6.5.2007 | 00:11
ÓTRÚLEG SÖGUFÖLSUN
Myndspjald Sjálfstæðisflokksins um umhverfismál sem ég sá á förnum vegi í morgun verður áreiðanlega viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar. Á spjaldinu eignar flokkurinn sér Vatnajökulsþjóðgarð, segist ávallt hafa verið í fararbroddi náttúruverndar og sýnt þar staðfestu en ekki tækifærismennsku. Hvílík öfugmæli!
Þegar ég gerði alls sex sjónvarpsþætti um möguleikana á Vatnajökulsþjóðgarði fyrir níu árum var þess krafist að ég yrði rekinn úr starfi fyrir þessa þáttagerð og fram fór opinber rannsókn á verkum mínum í kjölfarið þar sem ég var þó sýknaður af þessum ákærum.
Ég og Ólafur F. Magnússon vorum kallaðir hryðjuverkamenn og Ólafur hrakinn úr ræðustóli á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Orðið staðfesta er Sjálfstæðismönnum hugleikið. Þessi staðfesta kom okkur Íslendingum í hóp staðfastra þjóða við innrásina í Írak, - flokkurinn var staðfastur við að framkvæma mestu mögulegu umhverfisspjöll hér á landi með Kárahnjúkavirkjun, - hann er staðfastur í því að halda til streitu Norðlingaölduveitu sem þurrkar upp einstaka fossaröð Þjórsár og skaðar ímynd Þjórsárvera, - staðfastur í því að láta Langasjó ekki lenda inni í þjóðgarði heldur vera áfram á dauðalista Landsvirkjunar, - staðfastur í stækkun álversins í Straumsvík og tilheyrandi virkjunum, m.a. í Neðri-Þjórsá, - Sjálfstæðismenn í Skagafirði eru staðfastir í því að virkja jökulárnar þar o.s.frv. o.s.frv.
Flokkurinn er staðfastur í því að hér rísi á endanum sex risaálver fyrir 2020 með tilheyrandi virkjunum og náttúruspjöllum.
George Orwelll hefði ekki getað hrifist af öðru meir hefði hann verið á lífi nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn segir upp í opið geðið á kjósendum frá staðfestu sinni og forystu um verndun íslenskrar náttúru og sakar aðra um tækifærismennsku!
Athugasemdir
láttu okkur verkafólk í álveri í friði. ef eitthvað fyrirtæki borgar vel þá er það álver, er það áhugavert að þjónusta útlendinga og fá lágmarkslaun fyrir. burt með þessa náttúruútlendinga sem eyða mjög litlu hér
Haukur Kristinsson, 6.5.2007 kl. 00:40
Heill og sæll Ómar.
Eitt vil ég segja við þig kæri vinur ég hef ætíð virt þig sem fréttamann sem hefur hæfileika að láta sitt ljós skína og hefur verið í svíðsljósinu um áratuga skeið.
Enn þegar þú ert farinn að ásaka sjálfstæðisflokkinn um rangfærslur þá sé ég mig knúin til að andmæla þér.Því þú ferð ekki með rétt mál í þessum efnum.
Eitt vil ég segja þér að lokum
Til að þjóðgarðar sé talin þjóðgarðar verður fólk að geta ferðast um nátturunar án þess að hafa stórfaratæki í sinni umsjá. Marmiðið sem ég sé fyrir mér er að ferðamenn geti ferðast um vegi landsins án þess að vera á þungavéla faratækjum um hálendið það vilja ferðamenn og erlendir ferðamenn ekki. Til þess verða vegir að vera til
Jóhann Páll Símonarson
Jóhann Páll Símonarson, 6.5.2007 kl. 00:51
Tek undir það sem hér er sagt Ómar. Sjálfstæðismenn eru afar staðfastir í hernaði, hvort heldur er gegn Írak eða náttúrunni. Nú síðast neitar Geir "staðfasti" að taka þátt í Live Earth tónleikaröð - heimsviðburði til varnar þeirri ógn sem Jörð og fólki stendur af hitnun andrúmslofts og sjávar. Sjá www.dofri.blog.is
Það er hins vegar rangt að sjálfstæðismenn í Skagafirði vilji virkja jökulárnar þar - eins og staðan er í dag alla vega. Þar hefur náðst sátt um að fresta öllum slíkum bollaleggingum m.a. tveggja ára gamalli tillögu Sjálfstæðismanna og Bjarna Jónssonar í Vinstri grænum um að setja Skatastaðavirkjun á skipulag. Virkjun sem er slíkt umhverfisslys að í Rammaáætlun er hún að mig minnir neðst í C flokki eða jafnvel í D flokki.
Annars get ég ekki látið hjá líða að spyrja þig hvort þér finnist þú vera á réttri leið í baráttunni. Mér er það mjög til efs og sýnist allar líkur vera á því að Íslandshreyfingin muni styrkja stöðu stjórnarflokkana.
Um daginn þegar framboðin voru að hamast við að ná saman meðmælendalistum sínum var verið að ræða hvort hugsanlega yrði einhver misbrestur á þessu hjá ykkur. Þá sagði eitt ágætt þingmannsefni stjórnarliða "það ætla ég rétt að vona ekki, þar eru akkúrat þessi 4% sem okkur vantar til að halda velli".
Vona að það verði ekki niðurstaðan.
Kv. DH
Dofri Hermannsson, 6.5.2007 kl. 02:21
Heill og sæll Dofri.
Þessi færsla þín er lýsandi fyrir það öngstræti sem stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi hafa lent í í þessari kosningabaráttu. Í stað þess að einbeita sér að því að benda á hina aumu málefnastöðu stóriðjuflokkana þá hefur ómældum dálksentimetrum og orðum verið eytt í að gera lítið úr framboði Íslandshreyfingarinnar. Eins hafa bæði Vinstri grænir og Samfylking hætt umræðu um stóriðjustefnu stjórnvalda og einbeitt sér að öðrum málum. Eins er sú röksemd að atkvæði greitt okkur sé til þess að halda lífi í stjórnvöldum alröng. Eina skiptið sem stjórnin hefur fallið í skoðanakönnunum var þegar Íslandshreyfingin var með 5 % fylgi í byrjun apríl. Þannig að ef það ætti spyrja einhvern hvort hann er á réttri leið þá ætti að spyrja ykkur hjá VG og Samfó.
Lárus Vilhjálmsson, 6.5.2007 kl. 11:39
Það er sögufölsun að Ólafur F. Magnússon hafi verið hrakinn út ræðustól á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar voru undirtektir og viðbrögð við ræðum hans voru litlar.
sigurður sigurðarson (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 16:34
Það ætti að byggja á Kárahnjúkum Hágæða Hótel með ráðstefnusölum, sundlaug og öllu tilheyrandi allt á heimsmælikvarða.fallegt útsýni,og Ómar kallinn gæti flogið með hótelgesti hingað og þangað.Kv
Halldór (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 20:48
Lagið sem þú sást taka upp, Íslandshreyfingar-lagið, á RÚV áðan. Verður það ekki fáanlegt á netinu?
Ólafur Pétursson (IP-tala skráð) 6.5.2007 kl. 22:52
Gott innlegg hjá þér Ómar, það er með ólíkindum þessi málflutningur sjálfstæðismanna. Rétt fyrir kosningar þykjast þeir vera umhverfisvænir, en undanfarin ár hafa þeir eyðilagt með dyggri aðstð framsóknarmanna hundruð ferkílómetra af hálendinu.
Rangnefnið á þessum flokk er algjört, þarna innanborðs eru ekkert nema "jámenn", gjörsamlega óhæfir í að hafa sjálfstæða skoðun, allt er étið upp eftir formanninum ótuggið og hrátt.
Þetta minnir á stóra vöggustofu fyrir þá sem finnst þægilegt að láta sjá um sig og hafa ekki skoðun, formaðurinn hefur hana fyrir þá!
Ævar (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 19:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.