2.11.2015 | 11:59
Verðskulduð velgengni.
Velgengni lagsins "Heyr himnasmiður" á Youtube er verðskulduð. Í góðum flutningi hefur þetta lag verið fágæt gersemi meðal íslenskra laga.
Höfundur ljóðsins var einn af höfðingjum Sturlungaaldar þar sem stríðandi höfðingjar landsins komust ekki hjá því að berast á banaspjótum og sogast inn í mestu grimmd, sem ríkt hefur í sögu landsins.
Ljóðið er einlægt ákall manns, sem á ekki langt eftir í það að falla í einum af bardögum þessarar aldar stanslausra vígaferla og grimmdarverka, sem hann telur sig tilneyddan að taka þátt í og storka þannig örlögum sínum.
Það kann að vera hægt að segja að Landnámsöldin og Söguöldin hafi ekki síður morað í illvirkjum og mannvígum en Sturlungaöld.
Munurinn er hins vegar sá að á þeim öldum voru manndráp og vígaferli greypt í veruleikann hjá ásatrúarmönnum, og menn þurftu samkvæmt þágildandi landslögum að rækja hefndarskyldu og beita refsingum persónulega gegn þeim sem misgert höfðu við þá.
En á Sturlungaöld hefur verið kristni í landinu í tvær aldir, trúarbrögð með friðarboðskap Krists sem er í mótsögn við manndráp og illvirki, og einnig eru orrusturnar svo miklu stærri og mannskæðari en áður.
Þegar þetta er haft í huga og hin sálrænu átök, sem herja á kristna höfðingja sem standa fyrir þessum orrustum eða telja sig tilneydda til þess að gera það, verður ákall Kolbeins Tumasonar skömmu áður en hann sjálfur fellur í einni af þessum orrustum enn áhrifameira.
En þó má segja að lag Þorkels Sigurbjörnssonar sé svo gott, að það eitt og sér sé tær snilld.
Heyr himnasmiður slær í gegn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kristni var lögtekin hér á Íslandi árið 999 samkvæmt núgildandi tímatali og Kolbeinn Tumason samdi Heyr, himnasmiður, elsta varðveitta sálm Norðurlanda, á fertugsaldri fyrir Víðinessbardaga tveimur öldum síðar, árið 1208.
Þorsteinn Briem, 2.11.2015 kl. 13:02
"Sturlungaöld er tímabil í sögu Íslands sem er venjulega talið ná frá 1220 þegar Snorri Sturluson kom út til Íslands frá Noregi og hóf mikla eignasöfnun, til 1262 þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála."
Þorsteinn Briem, 2.11.2015 kl. 13:56
Ólíkt hafast þau að, trúarbrögðin.
Kristnir dunda sér við að semja ljóð sínum guði til dýrðar.
Stundum verður afraksturinn stórfenglegur, eins og Heyr himna smiður.
Múslimar eru sparsamari, og hafa kyrjað mónótónískt Allahu akbar í 1300 ár, á meðan þeir afhöfða villutrúarmenn, og litlar líkur á að það breytist næstu 1300 ár, nema náttúrulega að þeir verði uppiskroppa með villutrúarmenn til að hálshöggva.
Hilmar (IP-tala skráð) 2.11.2015 kl. 17:52
Óskaplega er leiðinlegt að ,,Hilmar" skuli þurfa að eyðileggja ágætan þráð með einhverjum þvættingi alltaf. Þetta er svo leiðinlegt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.11.2015 kl. 18:03
Auðvitað hafa kristnir menn engan drepið síðastliðin tvö þúsund ár.
Þetta vita allir.
Þorsteinn Briem, 2.11.2015 kl. 18:05
Þetta er rétt hjá þér Ómar Bjarki, afsakaðu, við verðum að virða öll trúarbrögð, hvort sem maður er kristinn, gyðingur eða hryðjuverkamaður.
Hilmar (IP-tala skráð) 2.11.2015 kl. 19:06
Bæði leiðinlegt og um leið lýsir svo óskaplegri vanþekkingu hjá framsjöllum og þjóðrembingum.
Þess má geta að íslömsk ljóðlist er í hæsta gæðaflokki heimssögulega séð. Þetta vita framsjallar ekki!
https://www.youtube.com/watch?v=QqVBGv2hpQ4
Mun meira gefandi væri að ræða það í framhaldi pistils Ómars, hve Kolbeinn Tuma hefur verið öflugur trúarlega. Þ.e.a.s. miðað við að hann var veraldlegur höfðingi og stóð í endalausum deilum við Guðmund biskup sem hann hafði þó komið til valda upphaflega.
Svona texti eins og Kolbeini er eignaður sprettur ekki uppúr engu. Hann hefur verið hámenntaður á þeirra tíma mælikvarða og hlýtur að hafa samið margt fleira.
En almennt með Sturlungaöld, að þá er oft sú mynd dregin á seinni tímum að þá hafi logað allt í vígaferlum og drápum o.s.frv.
Málið er að það eru ekkert svo margir drepnir samkvæmt sögum frá þeim tíma, Íslendingasögu Sturlu og fleiri ritum. Eru vissulega nokkrir stórir bardagar og ljótir atburðir, - en oftast eru ekki svo margir drepnir.
Sá einhverntíman samantekt á því, þar sem einhver fræðingur taldi öll dauðsföllin sem sagt er frá í sögunum frá Sturlungaöld sem voru skrifaðar stuttu eftir atburði. Kom á óvart hve dauðsföllin eru í raun fá.
Að öðru leiti með hefnadarskilduna fornu, að þá er nefnilega líka merkilegt að það er eins og hún sé vel við lýði ennþá á Sturlungatímanum.
Sumir fræðimenn vilja meina að Ísland hafi ekkert almennilega orðið kristið fyrr en með Mótmælendatrúnni uppúr 1500.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.11.2015 kl. 20:47
"Guðbrandur Vigfússon fornritafræðingur taldi saman að um 370 manns hefðu fallið í orrustum eða verið teknir af lífi í ófriði samkvæmt sögum á tímabilinu 1208–1258.
Mikill meirihluti þeirra hafi týnt lífi á hinni stuttu Sturlungaöld eftir 1230."
Vísindavefurinn - Hversu margir voru vegnir á Sturlungaöld?
Þorsteinn Briem, 2.11.2015 kl. 22:25
"Goðorðin líktust bandalögum þar sem goði og þingmenn voru skuldbundnir til að styrkja hverjir aðra, vernda og verja fyrir ágangi annarra."
"Þetta stjórnkerfi var afar veikt og átti erfitt með að taka á stórum vandamálum, setja niður deilur voldugra manna og tryggja friðinn.
Það gekk aðeins á meðan valdajafnvægi ríkti meðal goðanna.
Menn virðast hafa gert sér grein fyrir þessum veikleika kerfisins og því lagt ríka áherslu á að viðhalda jafnvæginu, sem tókst í stórum dráttum fram undir aldamótin 1200."
Vísindavefurinn - Hvers vegna féll þjóðveldið?
Þorsteinn Briem, 2.11.2015 kl. 23:08
Já. Margir, fáir. Náttúrulega að einhverju leiti matsatriði eða við hverju menn búast.
Af þessum 370 féllu yfir hundrað í einum bardaga þegar Þórður kakali og Brandur Ásbirningur börðust í Hauganesi.
Það voru nokkrir stórir bardagar. Td. á Hauganesi börðust um 1000 manns og 1/10 féll.
En það er óneitanlega merkilegt, að þarna setja Skagfirðingar sig á hán hest og vilja öllu ráða.
Það hefur ekkert breyst hérna í mörg hundruð ár. Enn vilja skagfirskir höfðingjar öllu ráða með yfirgangi.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.11.2015 kl. 23:18
Það er ekki að spyrja að heimsvaldastefnu kaupfélagsins á Sauðárkróki.
Þorsteinn Briem, 2.11.2015 kl. 23:35
"Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í kaupfélaginu á Sauðárkróki."
Þorsteinn Briem, 2.11.2015 kl. 23:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.