5.5.2007 | 01:11
GUÐJÓN ARNAR MEÐ STEFNU ÍSLANDSHREYFINGARINNAR
Í sjónvarpsþætti um sjávarútvegsmál sem sendur var út frá Ísafirði um daginn lýsti Ólafur Hannibalsson mjög vel hugmyndum Íslandshreyfingarinnar um að þoka sjávarútveginum út úr fjötrum kvótakerfisins, annars vegar með því að huga að því að kvótinn yrði bundinn við tímatakmörk líkt og þegar orkukaupendur kaupa orku til nokkurra áratuga , - og hins vegar með því að athuga aðferð Nýsjálendinga um að ríkið hefði forkaupsrétt að kvóta sem síðan væri hægt að útdeila á ný.
Ekki örlaði á neinum slíkum hugmyndum hjá Grétari Mar Jónssyni, talsmanni frjálslyndra, í þessum sjónvarpsþætti heldur talaði hann um að höggva kvótakerfið í spað.
Í kvöld bar hins vegar svo við hjá Guðjóni Arnari Kristjánssyni í Kastljósþætti að lagðist á sveif með hugmyndum Íslandshreyfingarinnar í þessum efnum. Guðjón er vænsti maður sem nú er í gislingu Jóns Magnússonar í innflytjendamálunum. Það er heillandi að gæla við þann draum að Guðjón stígi skrefið til fulls og kæmi yfir til okkar við fyrsta tækifæri til að tala fyrir stefnu okkar.
Sjá www. islandshreyfingin.is
Athugasemdir
Sæll Ómar
Veit því miður ekki nógu mikið um kvótakerfið til að vera umræðuhæfur.
Hins vegar veit ég um skemmdirnar sem botnvarpan veldur. 20 ríki virðast hafa samþykkt bann við botnvörpuveiðum á ráðstefnu í Chile, heyrði þetta á BBC og fann þetta á netinu í framhaldi.
http://www.canada.com/topics/news/world/story.html?id=2a45c98d-bea4-44bb-95e8-8a498aa6890c&k=94777
Hver er afstaða Íslandshreyfingarinnar til botnvörpuveiða?
Kveðja, Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 07:08
Stefna Frjálslyndaflokksins hefur verið skýr og skorinorð löngu fyrir stofnun Íslandshreyfingarinnar. Frálslyndi flokkurinn var stofnaður utan um sjávarútveginn til að byrja með, þó hann hafi svo tekið upp mörg önnur þörf og góð mál, sem sjá má í okkar málefnahandbók. Að saka Frjálslynda um að taka upp málefni Íslandshreyfingarinnar er bara fyndið. Ómar minn, ætli Margrét hafi nú ekki haft þetta með sér í farteskinu eins og fleiri góð mál frá Frjálslyndum þegar hún kom yfir til þín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.5.2007 kl. 10:07
Ómar. Svona gerir maður ekki. Þú hefur vel til þess unnið að komast heill frá þessu framboði og vertu því markmiði trúr.
Frjálslyndi flokkurinn á allan heiðurinn af EINU MIKILVÆGASTA UMHVERFISM'ALI þessarar þjóðar, sem er hið sögulega samspil dugandi fólks í dreifðum byggðum með auðlindum náttúrunnar. Þar sem bátur bóndans kúrir í nausti og bíður þess að vera ýtt úr vör að sækja fjölskyldunni björg í bú. Þar sem bryggjan vaknar við sólris og duggubátarnir byrja að slá taktinn í hljómkviðu þeirrar morgunhljómkviðu sem hefur ómað fegurst í allri kristni þessara þjóðar samanlagðri.
Við megum ekki gleyma að halda því til haga að formaðurinn sem nú er að berjast einu sinni enn við hryðjuverkaöfl hins náttúrulausa hagvaxtar (sem er þjóðarlygi en orðin að sannleika þeirra sem búa sér til eigin sannleika), Hann er einn af öflugustu og þekktustu skipstjórum þjóðarinnar og nýtur almannahylli. Og þeirrar hylli nýtur hann vegna sérstöðu sinnar sem gegnheill stjórnmálamaður og þekktur að þeim góða eiginleika að meina það sem hann segir og segja það sem hann meinar.
Og svona til öryggis Ómar: Aldrei megum við búa okkur til rök með slæmum klaufaskap. Þetta mál er afgreitt fyrir löngu.
Alúðarkveðjur til þín.
Árni Gunnarsson, 5.5.2007 kl. 11:50
Ótrúlegur pistill - alveg hreint ótrúlegur.
Magnús Þór Hafsteinsson, 5.5.2007 kl. 22:25
Er Ómar með rugluna?
Sigurjón Þórðarson, 7.5.2007 kl. 12:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.