Létu ekki lífið til einskis?

Það er oft erfitt að sætta sig við fráfall fólks og spurningar vakna þá um það hvort dauði þess hafi verið svartnættið eitt.

Viðbrögð fjölskyldna tveggja ungra manna, sem tóku aðdraganda dauða síns upp á myndband sýna þó, að einhverja glætu finna þær í því hvernig fór.

Þær hugsa sem svo að þrátt fyrir allt sé hugsanlegt að þeir hafi ekki að öllu leyti farist til einskis, heldur geti dauði þeirra orðið til þess að bjarga lífi einhverra síðar meir vegna þess lærdóms, sem af honum megi draga.

Þegar farið er yfir sögu slysa á ýmsum sviðum má glögglega sjá, að vegna þess að menn drógu gagnlega lærdóma af rannsókn á orsökum þeirra, hafa umbætur í kjölfar slysanna bjargað margfalt fleiri mannslífum en slysin kröfðust.

Þótt mörg slysi virðist þess eðlis, að erfitt sé að sætta sig við þau, liggur til dæmis fyrir að stórkostlegar framfarir í öryggismálum nútíma farþegaflugs er mest hægt að þakka því hve miklum fjármunum og fyrirhöfn var eytt í að kryfja orsakir flugslysa til mergjar.

Að því leyti má segja, að allt það fólk, sem fórst í þessum slysum, hafi ekki látið lífið til einskis.

Fyrsta barnabarn mitt, Ari Óskarsson, fæddist með klofinn hrygg og lifði aðeins í þrjá daga. 

En fæðing hans og dauði mörkuðu þáttaskil í erfðafræðirannsóknum, því að við það að hann kom í heiminn blasti það við, að bæklun hans var arfgeng, þótt það hefði ekki verið svona augljóst fram að því.

Í kjölfar dauða hans var hafin í Bretlandi gagnger rannsókn á þeim erfðaþáttum, sem valda klofnum hrygg, og nokkrum árum síðar var nánustu aðstandendum Ara heitins boðið að vera viðstaddir athöfn sem Sara Ferguson leiddi vegna upphafs starfrækslu sérstakrar erfðafræðirannsóknarstofnunar í Bretlandi sem reist hafði verið.

Síðar kom Kári Stefánsson frá Bandaríkjunum of stofnaði Íslenska erfðagreiningu með glæsibrag sem markaði margfalt stærri þáttaskil á þessu sviði.

Það er því huggun harmi gegn að Ari Óskarsson fæddist ekki og dó til einskis.


mbl.is Banaslysið séð úr síma farþegans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband