleirri hótel eru byrjuð að hafa opið allt árið og fleirri og fleirri afþegingarfyrirtæki bjóða upp á eitthvað allan ársins hring, sú þróun er víst að færast í aukanna að ferðamenn komin hingað á veturna. Það er orðið vel hægt að vinna við ferðaþjónstu allt árið hérna á íslandi. Svo býðu uppbygging ferðaþjónustu upp á fjölbreytara atvinnulíf en álver sem geriri atvinnulífið hérna sterkara  og ónæmara fyrir skakkaföllum og byggir upp stoðgreinar sem nýtast öðrum atvinnugreinum líka. Ég er líka viss um að allir þessir ferðamenn sem hingað koma koma ekki hingað út af kárahnjúkum. Heldur koma þeir vegna óspylltrar náttúru, jökla, eldfjalla og víðerna.

Ég hef ekkert á móti því að nýta auðlyndirnar okkar en þá þarf það að nýtast okkur, ekki koma í bakið á okkur eins og kárahnjúkar hafa verið að gera. Ég er líka á móti því að við séum að keppa við þriðjaheimsríki um atvinnu og erlendar fjárfestingar. Þetta eru frumframleiðslustörf sem vestrulönd hafa verið að koma úr landi af því að þau eru þjóðhagslega óhagkvæm, fólk fær lág laun og framleiðslan hefur lítil afleidd áhrif. Það er ekki út af umhverfisástæðum sem það er verið að flytja þessi störf úr landi, heldur vegna þess að þessi ríki hafa viljað þróa þróaðara atvinnulíf sem býður upp á betur launuð störf og meiri velsæld í þjóðfélaginu. Bygging stýflna álvera og stóriðju kemur niðu á örðum geirum atvinnulífins sem íslendingar græða mikið meira á og geta grætt mikið meira á ef rétt er haldið á spilunum.

Það er gamaldags hugsunarháttur að halda að við græðum á því að bræða ál fyrir stórfyrtækji sem skilja lítið sem ekkert eftir sig handa þjóðfélaginu. Við eigum að stefna hærra og sækjast eftir erlendum fjárfestingum sem krefjast ekki svona mikils kostnaðar. Íslendingar verða 150 ár að borga fyrir kárahnjúkastíflu ef okkur tekst það, sem þýðir að við græðum lítið sem ekkert í peningum á þessari blessuðu stíflu. Það væri líka flott þegar verð á áli lækkar eða eftirpurn minkar þá verður til annað svona riðbelti hérna á norðurlsóðum eins og gerðist í miðríkjum bandaríkanna í stálríkunum eða kolabeltum bretlands. Æji ég var búin að gleima því, ál riðgar ekki.

Mér finnst ótrúlegt að allir helstu fjármálaspekúlantar Íslands hafi verið á móti þessum framkvæmdum, bankarnir, seðlabankinn bara you name it en samt var farið í þetta. Mér grunar oft að Valgerði Sverrisdóttur hafi verið mútað miðað við það offos sem hún sýndi við að koma þessu í gegn.

Það eru ekki til nein vísindaleg gögn sem styðja byggingu þessa álvers eða sýna fram á jákvæð áhrif fyriri íslendinga. Ég er ekki tilbúin að láta skattpeningana mína fara í það að byggja stíflur handa útlendingum sem gefa lítið sem ekkert til baka.

Bjöggi (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 17:03

21 identicon

Ef þú ert ekki náttúruverndarsinni Bjöggi og ert sáttur við að senda alla skítuga framleiðslu til þriðja heimsins þá er svo sem engin mótsögn í þessu hjá þér. Og jafnvel ívið skárra en að láta eins og mengunin hverfi við það að hún fari úr landi.
En myndi ekki vandamálið þitt leysast ef næsta virkjun verður byggð með einkafjármagni. Ath. ég er ekki að tala um að gefa einhverjum einkaaðilum Landsvirkjun heldur að ef það á að reisa nýja virkjun, þá verði hún gerð fyrir einkafjármagn og ef til vill látin greiða leigu af landinu.


Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband