Ný og hugsanlega betri staða ef álverinu yrði lokað?

Þegar deilt var um´Kárahnjúkavirkjun fyrir 14 árum bentu andstæðingar hennar á það, að Kínverjar hyggðust reisa svo mörg álver, að Vesturlönd yrðu ekki samkeppnisfær og álver í Evrópu því á útleið.

Þessu andmæltu áltrúarmenn harðlega og fyrstu árin eftir opnun álversins í Reyðarfirði virtist tvísýnt um kínversku álverin. 

En nú er veruleikinn að koma í ljós, sá hinn sami og andmælendur Kárahnjúkavirkjunar bentu á.

Komin eru á sviðið fyrirtæki sem vilja borga hærra verð fyrir orkuna en álverin og stunda minna orkubruðl en álverin.

Í viðræðum um sæstreng er verið að ræða um enn hærra orkuverð og markaðurinn fyrir orkuna er á hreyfingu eins og talsmaður starfsmanna í álverinu í Straumsvík bendir á.

Eigendur álversins hótuðu lokun 2007 ef þeir fengju ekki sínu framgengt og svipuð hótun er í loftinu nú.

2007 gripu þeir til þess að endurbæta álverið en nú segja þeir að þær ráðstafanir hafi ekki borið tilætlaðan árangur.

Það kann að sýnast mikil röskun, ef álverinu verðu lokað til frambúðar, en jafnvel þótt menn ýki starfsmannatöluna eins hressilega og Jón Gunnarsson gerir, er hún aðeins lítið brot af þeirri fjölgun starfa sem ferðaþjónustan færir okkur á hverju ári.

Og það vinna líka starfsmenn í gagna- og kísilverum, sem vilja borga skárra orkuverð og jafnvel betra fyrir raforkuna, sem nú fer til Straumsvíkur, þannig að henni verði ráðstafað betur.

Álversdeilan hefur þegar leitt það í ljós, að álver eru ekkert tryggari atvinnukostur en flestir aðrir í nútíma þjóðfélagi þar sem breytingar eru hraðar.

Ég var eindregið fylgjandi álverinu í Straumsvík fyrir hálfri öld þegar það kom inn í staðnað, einhæft og frumstætt íslenskt efnahagskerfi. Þá vantaði okkur sjálf rafmagn fyrir íslensk heimili og fyrirtæki og rafmagnið frá Búrfellsvirkjun var ódýrara og meira en nokkur annar kostur.

Vegakerfi landsins var fólgið í mjóum og krókóttum malarvegum og 97% gjaldeyristekna kom frá sjávarútvegi.  

Nú er staðan gerbreytt en áltrúarmenn standa eins og steintröll sem hefur dagað uppi.

1965 voru öll eggin í gjaldeyrisöflunarkörfunni hjá sjávarútveginum. Núna eru um 80% eggjanna hvað varðar orkusölu í álverunum, en ferðaþjónustan er farin fram úr álverunum hvað snertir gjaldeyrisöflun.

 

 

 


mbl.is Stál í stál í deilu álversmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ferðaþjónustan er farin fram úr álverunum hvað snertir gjaldeyrisöflun. En vegna þess hve hátt hlutfall kostnaðar er í gjaldeyri skilar ferðaþjónustan mun minni tekjum en álverin. Og störf í ferðaþjónustu eru mun fleiri en í álverum. Nærri tug manna þarf í ferðaþjónustuna til að skila sömu tekjum í ríkiskassan og eitt starf í álveri skilar.

Draumurinn um fyrirtæki sem er tilbúið til að greiða hæsta verð og er ekki rekið í hagnaðarskyni fyrir útlenda eigendur sína er enn bara draumur eins og fjallagrasatínslan sem boðuð var sem annar valkostur við álver og virkjun fyrir austan.

Hábeinn (IP-tala skráð) 30.11.2015 kl. 12:01

2 identicon

Það er hæpið að staðan batni nokkuð ef Rio Tinto getur verslað með raforkuna sem Landsvirkjun er skuldbundin til að afhenda þeim næstu 20 árin. Garðyrkjubændur gætu e.t.v. gert Rio Tinto tilboð í rafmagnið, kísilver, gagnaver eða Bretar kæmu einnig til greina.

Vagn (IP-tala skráð) 30.11.2015 kl. 13:07

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Nákvæmlega þessu hélt ég fram fyrir nokkru síðan á bloggi. En þá hélt ég að álverið borgaði lítið verð fyrir orkuna af því að það hafði dunið á manni gegnum árin. Síðan var mér bent á að raunverulega væri orkusamningurinn mjög hagstæður fyrir Landsvirkjun. Garðyrkjubændur þyrftu að greiða nokkuð vel fyrir rafmagnið ef þeir ætluðu að yfirtaka þennan samning. Það hlýtur að vera megin krafan að Rio Tinto standi við þá samninga sem fyrirtækið hefur gert.

Jósef Smári Ásmundsson, 30.11.2015 kl. 13:46

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tekjurnar af álverunum, eins og til dæmis álveri Alcoa, fara þráðbeint út úr landinu, Hábeinn.

Ómar Ragnarsson, 30.11.2015 kl. 15:15

5 identicon

Tekjurnar af álverunum eru ekki það sama og tekjur álveranna. Þó tekjur álveranna renni til eigendanna, mörgum Íslendingnum til gremju, þá höfum við tekjur af álverunum.

Hábeinn (IP-tala skráð) 30.11.2015 kl. 15:27

6 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Það má ekki rugla saman arði sem borgaður er til hluthafa og skatttekjur ríkisins af þessum arði og launum starfsmanna. Ef ég man þetta rétt þá á ríkið einhvern hlut í álverinu í straumsvík og fær þá sitt hlutfall af arðgreiðslunum. Síðan verður að reikna inn í þetta dæmi tekjur fyrirtækja sem njóta starfsemi álversins. Það er alls ekki rétt að tekjurnar af þessu fari alfarið út úr landinu ekki nema þeir komist hjá því að greiða tekjuskattinn hér. En það getur verið kostur að losna við Álverið engu að síður. Þá losnar orka sem sparar þá kostnað við nýjar virkjanir og skuldbindingar vegna losun gróðurhúsalofttegunda verða einfaldari í sniðum sérstaklega ef gróðurhús kæmi í staðinn eins og einhver var að minnast á sem beinlínis ynni gegn gróðurhúsaáhrifum.

Jósef Smári Ásmundsson, 30.11.2015 kl. 16:49

7 Smámynd: Már Elíson

Hábeinn....Þetta tókst ekki alveg hjá þér...Reyndu aftur....

Már Elíson, 30.11.2015 kl. 21:43

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hefur verið sýnt fram á það að Alcoa hefur haft af Íslendingum marga milljarða með stórfelldum bókhaldsbrellum sem hafa gert fyrirtækið að mestu skattlaust þrátt fyrir tuga milljarða arð sem rennur beint til þeirra.

Tekjur Íslendinga eru svo lágt orkuverð, að Landsvirkjun fær afar lítið í sinn hlut og heldur áfram að rogast með skuldir vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Síðan eru það um 450 starfsmenn, stór hluti þeirra útlendingar, og tengd þjónusta við álverið, svokölluð "afleidd störf", sem alltaf er tönnlast á, rétt eins og þetta sé eina atvinnustarfsemin í landinu sem er með tengd störf.

Ef allir atvinnuvegir landsins þrefalda starfsmannatölu sína eins og Jón Gunnarsson gerir við álverið í Straumsvík, verður útkoman 600 þúsund störf, tvöfalt fleiri en allir landsmenn.  

Ómar Ragnarsson, 30.11.2015 kl. 23:37

9 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Þessir 450 starfsmenn álversins eru allir íslenskir ríkisborgarar .Enginn erlendur farandverkamaður er við störf enda væri það ómögulegt á svona vinnustað. Afleidd störf eru fleiri tengd svona stóru fyrirtæki en öðrum.

Jósef Smári Ásmundsson, 1.12.2015 kl. 07:17

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er að tala um hlutfallslegan fjölda afleiddra starfa og hef hvergi séð það, Jósef Smári, að afleidd störf við stóriðju verði fleiri hlutfallslega en afleidd störf við aðrar atvinnugreinar.

Stundum eru þessi svonefndu afleiddu störf tilgreind varðandi sjávarútvegsfyrirtæki og þar eru menn að tala um svipaðar hlutfallstölur.

Í ræðum sínum tala bandarískir stjórnmálamenn um það að um 90 prósent bandarískra fyrirtækja eru lítil og að höfuðnauðsyn sé að hlúa vel af þeim.

Þessi ofurtrú Íslendinga á risaverksmiðjur var réttlætanleg 1965 en nú eru aðstæður allt aðrar.

Afleidd störf af 20 litlum 20 manna fyrirtækjum eru áreiðanlega jafn mörg og afleidd störf af einu 400 manna fyrirtæki.

Ómar Ragnarsson, 1.12.2015 kl. 08:24

11 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

"Afleidd störf af 20 litlum 20 manna fyrirtækjum eru áreiðanlega jafn mörg og afleidd störf af einu 400 manna fyrirtæki." Það er mjög rökrétt Ómar og er það ekki nákvæmlega það sem ég var að segja?

Jósef Smári Ásmundsson, 1.12.2015 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband