2.10.2015 | 13:25
"Stærsta stórsýning veraldar".
Þegar Skaftárhlaup verða er oftast horft mjög þröngt á það fyrirbrigði og það ekki sett í samhengi við margfalt stærri náttúruhamfarir sem endurtaka sig með nokkurra alda millibili.
Í gangi er nefnilega sjónarspil sem kalla mætti "stærsta stórsýning veraldar" eða "the greatest shov on earth".
Þessi stærsta stórsýning skiptist í meginatriðum í tvo kafla:
Annars vegar eldgosakafla og hinsvegar sandburðarkafla.
Báðum þessum fyrirbrigðum stjórnar jarðeldurinn undir Vatnajökli og svæðinu þar suðvestur af.
Síðasti eldgosakafli var 1783 þegar næststærstu hraun jarðar á sögulegum tíma runnu niður í Landbrot, Meðalland og Fljótshverfi.
Það hraun rann yfir land, sem sandur og annar jarðvegur höfðu farið langt með að þekja milli áranna 934 og 1783, eftir eldgosakaflann 934 þegar stærsta hraun jarðar á sögulegum tíma rann ennþá lengra en Skaftáreldahraunið og skildi meira að segja eftir gervigígana Landbrotshóla.
Ef rétt væri á spilum haldið hefði ekki verið hætt við að setja fé fyrir tveimur árum í öflugt safn um þetta sjónarspil á Kirkjubæjarklaustri.
Slíkt safn hefði sett strik í einbeittan brotavilja virkjanafíkla gegn þeim fádæma náttúruundrum sem eru á þessum slóðum og geta eflt frægð, ferðamannastraum og fjárhagslega afkomu heimafólksins.
Í staðinn er þrýst á að reisa virkjanir á báðum hraunrennslissvæðunum og einskis svifist til að blekkja og fela, til dæmis með ótrúlega röngu mati á umhverfisáhrifum Búlandsvirkjunar og Hólmsárvirkjunar þar sem þess er meira að segja alls ekki getið um tilvist nokkurra fallegra fossa og sérstaks hraunhólmasvæðis Skaftár .
Rosalegar hamfarir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.