25.8.2015 | 20:45
Óheppileg alhæfing í fyrirsögn. Búið að lagfæra. Takk.
P.S.
Þetta er svolítið óvenjulegt, eftirskrift í byrjun. En ábending mín vegna ónákvæmni í fyrirsögn hefur verið tekin til greina og þakka ég það, enda gert í vinsemd og vinur er sá er til vamms segir. En svona var pistillinn, hugsaður sem almenns eðlis:
Fyrirsagnir eiga helst ekki að vera með alhæfingar, sem síðan standast ekki þegar fréttin er lesin, af því að flestir sjá aðeins fyrirsagnirnar án þess að lesa það sem á eftir kemur.
Dæmt hefur verið í slíku máli þegar fyrirsögn var í blaði: "Bubbi fallinn" og í ofanálag var fyrirsögnin birt ein og sér í öðru blaði sem auglýsing fyrir blaðinu, sem birti fréttina í heild.
Þetta gerðist það snemma, eftir að Bubbi hafði farið í meðferð sem hefur skilað honum vímulausum síðan, að hinn almenni misskilingur um fall Bubba gat haft slæmar afleiðingar fyrir hann og valdið honum fjárhagslegu tjóni.
Hið sanna var að tekin var "paparazzi"-mynd af Bubba með sígarettu og fréttin fjallaði síðan um það að hann hefði fallið í reykingabindindi, sem var auðvitað allt annað mál en almennt bindindi.
Bubbi vann að sjálfsögðu skaðabótamál, sem hann höfðaði út af þessu. Blaðinu var hafa verið talið skylt að hafa fyrirsögnina þannig, að hún ein og sér skapaði ekki misskilning.
Í fyrirsögninni "Bílasölur segja ósatt um aldur" einni og sér felst sú alhæfing að þetta geri bílasölur almennt og alltaf.
Vafalaust er fyrirsögnin höfð svona í gáleysi, en það breytir því ekki að hægt var að hafa hana þannig, að ekki fælist í henni ástæða til misskilnings, svo sem með því að hafa fyrirsögnina svona: "Dæmi um rangan aldur bíla hjá bílasölum."
Það er ekki fyrr en farið er að lesa texta fréttarinnar sem hið sanna kemur fram, að "dæmi eru um að ökutæki, sem seld eru á Íslandi séu tveimur árum eldri en bílasölur auglýsa."
Raunar er ekki á hreinu hvort með orðunum "bílasölur" sé ekki líka átt við bílaumboð, sem selja nýja bíla og það kemur heldur ekkert fram í fréttinni hve algengt er að sagt sé "ósatt um aldur."
Fréttin er því ónákvæm á ýmsa lund.
Dæmi um að bílasölur segi ósatt um aldur bíla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kemur ekki á óvart. Ég keypti bíl sem var sagður árgerð 2006.
Þegar mig vantaði í hann varahlut, var hann 2005. Umboðið átti aldrei skýringu.
Veit það núna. Aldrei aftur Toyota hér
Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 25.8.2015 kl. 22:22
En hvað með hlutverk og ábyrgð Spaugstofunnar (Samgöngustofu) í þessu ferli. Þeir neita að skrá árgerðir bíla í ökutækjaskrá og neita ennfremur að leiðrétta rangar skráningar!
Birgir Bjorgvinsson (IP-tala skráð) 25.8.2015 kl. 23:21
Það var fáránlegt að hætta að nota árgerð, hún segir miklu meira um bílinn heldur en fyrsti skráningardagur sem segir bara til um hvenær byrjað var að nota bílinn en það getur þess vegna verið nokkrum árum eftir að hann var smíðaður.
En hins vegar er hægt að finna upplýsingarnar um hvenær bíllinn var smíðaðar í VIN númeri (seríalnúmeri) bílsins. Spyrja Google um "VIN decoder" fyrir bíltegundina og þá koma upp ýmsar síður þar sem hægt er að slá inn númerið og fá út ýmsar upplýsingar um bílinn t.d. hvar hann var smíðaður og það sem skiptir máli hvað mánuð og ár hann var smíðaður.
Einar Steinsson, 26.8.2015 kl. 11:18
Þarna kemur fram enn ein ónákvæmni í fréttinni þegar talað er um "bílasölur" og ekkert gefið upp um það hve mikill hluti þessara "bílasala" eru bílaumboðin.
Auðvitað á að gefa upp smíðaár bílsins, því að það að bíll standi í eitt til tvö ár óhreyfður úti er verra en að hann sé í hóflegri notkun. Bílar fara ekkert vel á því að vera óhreyfðir úti í íslensku veðurfari.
Ómar Ragnarsson, 26.8.2015 kl. 12:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.