22.11.2015 | 10:25
Stöðvaður fyrir að "stela" eigin bíl.
"Handtekin fyrir að "brjótast inn" í eigin íbúð segir í fyrirsögn á tengdri frétt á mbl.is.
Svona lagað er ekki eindæmi.
Fyrir 15 árum átti ég tvo gamla, örlitla Daihatsu Cuore bíla. Báðir voru bláir og var annar með A-númer en hinn með einkanúmerið STREIT, sem ég fékk gefið í afmælisgjöf.
Bílarnir stóðu saman, hlið við hlið, í einu bílastæði fyrir utan bílskúr, beint neðan við svefnherbergisgluggann okkar.
Um fjögurleytið júnínótt eina vöknuðum við við það að þrír unglingar voru að brjótast inn í báða bílana.
Ég dreif mig í föt og hringdi á lögregluna, hljóp niður stigann, en þegar ég kom út, var búið að stela öðrum bílnum, þessum með einkanúmerið STREIT.
Ég dreif mig upp í hinn bílinn og Helga kallaði út um gluggann, að stolni bíllinn væri kominn inn á lóð Fjölbrautarskólans við Ármúla og spólaði þar í hringi á malarplani.
Ég hringdi aftur í lögregluna og sagði þeim frá þessu og stakk upp á að ef þeir kæmu úr vestri að skólanum, gæti ég komið úr austri að skólanum, svo að þjófarnir króuðust inni.
Þegar ég kom á fullri ferð eftir Ármúlanum, kom lögreglubíll á móti mér, setti á sírenu og ljós og stöðvaði mig með því að aka þvert fyrir mig.
Tveir ábúðarfullir lögreglumenn komu út úr bílnum þegar ég rúllaði niður framrúðunni.
"Þú ert á stolnum bíl," sagði annar þeirra.
"Nei, ég á þennan bíl sjálfur," svaraði ég.
"Ekkert svona", sagði löggan. "Það var verið að tilkynna um að þessum bíl hefði verið stolið, bláum Cuore."
"Já, en hann er með einkanúmerinu STREIT, en þessi er með A-númeri eins og þið sjáið.
"Já, já,", svaraði löggan, "við könnumst nú við svona lagað. Þjófarnir byrja oft á því að skipta um númer."
Ég varð næstum orðlaus, en stundi upp: "Haldið þið virkilega að ég hafi stolið eigin bíl´og skipt um númer á bílnum um leið og ég bað lögregluna um að hjálpa mér við að hafa uppi á þjófunum?"
"Hvernig vitum við að það hafi verið þú, sem hringdir? Af hverju ert þú kominn á stolna bílinn?"
"Ég er ekkert á stolna bílnum. Ég er á alveg eins bíl, sem stóð við hliðina á stolna bílnum, því að ég á tvo alveg eins bíla og fór á þessum til að elta hinn. Og nú er hann áreiðanlega sloppinn."
Og það reyndist vera svo. Hann var fjórhjóladrifinn og fannst tveimur dögum síðar gjörónýtur eftir ofsaakstur þjófanna.
Fyrir tilviljun hitti ég Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjón uppi í Útvarpshúsi nokkrum dögum síðar og sagði honum þessa sögu. Hann hló svo innilega að það er ógleymanlegt.
Ég spurði hann, hvort hann vissi hverjir þessir tveir lögregluþjónar gætu verið.
"Eg þykist vita það," svaraði Geir Jón og hló enn.
"Slæmu fréttirnar voru þær," sagði ég, "að þeir eyðilögðu bílinn. "En það eru samt góðar fréttir líka."
"Nú, já?" sagði Geir Jón og undrunarsvipur færðist yfir andlitið á honum. "Hverjar eru þær?"
"Við getum allir lært af þessu," sagði ég.
"Hvað getum við lært af þessu?" spurði Geir Jón.
"Jú," sagði ég, "ef það er stolið bíl frá þér, skaltu ekki elta þjófana á alveg eins bíl."
Handtekin fyrir að brjótast inn í eigin íbúð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gott að þeir voru ekki vopnaðir, þá værirðu varla til frásagnar.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.11.2015 kl. 14:38
Þetta voru unglingspiltagrey á glapstigum og hættulausir sem slíki. Höfðu þann háttinn á að brjótast samtímis inn í tvo bíla og fara burtu á þeim bíl sem þeir voru fljótari að koma í gang.
Hafnarfjarðarlögreglan upplýsti málið og ég nefndi orðið "unglingavandamál" við lögreglufulltrúann, sem ég talaði við.
"Nei," svaraði hann, "þetta er ekki unglingavandamál, heldur foreldravandamál."
Allir þrír piltarnir eiga foreldra sem eru í óreglu og á það mikllu fylleríi flestar helgar að drengirnir flæmast að heiman.
Ómar Ragnarsson, 22.11.2015 kl. 22:14
Ég var ekki að meina þjófana, heldur lögregluþjónana.
Guðmundur Ásgeirsson, 22.11.2015 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.