22.9.2015 | 10:14
Endurmat á eðli umbrota í Kötlu?
Skjálftahrinur í Kötlu hafa í áratugi valdið heilabrotum hjá vísindamönnum.
Ég minnist hrinu 1999 þegar menn voru á tánum vegna hugsanlegs goss og gerðar voru ráðstafanir til að búa til viðbragðsáætlanir sem grípa mætti til.
Síðan hafa svona hrinur komið af og til en aldrei kemur gosið, þótt nú sé liðin tæp öld frá síðasta Kötlugosi og því kominn tími á gos, ef miðað er við eldgosasögu svæðisins á sögulegum tíma.
Uppi hafa verið kenningar um lítið eldgos undir jökli 1955 þegar hlaup kom í Múlakvísl.
Upp á síðkastið hafa vísindindamenn verið að velta vöngum yfir því að endurmeta að hluta mat sitt á umbrotum eða jarðskjálftum í Kötlu og hlaupum undan honum niður Múlakvísl í ljósi minnkandi fargs jökulsins af völdum hlýnandi loftslags, en þetta minnkandi farg gæti útaf fyrir sig valdið jarðskjálftum og óróa.
Þessar vangaveltur minna svolítið á þá nýstárlegu sýn á hlaup úr Grímsvötnum og Grímsvatnagos um miðja síðustu öld, að verið gæti að hlaup úr vötnunum kölluðu fram gos vegna minnkandi þrýstings á eldstöðina, þegar vatnið færi út úr Grímsvötnum, og að samspilið milli elds og íss gæti verið flóknara en áður var haldið.
Erfitt og flókið gæti verið að meta hvort kæmi fyrr, eggið eða hænan, eða öllu heldur, hvað skyldi skilgreina sem egg og hvað skyldi skilgreina sem hænu.
Skjálftahrina við Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er náttúrulega stöðugt endurmat í gangi þegar náttúran fer ekki eftir þeim spám sem við gerum og neitar að passa í regluna. Allt skal passa í Excel. Og getum við ekki stjórnað því þá finnum við regluna.
Í þúsundir ára stjórnuðum við náttúrunni með tilbeiðslu, fórnum og réttri hegðun. Í dag trúum við því að það dugi ekki eins vel á eldfjöll og það gerir á veðrið. Því teljum við dagana og reiknum hvenær næst gýs. Við erum svo klár í vísindum og höfum þróast svo mikið.
Hábeinn (IP-tala skráð) 22.9.2015 kl. 14:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.