12.10.2015 | 00:56
Víðtækara svindl en sýnist ?
Volkswagensvindlið, sem var í hrópandi mótsögn við frumatriði í uppbyggingu trausts þess fyrirtækis við stofnun þess, á vonandi eftir að hafa þau jákvæðu áhrif að betur sé farið ofan í saumana á þeim upplýsingum sem fyrirtæki veita um söluvörur sínar.
Þegar ég ók í langferðum í Bandaríkjunum um erfiða vegi í Klettafjöllum hér um árið kom það mér þægilega á óvart hvað sex strokka bensínvélin í Buick bílaleigubílnum fór nálægt því að eyða svipuðu bensíni og auglýst var að hann eyddi.
Þetta var að stórum hluta í frekar svölu veðri.
Hér heima er hins vegar ljóst að eyðslutölurnar, sem gefnar eru upp, eru yfirleitt mun lægri en raunveruleikinn segir til um.
Það hefur verið upplýst að hluta að bílaframleiðendur hafi komist upp með að útbúa bílana, sem prófaðir eru, á þann hátt að breyta ýmsu sem hefur áhrif á eyðsluna.
Til dæmis að hafa 40 pund í dekkjunum og taka aftursæti og fleira úr bílunum, - sennilega á þeim forsendum að aðeins sé gert ráð fyrir tveimur mönnum í framsætum.
Allt fram undir 1995 voru þrjár svonefndar ECE tölur notaðar, eyðsla á 90 km hraða, 120 km hraða og eyðsla í borgarumferð.
Þá var breytt í annað form, sem átti að vera nær sannleikanum, svonefnda EU-tölur: 1. Þjóðvegaakstur. 2. Þéttbýlisakstur. 3. Meðaltalstala talna númer 1 og 2.
Í fyrstu voru þessar tölur jafnvel hærri en hinar eldri, sem benti til þess að einhvað væri meira að marka þær, en með árunum fóru þær að lækka og eru nú orðnar svo lágar, að þær eru ekki lengur raunhæfar.
Ég nefni sem dæmi bíl, sem ég mældi eyðsluna á, og á að eyða 3,8 lítrum á hundraðið í þjóðvegaakstri en hefur ekki komist niður fyrir 5 lítra þrátt fyrir akstur um eða undir 90 kílómetra hraða.
Annar bíll, sem átti að eyða 6,2 á hundraðið komst ekki undir 8 lítra með sama aksturslagi.
Tölurnar, sem bílaumboðin auglýsa hvað eftir annað í auglýsingum, eru birtar í blindri trú á upplýsingar framleiðendanna eru oft hlægilega, - eða eigum við að segja, grálega miklu lægri en kaupendurnir geta nokkurn tíma náð.
Lækka vörumerkisvirði Þýskalands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.