23.8.2015 | 13:54
Lúmskustu fíkniefnin eru kannski þau hættulegustu.
Læknir, sem talinn er einn hinna hundrað merkustu í heiminum, ætti að vita hvað hann segir.
Ofmælt er að ALLIR hafi reykt hass fyrir 40 árum eins og Kári Stefánsson orðar það. Að minnsta kosti var ég í hópi fleiri sem sáu ekkert jákvætt við það að vera að eyða peningum og tíma í það að "fikta við heilann í sér" eins og Kári orðar það réttilega.
Upphaflega voru reykingar taldar hættulausar og flottar. Í fyrradag var ég að horfa á hinn stórkostlega listamann Sammy Davies jr. á Youtube og hann var flottur reykingamaður, reykti oft á sviðinu.
Hann lést úr hálskrabbameini 65 ára gamall, fór um aldur fram á svipaðan hátt og Nat King Cole, Humphrey Bogart og Haukur Morthens, en hinn síðastnefnda drápu að vísu aðdáendur hans með óbeinum reykingum álíka fljótt um aldur fram og Sammy Davies jr. lést.
Reykingarnar hefðu átt að leggjast af miklu hraðar og fyrr, en tóbaksframleiðendur eyddu óhemju fjárhæðum í að kaupa vísindamenn og rannsakendur til að reyna að hnekkja niðurstöðum, sem voru óhagstæðar fyrir reykingarnar.
Sama gera hinir valdamiklu og stóru hagsmunaaðilar í olíuiðnaðinum varðandi loftslagsvandann.
Hættan vegna hassreykinga og víndrykkju liggur í því hve sakleysisleg neyslan sýnist.
Hassið er með lægstu áhættuprósentuna, 8%, og það gerir það lúmskara, því að enda þótt 8% sýnist lág tala, er hún í raun og veru allt of há.
Samt sagði Bubbi Morthens mér það á sínum tíma þegar hann var á viðkvæmu stigi eftir meðferð, að ef einhverjum væri verulega illa við hann, myndi sá brjótast inn í íbúð hans, þegar hann væri ekki heima og skilja eftir hassköggul í gluggakistunni.
Vínið nýtur hins vegar þess að hafa verið mært og dásamað í árþúsundir meðal annars í óteljandi áróðurssöngvum um dásemdir vínuvímunnar.
Er söngurinn "Hvað er svo glatt?" eitthvert nöturlegasta dæmið um það, samið af áfengissjúklingi sem vínið drap innan við fertugt.
Og ekkert fíkniefni veldur meira böli en vínið, sem dásamað var í ljóðlínunum "..guðaveigar lífga sálaryl..." og ..."Látum því vinir, vínið andanna hressa!...!
Ég reykti hass en var ekki afreksmaður í því | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og ekkert fíkniefni veldur meira böli en vínið, sem dásamað var í ljóðlínunum "..guðaveigar lífga sálaryl..."
Sumir líta eingöngu á það sem slæmt er við skemmtanir.
Og jafnvel allt sem neikvætt getur talist í lífinu.
Langflestir skemmta sér vandræðalaust þegar þeir neyta áfengis og hafa af því mikla ánægju og yndisauka.
Þorsteinn Briem, 23.8.2015 kl. 14:24
Læknar eru mestu dópsalarnir. Þeir sérhæfa sig í löglegum lyfjum og græða vel á því. Auðvitað vilja þeir verja sína markaðsráðandi stöðu. Ekki verra ef þeir geta predikað pínulítið í leiðinni.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.8.2015 kl. 15:37
Smá að koma Kára til varnar: mér heyrðist hann segja " allir í mínum hópi" eða sú var allavega merkingin, sem mer heyrðist hann tala um. En það er rétt, ekki allir á þessum árum tóku vel í að reykja hass, þótt það væri stundum í boði.
Gudni (IP-tala skráð) 23.8.2015 kl. 16:00
Ómar....."Hann lést úr hálskrabbameini 65 ára gamall, fór um aldur fram á svipaðan hátt og Nat King Cole, Humphrey Bogart og Haukur Morthens, en hinn síðastnefnda drápu að vísu aðdáendur hans með óbeinum reykingum álíka fljótt um aldur fram og Sammy Davies jr. lést...."
Geturðu útskýrt hvernig aðdándur Hauks heitins "drápu hann að vísu"..?...en t.d. ekki alla hina í hljómsveitinni ?
Þetta er hið fróðlegasta mál. - Ég skil ekki hvernig Raggi Bjarna, Guðmundur Steingríms o.fl. o.fl. samtímamenn geta enn verið lifandi. - Var þetta sérstök árás á manninn ?...og / en hinir ónæmir ?
Már Elíson, 23.8.2015 kl. 18:22
Tóbaksreykingar eru stór áhættuþáttur fyrir krabbamein Már. Þessvegna er ekkert óeðlilegt að Raggi Bjarna og aðrir ( vel að merkja Ómar Ragnarson)sem voru i skemmtanabransanum séu ennþá á lífi.
Jósef Smári Ásmundsson, 23.8.2015 kl. 19:53
Jósef..Ertu að meina..? - Umorðaðu seinni setninguna. Hún gengur ekki upp.
Þessvegna eru þessi menn ennþá meðal vor, þeir eru EKKI í áhættuhóp. Og eru / voru aldrei.
Skv. samtali mínu við lækna (2) þá eru hverfandi líkur (ef þá nokkrar) á því að maður sem er EKKI með krabbameinsgen fái krabbamein. - Haukur (sem Ómar títtnefnir, ég bíð bara eftir Ingimar Eydal og Guðmundi Ingólfs...) hefur líklega (sami óvissuþáttur og og hjá Ómari) fæðst og verið með tifandi krabbameinsgen sem hefði tekið sig upp hvort sem var, hvar sem er, og við allt aðrar aðstæður þessvegna. - Óþarfi að fara með staðhæfingar sem eru nota bene, algerlega ósannaðar. - Óbeinar reykingar = Hrat, eftir að eitur hefur verið sogið úr = Hefur ekki óhrif á hrein lungu hjá einskaling sem er EKKI með krabbameinsgen tifandi. Þessu er andað frá sér á 10-15 mín eftir 3ja til 4ra tíma ball. - Þetta er það sem læknar sögðu mér og ég trúi þar sem ég þekki til hvoru tveggja. - Að mínu viti er Ómar t.d. ekki líklegur (héðan af) til að fara úr krabbameini. Ef svo yrði, hverju á að kenna um ? - Það má alveg hrekja þetta mér að meinalausu, en bara að hafa 100% staðreyndir á hreinu svo ekki sé verið að kasta sífellt út í loftið einhverju sem ekki er til staðar og sem gæti verið lífseig mýta.
Már Elíson, 23.8.2015 kl. 20:17
Hvernig viltu að ég umorði þessa setningu Már. Það sem ég er einfaldlega að segja að það fá ekki allir krabbamein sem reykja hvort sem það eru beinar eða óbeinar reykingar. En reykingarnar auka hættuna til muna að fólk fái krabbamein. Þetta er ekki einhver lífsseig mýta heldur hafa læknavísindin komist að þessu með rannsóknum.
Jósef Smári Ásmundsson, 23.8.2015 kl. 20:29
Það fá nógu margir krabbamein af völdum beinna og óbeinna reykinga til þess þær séu ekki réttlætanlegar.
Ómar Ragnarsson, 23.8.2015 kl. 22:06
Ómar / Jósef - Þeir sömu, sem deyja að talið er vegna óbeinna reykinga munu deyja lika af því að borða hangikjöt eða allskonar krabbameinsvaldandi efna sem teljandi eru í hundruðum...en...Umfram allt er þetta fólk með meinið undirliggjandi frá fæðingu og vantar aðeins vakann til að kveikja. - Haukur heitinn dó hugsanlega af að borða hangikjöt (?) - Annað er ekki sannað og alls ekki að hinir morðóðu reykingarmenn hafi sálgað honum eða öðrum. - Aðeins getgátur og fanatískur áróður. - Reykingar eru hinsvegar, og aðallega allt í einu síðustu ár, viðbjóður og hinn mesti ósómi en á meðan þetta er ekki ólöglegt, löglegt eyturlyf, selt að undirlagi stóra bróður/ríkisins, þá er ekkert hægt að gera. - Punktur hér.
Már Elíson, 24.8.2015 kl. 17:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.