ÓLÝÐRÆÐISLEG KOSNINGALÖG

Ólýðræðisleg kosningalög rændu þjóðinni því að hún gæti fellt stóriðjustjórnina. Íslandshreyfingin fékk fylgi sem hefði nægt til að koma tveimur mönnum á þing og þar með væri Geir Haarde nú að undirbúa afsögn. Nú hamast sumir á því að Íslandshreyfingin hafi orðið bjargvættur stjórnarinnar með því að taka fylgi frá stjórnarandstöðunni og hjálpa stjórninni til að lafa.  Þetta er bæði rangt og ómaklegt.

Sérstaklega er Morgunblaðið iðið við þetta enda tekur blaðið reglulega rispur með Staksteinum sínum dögum saman til að agnúast út í Íslandshreyfinguna. Það er heiður að því fyrir okkar nýja flokk þegar Styrmir og co telja sig knúna til þess að snúast gegn honum, - það gerir hann aðeins gagnvart því sem geti ógnað Sjálfstæðisflokknum.  

Síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar gerði Íslandshreyfingin sérstaklega í því að höfða til kjósenda Sjálfstæðisflokknsins með því að leggja áherslur á þau stefnuatriði sem við höfum tekið úr því besta hægra megin frá. Við köllum það Skapandi skattastefnu.

Í skoðankönnun sem birtist í kosningavikunni var sundurgreint fylgi Íslandshreyfingarinnar og kom þá í ljós það sem frambjóðendur hennar hafa orðið vel varir við, að stærsti hluti fylgisins kom frá Sjálfstæðisflokknum en næst stærsti hlutinn frá VG.

Þetta eru einu gögnin sem við er að styðjast og samkvæmt þeim kom Íslandshreyfingin í veg fyrir enn stærri sigur Sjálfstæðisflokksins en annars hefði orðið. Þar að auki veitti Íslandshreyfingin stjórnarandstöðunni alla þá liðveislu sem hún gat og stuðlaði þannig að fylgisaukningu hennar og fylgisminnkun stjórnarinnar.

Upp úr stendur því að með þeim ákvæðum sem sett voru á vegum stóru flokkanna inn í kosningalögin um 5% prósent lágmarksfylgi á landsvísu var þjóðin rænd því að meirihluti hennar réði, - komið var í veg fyrir að lýðræðið fengi framgang.  

Tæplega sex þúsund kjósendur Íslandshreyfingarinnar sátu eftir með sárt ennið og laskaða ríkisstjórn sem hefur minnihluta kjósenda að baki sér. Það var dapurlegt og ekki Íslandshreyfingunni að kenna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Ég hef velt þessu fyrir mér og mér datt í hug hvort ekki væri hægt (þegar um lítil óreynd framboð er að ræða) að hafa tvo kosti. Kost nr. 1 og svo til vara ef kostur 1 nær ekki manni inn. Þá þyrfti fólk aldrei að óttast að atkvæði þess félli dautt og gæti því óhrætt greitt litla framoðinu atkvæði sitt.

Þóra Guðmundsdóttir, 14.5.2007 kl. 01:01

2 Smámynd: Þorsteinn Magnússon

Það má með sanni segja að þessi 5% regla er ólýðræðisleg rétt eins og lögin sem kveða á um stórfellda ríkisstyrki til þeirra stjórnmálaafla sem þegar eiga sæti á Alþingi. Ég gerði það til gamans að reikna út hvernig þingliðið hefði orðið öðruvísi án hins alræmda þröskuldar og má sjá niðurstöðurnar hér:

http://www.thorsteinn.blog.is/blog/thorsteinn/entry/209718/

Með góðri kveðju,

Þorsteinn Magnússon 

Þorsteinn Magnússon, 14.5.2007 kl. 01:27

3 identicon

Góð hugmynd Þóra! Sú besta sem ég hef heyrt hingað til!

Flott hjá þér Ómar! Við erum rétt að byrja.. höldum Íslandshreyfingunni lifandi..

Björg F (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 01:34

4 Smámynd: Guðmundur Karl Magnússon

Ég þakka manninum sem kom með þessi 5% viðmið því annars væri alþingi fullt af einsmanns flokkum. En ég samhryggist að þið hafðið ekki náð á þing en svona er þetta þegar er ekki meira fylgi á bak við flokkinn en þetta þá komast menn ekki að á þing og óskiljalegt tuð nöldur um þessi 5 % nöldur útí eitt, hefði ekki verið betra að einbeita sér að kjósendum?

En allavega ég var svo frægur að fara á kosningafund hjá Íslandshreyfingu í Stykkishólmi  og þar sat ég ásamt fleira en samt ekki miklu fleira en ég og eina sem kom á þessu fram á þessum fundi að frambjóðendurnir eru sæmilegir söngmenn og það var aðeins leyfð ein spurning á þessum fundi og fannst mér andskoti gróft og fór bara án þess að heilsa nokkuð af þessu liði, miðað við þennan fund finnst mér alls ekki skrítið að ekki fleira fólk hafi kosið þennan flokk heldur raun bar vitni og finnst skrítið að Íslandshreyfingin hafi fengið svona mörg atkvæði. En fyrst ég er að skrifa hérna á annað borð þá langar mig að spurja þig Ómar spurninguna sem ég ætlaði að spurja að á fundinum en komst ekki að vegna takmarkaða leyfðra spurninga...."Hver eru sjónarmið Íslandshreyfinguna á Umhverfisvænna smávatnsaflsvirkjanna sem bændur eru að reisa?"

Kveðja Guðmundur Kar Magnússon Stöðvarstjóri Lindavirkjunar ásamt fleiru! 

Guðmundur Karl Magnússon, 14.5.2007 kl. 04:08

5 identicon

Þegar og ef það kemur alvöru náttúruverndarframboð á Íslandi þá mun það fá mitt atkvæði, alveg sama þó ég verði eini kjósandinn.

"Skapandi skattastefna" hljómar vel en eitthvað segir mér að sköpunarmátturinn felist í því að fara inn á sömu glæpabraut og Lichtenstein, Sviss, Cayman Islands og fleiri. Draga til sín fyrirtæki með tilboðum um skatta- og siðferðisafslátt án nokkurrar sköpunar. Ég er hlynntur kapítalisma, alþjóðavæðingu og regluverki sem lætur arðinn af hagkvæmninni renna til allra jarðarbúa eftir því sem hægt er. ESB er eina fyrirbærið sem mér finnst vera á þeirri leið.

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 07:47

6 Smámynd: Jón Magnússon

Ómar leikreglurnar voru skýrar þegar þú bauðst fram. Það þýðir lítið að skamma dómarann eftir leikinn fyrir að hafa dæmt eftir reglunum. Ég gerði þá athugasemd við þessi kosningalög þegar þau voru til meðferðar hjá Alþingi að frekar ætti að miða við 2.5% til 3% lágmark í stað 5% eins og raunin varð. Ég minnist ekki athugasemda þinna eða nokkurs úr Íslandshreyfingunni á þeim tíma. Það er eðlilegt í þessu kerfi að vera með lágmark en spurningin er bara hvað það á að vera.

Hefði hugmynd mín sem ég ræddi nokkrum sinnum við þig um að Íslandshreyfingin byði fram FF lista þá hefði Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin náð sameiginlega 7-8 þingsætum. Þú getur þakkað Margréti Sverrisdóttur fyrir að hafa komið í veg fyrir það. Í annað sæti hafnar Margrét tillögu sem hefði komið henni inn á þing og fellt ríkisstjórnina. Það ætti síðan að vera þér til umhugsunar kæri vinur sú rýtinsstunga sem Staksteinahöfundur Morgunblaðsins stakk í bakið á þér tveim dögum fyrir kosningar.  Það var ómaklegt því að þú ert einlægur heiðarlegur hugsjónamaður og það þarf að virkja þá miklu orku sem þú býrð yfir með þeim hætti að hún fái farsælan framgang.

Jón Magnússon, 14.5.2007 kl. 08:42

7 identicon

Kerfið sem þú biður um Ólafur skilst mér að sé það sama og var í Frakklandi fyrir valdatíma Charles de Gaulle. Mér skilst að þingið hafi verið fullt af smáflokkum sem engu gátu stjórnað en beindu sjónum almennings frá eigin getuleysi með því að fara út í stríð í Indókína og Alsír.

Ég er sammála þér í theóríu en ekki í praktík. Það er eins gott að stjórnmálamenn komi sér saman um málefni í hæfilega stórum heildum áður en þeir koma inn á þing í stað þess að þrasa þar.

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 09:55

8 Smámynd: 365

Það sem varð þess valdandi að þú Ómar minn komst ekki manni inn, er sú borðleggjandi staðreynd að framboðið kom allt allt of seint fram.  Varðandi umræðuna um að fara með prósentutöluna niður í þrjú, þá held ég að það yrði allt vaðandi hér í smáflokkahöfðingjum sem væru að koma hinum eina sannleik á framfæri.  Nóg er nú samt af spámönnunum.

365, 14.5.2007 kl. 11:11

9 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Ég vil benda á þá staðreynd hér að ef að fimm prósenta reglan hefði verið við lýði í kosningunum 1999, þá hefði Frjálslyndi flokkurinn ekki komið manni að í þeim kosningum með 4,2% fylgi á landsvísu, en fékk þá tvo menn kjörna.  Áfram Íslandshreyfingin - ekkert stopp.  Kveðjur,

Sigríður Jósefsdóttir, 14.5.2007 kl. 11:19

10 identicon

Jón Magnússon, mér þykir það nú glannalega ályktað að sameiginlegt framboð F og I hefði fengið öll þau atkvæði sem framboðin fengu sitt í hvoru lagi. A.m.k. hefði mér aldrei í lífinu dottið í hug að kjósa það.

Ómar, það er rétt sem hefur verið bent á að framboðið kom seint fram, ég vona bara að þið látið ekki deigan síga og verðið með af fullum krafti eftir 4 ár.

Linda (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 11:50

11 Smámynd: Sigurður Hrellir

Það er undarlegt hvað sumir hér hræðast það að allt verði fullt af smáflokkum. Hafandi tekið þátt í undirbúningi og framboði Íslandshreyfingarinnar get ég fullyrt að það var ekkert áhlaupaverk að koma því á koppinn. Að bjóða fram lista í 6 kjördæmum með 126 frambjóðendum? Að safna tæplega 2000 undirskriftum meðmælenda? Að opna kosningaskrifstofur, útbúa auglýsingar, sjónvarpsmynd, kynningarbæklinga, merki og margt fleira án þess að fá til þess styrk úr ríkissjóði?

Það er augljóst að reglurnar voru settar með það í huga að tryggja sess starfandi stjórnmálaflokka og koma í veg fyrir að nýjir kæmu til leiks. Enginn af þeim flokkum sem nú situr á þingi þurfti að stíga fyrstu skrefin með svo ósanngjarnar leikreglur.

Svo held ég að sá Gaui sem hér skrifar ætti að kynna sér málin betur áður en hann fer að skrifa um þau langa pistla. Íslandshreyfingin hefur aldrei haft þá stefnu að hér á landi yrði leyft peningaþvætti eða fjárhagsleg glæpastarfsemi af neinu tagi. Hins vegar töluðum við um að lækka skattprósentu af hagnaði fyrirtækja í þrepum úr 18% niður í 12% til að geta keppt við lönd eins og Írland og tryggt það að innlend og erlend fyrirtæki vilji starfa hér á landi. Allur samanburður viðLichtenstein og Cayman Islands ber vott um fjörugt ímyndunarafl Gauja.

Sigurður Hrellir, 14.5.2007 kl. 11:52

12 identicon

Kæri Sigurður

Ég tek nú reyndar ofan fyrir ykkur að hafa haft þetta í gegn með framboðið, vildi bara að óska að málefnin væru betur ígrunduð.

Varðandi skattana, þá hef ég nú hugmyndirnar héðan

http://www.ioes.hi.is/events/conference_112001/conference_112001.html

Af hverju hefur CFC löggjöf ekki verið tekin upp og af hverju er HHG heitur á móti slíkri löggjöf. Lestu nú blaðsíðu 25 í þessu skjali, þar finnurðu mitt fjöruga ímyndunarafl

http://www.rsk.is/tiund/tiund_2006_april_blad.pdf

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 12:26

13 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Já það var miður að ekki varð úr að rödd þín Ómar fengi að heyrast í sölum Alþingis. En mikið hefði eg viljað að þú og ýmsir sem tóku þátt í Íslandshreyfingunni og vilja bera hag íslenskrar náttúru í fyrirrúmi, hafið ekki gengið í samstarf við VG. Þá hefði ríkisstjórnin fallið með brauki og bramli.

Vonandi sitjum við ekki uppi með nýjar umdeildar virkjanir, afleita og leynilega rafmagnsölusamninga við álbræðslur og fleira umdeilt.

En við verðum að vinna betur og stilla okkar strengi saman, þannig að betur tekst til næst!

Kveðja

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 14.5.2007 kl. 12:29

14 Smámynd: Lárus Vilhjálmsson

Blessaður Gaui. Varðandi það hvaðan við höfum skattahugmyndir okkar varðandi lækkun fyrirtækjaskatta þá eru þær ekki frá þessari ráðstefnu frá 2001 um skattaparadísir heldur er módelsins að leita í Írlandi sem er nú með 12,5 % fyrirtækjaskatt og hefur með þessu móti laðað til sín fyrirtæki sem eru með raunverulega starfsemi í landinu. Varðandi CFC löggjöfina þá á náttúrulega að taka hana upp. Fyrirtæki eins og aðrir bera ábyrgð og eiga ekki að reyna að koma hagnaði sínum undan í einhverjar svartar skattaholur. 

Lárus Vilhjálmsson, 14.5.2007 kl. 13:51

15 identicon

Ómar - ég er ein af þeim sem þrammaði með þér í göngunni niður Laugaveg og keyrði tæplega 400 km leið til að geta tekið þátt. Ég hef lengi verið andstæðingur stefnu ríkisstjórnanirnnar í virkjana- og stóriðjumálum.

Ég tek fram að ég virði rétt fólks til að stofna stjórnmálahreyfingu til að vinna sínum baráttumálum framgang. En það breytir samt ekki þeirri skoðun minni að atkvæðin sem féllu dauð í Íslandshreyfinguna tryggðu ríkisstjórninni áframhaldandi brautargengi.

Ég hef ekki tjáð mig hér á blogginu þínu fyrr um þessi mál og sýnist þessi færsla þín vera dálítið í anda einhvers konar uppgjörs. Ég lít því á þetta sem innlegg mitt þar í. Vona að þú fyrirgefir að ég verði nokkuð langorð:  

1) Mér finnst ekki hægt að halda því fram að fyrir tilstilli I hafi náðst að höggva í raðir D. Þar með er verið að sega að þessi hópur hefði kosið D ef I hefði ekki verið í boði. Ég vil halda því fram að þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn áður en voru óánægðir með stefnu hans í stóriðju- og vikjanamálum hefðu allt eins skilað auðu eða jafnvel kosið S, þ.e. þeir sem alls ekki gátu hugsað sé að kjósa V. Það má nefnilega ekki gleyma því að það eru ekki allir D sem hata ISG. Og það eru ekki allir D sem eru á móti viðræðum um aðild að ESB og upptöku evru, og Fagra Ísland er umhverfisverndarstefna, svo dæmi séu nefnd. Í S eru ýmsir fyrrverandi D þannig að það er ekki óraunhæft að ætla að þeir hefðu eins getað valið S ef I hefði ekki verið á kjörseðlinum. 

2) I tók fylgi frá V. Það er staðreynd. Hefði I ekki komið fram hefði það fylgi mjög líklega haldist hjá V.

3) Þegar I varð til voru leikreglurnar um 5 prósentin ljósar. Þar með var ljóst að atkvæði greidd I féllu dauð ef 5 prósent markið næðist ekki. Sú áhætta var tekin og I fór fram.

4) Sú áhætta var þeim mun meiri fyrir þá staðreynd að I var ekki bara hægri-grænt framboð Ómars Ragnarssonar heldur líka óánægjuframboð Margrétar Sverris og Jakobs Frímanns sem bæði höfðu sagt sig úr fyrri flokkum af því að þau höfðu ekki hlotið þann framgang í fyrri flokki sem þau höfðu vonast eftir. Þar voru ekki BARA hugsjónir að baki heldur líka persónulegur pólitískur metnaður þeirra sjálfra. Þetta gaf framboðinu ákveðna klofningsframboðsímynd sem ég veit að mörgum þótti ótrúverðugt og voru því ekki tilbúnir að veita I brautargengi. 

Ég hef dáðst að baráttu þinni og stutt þig í öllum þeim góðu verkum sem þú hefur unnið gegnum árin. Þó að ég virði rétt þinn í þessum efnum þá tel ég að I hafi í þessum kosningum ekki reynst liðsstyrkur í baráttu við virkjana- og stóriðjustefnuna þvert á móti virðist framboðið hafa lengt líf hennar - og það er miður.

Ég vil ekki halda því fram að stríðið sé tapað en þessi orrusta tapaðist. Og hún tapaðist fyrst og fremst vegna þess að í stað þess að efla liðsheildina innan frá með hvatningu var herdeildum fjölgað og kröftum þar með dreift. Við höfum annað dæmi um sama ferli svo ég haldi áfram með þessa sömu líkingu. R-listinn vann stríðið við D um borgina eftir 12 ára hersetu, þegar R-listinn skipti sér aftur upp í herdeildir og sótti þannig fram náði D henni aftur.

Miðað við nýjustu fréttir af B og D virðist stefna í að bæði höfuðborgin sem og restin af landinu verði hersetin af stóriðju- og virkjanasinnum næstu árin.

Kannski er málið Ómar, úr því að svona fór, að taka flokksstimpilinn aftur af baráttumálinu og stofna frekar eins konar andspyrnuhreyfingu sem gengur niður Laugaveginn og spyrnir við fótum í hvert sinn sem ríkisstjórnin er líkleg til að taka ákvarðanir sem stefna framtíð næstu kynslóða í hættu. Ef eitthvað slíkt verður raunin þá getur þú reitt þig á að ég er tilbúin til að leggja á mig 400km akstur til að ganga með þér Laugaveginn aftur og aftur og aftur ...

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 15:27

16 identicon

Takk Lárus

Það er jákvætt að þú vilt taka upp CFC löggjöf. Er þetta samþykkt flokksins eða þín persónulega hugmynd?

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 16:07

17 Smámynd: Einar Þór Strand

Frá mínum bæjardyrum séð þá er 5% reglan fín og er notuð víða til að koma í vega fyrir einsmannsflokkana.  En Ómar var það rétt að fara í framboð með þessa stefnu í stað þess að halda áfram að berjast á öðrum vígstöðvum fyrir aukinni hugsun í land og náttúruvernd.

Eitt af því sem til dæmis fældi mig frá Íslandshreyfingunni voru hugmyndir um alþjóðaflugvöll á vestfjörðum!!! til hvers og hvar?

Flugvellir eru líka umhverfisvá ekki minni en virkjanir þannig að hvernig samrímsit þetta umhverfisvernd.

Einar Þór Strand, 14.5.2007 kl. 16:13

18 identicon

Enn og einu sinni er umræðan farin að snúast um aukaatriði frekar en aðalatriðin.

Miklu stærri galli á kosningakerfinu er kjördæmaskipanin og misjafnt vægi atkvæða á milli þeirra, en í skjóli þess og þrátt fyrir síðustu breytingar, hafa Sjálfstæðismenn og Framsókn hangið á völdunum og hafa lítinn áhuga á að breyta kerfinu.

Þannig sitjum við (mögulega) uppi með ríkistjórn með rúm 48% atkvæða á bak við sig en 32 af 63 þingsætum (51%). Það er stærri galli en 5% þröskuldurinn!

Hvað með eitt kjördæmi - engan þröskuld?

kristinn (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 16:16

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tillagan um flugvöll á Barðaströnd miðaðist við 1500 metra flugbraut sem líklegast myndi kosta um 1,5 milljarð króna, sem er á við 2ja kílómetra jarðgöng. Þetta er ekki mikill kostnaður miðað við sex milljarðana sem Héðinsfjarðargöng eiga að kosta.

Ég orðaði þetta þannig að hægt yrði að gera þennan völl alþjóðlegan ef menn vildu en það var ekki aðalatriðið heldur hitt hvort hægt væri að koma Vestfjörðum inn í 21. öldina til jafns við aðra landshluta.

Ég sé ekki að þetta sé umhverfismál því að með því að fljúga frá Reykjavík til Barðastrandar og aka þaðan í klukkustund er ekki meira í lagt en það er nú þegar í staðinn þarf að aka í sex klukkustundir.

Ómar Ragnarsson, 14.5.2007 kl. 19:09

20 identicon

Hvað kosta þessar hugmyndir þínar í olíu? Hvaðan ætlar þú að fá olíuna, frá Írak eða "umhverfisolíu" úr regnskógum Amazon eða Asíu?

Þetta er umhverfismál Ómar og þessi hugmynd þín eyðileggur trúverðugleika þinn. Það sem verra er, er að þú eyðileggur fyrir náttúruvernd í heild því þetta er í andstöðu við alla aðra umhverfisstefnu í heiminum.

Þú nefndir að pólitík sé endurnýjanlegt afl. Ef þú getur drifið flugvélarnar þínar á pólitísku bulli þá er málið leyst :)

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 19:25

21 identicon

Fatta ekki tilganginn með því að flækja þetta svona... 0% mörk og landið eitt kjördæmi! Eina leiðin til þess að fá lýðræði þar sem öll atkvæði eru jöfn í áhrifum.

Guðmundur Karl: Ef þjóðin vill einsmanns flokka þá á ekki að koma í veg fyrir það með reglugerð.

Geiri (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 19:26

22 identicon

Ég vona að Íslandshreyfingin lifi áfram. Tíminn var of skammur fyrir flokkinn til að ávinna sér traust kjósenda.

Árni (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 19:26

23 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Ég held nú að þessi atkvæði hafi komið úr öllum áttum.  Ekki síður frá Sjálfstæðisflokki. Þannig að það eru ekki rök í málinu að Ríkisstjónin hafi staðið vegna þessa framboðs. Ef og hefði................Sama er að segja um 5% regluna.  Hún var þegar Íslandshreyfingin lagði upp og þýðir ekki að agnúast út í hana nú. 

Vilborg Traustadóttir, 14.5.2007 kl. 21:13

24 identicon

Jú, það var (stað)reyndin. Framboðið varð til þess að lýðræðið varð "óvirkt" - og meirihlutinn hélt velli - illu heilli. Umhverfismálin snúast þó alls ekki einungis um Kárahnúka  - lítum okkur nær - sjá ferlir.is.

ómar (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 22:55

25 identicon

Hvaða tregða er þetta með atkvæðastuld og að Íslandshreyfingin hafi staðið að áframhaldandi meirihluta núverandi ríkisstjórnar!?

 Þetta er bara biturð sem fólk bara verður að beina eitthvert! "Hei, Íslandshreyfingin henntar vel til þess!"

 Málið er bara það, að Íslendingar eru latir og er flestum nokk sama um mjög margt er þeir telja ekki snerti þá. Til dæmis dýravernd og umhverfismál. 

Það var ekki Íslandshreyfingin sem brást okkur og skemmdi allt, fekar var það okkar rotna, heilaþvegna þjóð! Og þeir sem þykjast vita allt, fást varla útúr húsi, til að láta í sér heyra! Nei, það er best að hanga fyrir framan tölvuna og nöldra í þeim sem reyna að gera eitthvað gott... Þvílík leti! 

Langar líka  til að benda þeim sem virka mjög öfgasinnaðir á mig, hér á þessu bloggi, að það er þvílíkur minnihlutahópur hlynntur svona öfgum og það er ekki erfitt að sjá hversu barnalegt og ótrúverðugt það er að halda að þannig muni heimurinn ganga.

Mér finnst líka svo asnalegt þegar fólk segist ekki vilja kjósa neinn flokk, því að allir eru svo ömurlegir...en hvernig væri að velja þann flokk sem kemst þér næst og kjósa hann, því að einhver mun vinna og það er betra að hafa einhvern sem mani a.m.k. líkar smá við...

Smá púst:) 

Heiðrún (IP-tala skráð) 14.5.2007 kl. 23:23

26 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Nei Heiðrún,  Íslendingar eru bara of uppteknir af því að vinna fyrir Visaskuldinni, sinna heimilisrekstrinum og reyna að láta enda ná saman. Þeir hlamma sér niður fyrir framan sjónvarpið á kvöldin og umhverfisvernd eða vitund um hana er bara eitthvað sem þeir heyra um í fréttum. Eða þá að Íslendingar séu bara svona djöfulli illa gefnir......

Það sagði bóndi í Gnúpverjahrepp við mig um andstöðu hans við virkjanirnar í neðri Þjórsá að hann væri þegar farinn að finna fyrir verri fyrirgreiðslu í bönkunum. En að málið væri bara miklu stærra en hann og baráttunni yrði haldið áfram hvað sem hótunum liði. Þetta er raunveruleikinn sem við lifum í. 

Og vonandi fer Guðjón Guðjónsson að finna sér annan vettvang en þennan fyrir framsóknarofstækið..... 

Ævar Rafn Kjartansson, 15.5.2007 kl. 00:09

27 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það eru nægir þröskuldar að þingframboði, þótt ekki komi 5% reglan að auki. Lýðræði er dýrmætt og miklu blóði hefur verið úthellt til varnar því. Það hlýtur því að vera umhugsunarefni hvernig farið er með lýðræðið í íslenskum stjórnmálum. Á fjögurra ára fresti fá kosningabærir Íslendingar að velja sér fulltrúa á Alþingi. Þá er einnig lýðræðislegur réttur allra Íslendinga að stofna til framboðs til Alþingis. Um það gilda sömu lög fyrir alla. Uppfylla þarf nokkrar gundvallar kröfur, svo sem eins og að hafa óflekkað mannorð, raða saman framboðslistum, safna undirskriftum frá meðmælendum, sækja um listabókstaf og hella sér síðan í slaginn. Ekki er þó allt jafn lýðræðislegt. Þeir flokkar, sem þegar hafa á að skipa þingmönnum fá rausnarlega fjárhagslega meðgjöf til að standa straum af framboðskostnaði, þökk sé þeim þingmönnum sem síðast sátu á þingi. Ný framboð verða, hins vegar, að fjármagna kosningabaráttu sína algerlega á eigin vegum. Þá geta ný framboð fengið allt að 5% atkvæða, án þess að fá eitt einasta þingsæti, þó svo að meðalhlutfall atkvæða á hvert þingsæti sé ekki nema um 1,6%. Að lokum, til að bíta höfuðið af skömminni, þá hafa stjórnmálaflokkarnir algerlega í hendi sér hvernig stjórn þeir mynda að loknum kosningum. Þannig geta ríkisstjórnarflokkarnir haldið áfram ótrauðir nú eftir kosningar, og skipt með sér ráðuneytum á hvern þann máta sem þeim hentar, algerlega burt séð frá því hvernig atkvæði skiptust á milli flokka. Hafi einhver áhuga á réttlátari dreifingu þingsæta, þá má finna vangaveltur mínar í pistlinum "D'Hondt kerfið, 5% reglan og jöfnunarsætin".

Sigurður Ingi Jónsson, 15.5.2007 kl. 00:51

28 identicon

Eftir því sem ég les hér að ofan þá virðist Íslandshreyfingin vera orðin að trúarhópi sem hefur ekkert með náttúruvernd að gera.

Fyrir tíu árum var ég virkjanaandstæðingur. Þá var álverð í lágmarki, uppgangurinn í Kína ekki byrjaður og margt annað sem benti til þess að álæði stjórnvalda væri fremur þráhyggja en byggð á skynsemi.

Nú er komin Íslandshreyfing sem hefur þá þráhyggju að öll mengun sé góð svo fremi að hún komi ekki úr álverum.

Kæru Íslendingar, sitjið frekar fyrir framan tölvurnar ykkar en að falla fyrir svona málflutningi.

Kveðja, Gaui

Guðjón Guðjónsson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 08:25

29 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Bendi bara á blogg mitt um þetta efni

Ágúst Dalkvist, 15.5.2007 kl. 12:40

30 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er augljóst að Íslandshreyfingin bjargaði stjórninni, það er búið að sýna fram á það. Ef ekki hefði verið nein 5% regla þá hefði  xD fengið 2 þingmönnum minna, xS 1 minna, Íslandshreyfingi fengið 2 og aðrir sama. Semsagt stjórnin fallið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.5.2007 kl. 12:59

31 identicon

þessi góða 5% regla er til þess að koma í veg fyrir að grilljón litlir flokkar bjóði fram, hver man ekki eftir kosningunum í Póllandi eftir hrun járntjaldsins þegar yfir 100 flokkar buðu fram, hvernig getur slíkt skilað einhverju? þessi regla er til að tryggja skilvirkni stjórnkerfisins

Hannes Valur (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 17:05

32 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég var orði vonlítil með að geta neytt kosningaréttars míns þetta árið þar sem enginn af þeim stjórnmálaflokkum sem ég hafði áður haft samband við og krafði þá um að taka á mannréttindamálum en þau öll hlaupist undan erkjum. Mannréttindi eru mér hjartkærust ásamt dýravendunarmálum sem ég met jafnmikils þá koma náttúruverndunarmál og eru málin öll mikilvæg fyrir lífið á jörðinni. Það sem ég uppskar með að greiða Íslandshreyfingunni atkvæði mitt var að atkvæðið ásamt 6000 öðrum féll í grýttan jarðveg og var úrskurðað ekkert aðeins 0. Hvernig er komið lýðræðinu á okkar ástkæra landi, Íslandi

Guðrún Magnea Helgadóttir, 15.5.2007 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband