Hitler 1939. Ríki íslams núna.

Flestum sagnfræðingum ber saman um það núna, að Versalasamningarnir 1919 hafi verið heimskulega harðir gagnvart Þjóðverjum og undirrót óánægju og reiði Þjóðverja sem aftur varð vatn á myllu öfgaafla á borð við nasistaflokk Adolfs Hitlers.

Það breytir því hins vegar ekki, að afdráttarlaus fyrirætlun Hitler í Mein Kampf um að herja á Gyðinga og leggja alla Austur-Evrópu undir yfirráð "herraþjóðar" yfirburða ímyndaðs kynstofns Aría, fól í sér stríðsyfirlýsingu gagnvart vestrænum lýðræðisþjóðum og Sovétríkjunum.

Þegar Hitler hóf uppbyggingu þýska hersins um leið og hann var kominn til valda, sá Winston Churchill í hendi sér, hver ógn nasisminn var og að brýn nauðsyn væri að leita samstöðu sem flestra ríkja til að takast á við hana af fullu afli, jafnvel þótt bandamaður eins og harðstjórinn Stalín væri ekki beint þekkilegur kostur. 

Þegar Hitler réðist inn í Sovétríkin 1941 fylgdi Churchill þessari skoðun eftir og veitti Rússum fyllsta stuðning.

Þegar Talibanar sprengdu Búddastyttur í Afganistan í loft upp á valdaskeiði sínu og stunduðu grimmilega kúgun kvenna fólst í því stríðsyfirlýsing gegn gildum siðmenntaðra samfélaga og í ljós kom hve herfilega Bandaríkjamenn höfðu misreiknað stöðuna í landinu með því að styðja þessi myrku öfl gegn Rússum.

En svipuð saga endurtók sig með innrásinni í Írak og síðar stuðningi Bandaríkjamanna við andófsöfl gegn Assad í Sýrlandi.

Með því var skapað tækifæri fyrir öfgaöfl eins og Ríki íslams til að eflast og leggja undir sig stórt landsvæði með gjöfulum olíulindum.  

Ríki íslams hefur frá byrjun ekkert skafið utan af ætlun sinni um að ráðast gegn siðmenningu og menningarminjum heimsins og beitti strax í upphafi fádæma grimmilegum aðgerðum gegn fólki og dýrmætum menningarverðmætum í Sýrlandi og Írak .

Rétt eins og 1939 liggur hluti af undirrót ástandsins í afleiðingum mistaka Vesturlanda, Versalasamningsins snemma á síðustu öld, og aðgerðum í Írak og Sýrlandi á undanförnum árum.

En það breytir því ekki að stefna Ríkis íslams er skýr, að eyða siðmenningunni og mestu verðmætum hennar.

Því er aðalatriðið núna eins og við innrásina í Sovétríkin 1941, að rísa gegn þessu með sem flestum bandamönnum, þótt ekki séu þeir allir þekkilegir, frekar en Stalín á sínum tíma.

"Á skal að ósi stemma" sagði Þór og átti við að ráðast beint að upptökum árinnar.

Það þarf að gera í Sýrlandi, en jafnframt að gæta að því að láta reiði ekki bitna á saklausu fólki eins og gert var þegar Japanir réðust á Perluhöfn 1941 og þúsundir japanskra innflytjenda í Bandaríkjunum urðu fyrir miklum ofsóknum.

Þær misgerðir voru seinna viðurkenndar og beðist afsökunar á þeim.     


mbl.is Grípi til allra nauðsynlegra aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjáum til, það eru þessar venjulegu gloppur í skoðunum þínum Ómar, eða eins og Steini myndi orða það, þetta eru ekki staðreyndir.

Það er nú þannig, að Stalín taldi nasista vera fína samstarfsaðila, og til samans og í samráði, lögðu Stalín og Hitler undir sig Pólland. Blessaður karlinn hann Stalín, hann brenndi sig. Alveg eins og vinstrimenn í dag álíta á öfgaíslam sem ákjósanlega samstarfsaðila, þá taldi Stalín Hitler vera sinn vopnabróður. En vinstrið á eftir að brenna sig, alveg eins og Stalín brenndi sig, þ.e., ef það fær ráðið stefnunni. En áður en að því kemur, brennum við hin.

Sem dæmi um undirlægjuhátt vinstrimanna, þá eru þessar sífelldu réttlætingar á hegðun öfgaíslam. Þetta er allt vesturlöndunum að kenna. Við réðumst inn í Írak, og við erum að sprengja í Sýrlandi. En hvernig stendur á því, að öfgamennirnir sem við eigum í mestum vandræðum með, eru fæddir og uppaldir á vesturlöndum, gjarnan börn fólks frá Alsír, Marókkó o.sv.frv.?

Og eigum við að gleyma því, af því að það hentar svo vel í afsakanir vinstrimanna, að uppreisnin í Sýrlandi er sprottin upp frá fólkinu sjálfu? Og eigum við líka að gleyma því, að engir erlendir hermenn voru í Írak, þegar ISIS liðar komu fram á sjónarsviðið?

Og hvað með Boko Haram í Nígeríu og víðar, hvernig koma vesturlönd inn í þann pakka? Hvernig berum við ábyrgð á Al Shabaab í Sómalíu? Talibönum í Pakistan? Er þetta allt okkur að kenna, og eigum við allt þetta skilið af því að kristnir menn voru kúkalabbar fyrir 400 árum? Eða af því að Anders Bering Breivik framdi fjöldamorð í Noregi? Eða vegna þess að það eru sértrúarsöfnuðir í Bandaríkjunum með fávita innanborðs?

Ber fólkið í París, sem var sprengt og skotið í tætlur, ábyrgð á örlögum sínum sjálft? Ef einhver nákominn þér verður skotinn eða sprengdur í tætlur, í París eða Brussel, verður það þín fyrsta hugsun, að viðkomandi geti sjálfum sér um kennt?

Hefur þú enga sómatilfinningu, Ómar?

Hilmar (IP-tala skráð) 21.11.2015 kl. 16:45

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvernig í ósköpunum getur þú lesið það út úr þessum pistli að ég eða aðrir líti á öfgaíslam sem ákjósanlegan samstarfsaðila?

Og varðandi söguskýringar þínar, þá urðu Bretar og Frakkar á undan Stalín til þess að friðþægja Hitler með Munchenarsamningunum í september 1938 sem urðu til þess að Hitler fékk fyrst Súdetahéruðin á silfurfati og síðan alla Tékkóslóvakíu.

Það skapaði honum yfirburða vígstöðu í Mið-Evrópu og aðgang að hergagnaframleiðslu Tékka, sem gaf Hitler til dæmis stóran hluta af skriðdrekasveitunum, sem gersigrðu Frakka vorið 1940.

Ómar Ragnarsson, 21.11.2015 kl. 18:53

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Virðist vera kolbrjálaður maður þessi ,,Hilmar".

En með Hitler og furðulega værukær viðbrögð, eftir á séð, annara landa við uppgangi hans og nasista, að þá gerist þetta í raun býsna fljótt.  Það er eins og það hafi alltaf verið vanmetið að Hitler gæti náð slíkum tökum á þýska samfélaginu í samstarfi við harðsnúna klíku.  Það er eins og menn hafi vanmetið áhrifavald Hitlers.  Vanmetið áróðurinn og ekki trúað því að Hitler gæti náð valdi á heilli þjóð með þessum hætti.  Eða ekki viljað trúa því.

En með Churchill, að þá var hann svo orðheppinn og sumt eldist alveg ágætlega.  "if Hitler invaded hell I would make at least a favorable reference to the devil in the House of Commons"  (Churchill)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.11.2015 kl. 23:22

4 identicon

Hilmar er ágætur.  Án ættarnafns að vísu.  Komdu þér upp ættarnafni Hilmar.  Þá verður tekið á þér með silkihönskum á þessari síðu. 

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 22.11.2015 kl. 10:43

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn gleymið þið því að manninum með ættarnafnið voru sett skilyrði á sama tíma og Hilmari voru sett skilyrði.

Hilmar braut þau vísvitandi strax og í framhaldinu stóð ég í dag við það sem ég hafði sagt.

Og mun einnig standa við það gagnvart hinum.

Ómar Ragnarsson, 23.11.2015 kl. 22:57

6 identicon

Það geta allir sett fram skilyrði, verið strangir eða sveigjanlegir eftir því hver á í hlut.  Við þekkjum þetta of vel til að geta gleymt því Ómar.  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 24.11.2015 kl. 07:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband