16.11.2015 | 08:01
Útlendingur í eigin landi?
Ofurveldi enskunnar er mikið á alþjóðlegum vettvangi. Ef ná þarf hámarksárangri við að vekja athygli á einhverju málefni sem víðast um heim, telja margir sig tilneydda að nota það tungumál.
Í afmörkuðu og tiltölulega litlu flugstjórnarsviði einstakra flugvalla er heimilt að nota þjóðtungu viðkomandi lands og er umferðin við Reykjavíkurflugvöll ágætt dæmi um það.
En samkvæmt flugreglum nægir til dæmis, að einn flugmaður, sem ekki talar íslensku, sé á flugi við völlinn , til þess að skipt sé úr því að nota íslensku yfir í það að allir noti ensku.
Þetta er hliðstætt því sem gildir í fluginu um allan heim, og er nauðsynlegt til þess að halda uppi fyllsta flugöryggi og fyrirbyggja misskilning í flugumferðarstjórn og flugumferð almennt.
Ég er núna að vinna að gerð tónlistarmyndbands, sem dreifa þarf á Youtube til að vekja athygli á þörfu málefni, og neyðist til að semja við það fyrsta og hugsanlega eina söngtextann á ensku, sem ég geri um ævina.
Er meira að segja að breyta honum lítillega á Degi íslenskrar tungu.
Það eina sem ég get huggað mig við er að hafa gert á þriðja þúsund íslenskra texta.
En daðrið við enskuna gengur of langt þegar hún er notuð að þarflausu eða þegar slakað er á sjálfsögðum kröfum til notkunar og meðferðar íslensku, sem ætti að njóta sérstakrar verndar hér innanlands í stjórnarskrá okkar.
Með auknum ferðamannastraumi verður æ algengara að ekki sé hægt að notast við íslensku á stöðum þar sem margir ferðamenn eru, svo sem á hótelum og veitingastöðum.
Hvað eftir annað kom það fyrir í sumar þegar ég hringdi í hótel í Reykjavík, að afgreiðslumaður í gestamóttöku krafðist þess af mér að ég talaði ensku, af því að hann talaði ekki íslensku.
Mér fannst ég vera orðinn útlendingur í eigin landi.
Er hægt að ímynda sér að starfsfólk í gestamóttöku í Frakklandi kunni ekki frönsku? Eða starfsfólk í gestamóttöku í Þýskalandi kunni ekki þýsku?
Það held ég varla. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að starfsfólk á stöðum þar sem er mikið af erlendum ferðamönnum kunni erlend tungumál eins og ensku.
En samt er lágmarkskrafa að hann kunni jafnframt íslensku, sem ætti að vera stjórnarskrárbundið tungumál.
Í ýmsum erlendum stjórnarskrám er getið um það í stjórnarskrá hvaða tungumál sé þjóðtunga og beri að nota í starfsemi í landinu.
Það virðist þörf á slíku hér á landi.
Vill örva lestur í leikskólum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Lífshamingja fjósamanns:
Skef ég undan skeppnum
skít en lund er hrein
líkur hundi heppnum
sem hefur fundið bein.
Það gengur náttúrulega ekki lengur að yrkja á íslensku eingöngu þannig að til að færa út "markaðssvæðið" þá er hún svona í enskri þýðingu.
the shit from cows i shovel and
my soul is clean and pure
I´m like a dog whose life is grand
I love my bone for sure
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 16.11.2015 kl. 08:35
Er það ekki þjóðremba að kalla fólk útlendinga? Við þurfum ekki 17. júní nú orðið. Til hvers íslensku?
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.11.2015 kl. 08:41
Þegar fyrstu flóttamennirnir komu til Íslands gaf þáverandi ríkisstjórn það út að hvorki fengist dvalar- né atvinnuleyfi án þess að kunna íslensku. Eftirlit átti að vera með þessu.
Hvar er það eftirlit?
Hörður Björgvinsson (Mr. Bjorgvinsson) (IP-tala skráð) 16.11.2015 kl. 09:12
Þó er engin ástæða til að örvænta. Íslenskan mun örugglega fá rúmgóða skúffu í stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í framtíðinni. Það er alltaf ánægjulegt þegar Ísland getur stutt umheiminn.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 16.11.2015 kl. 09:33
En vise paa dansk at digte
drömt har jeg længe om.
Men inspirasjonen vil svigte
jeg synes at være tom.
Sæmundur Bjarnason, 16.11.2015 kl. 13:27
Snilde !
Ómar Ragnarsson, 16.11.2015 kl. 21:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.