20.5.2007 | 14:35
ATHYGLISVERÐAR ÁHYGGJUR SIVJAR
Athyglisverðar voru þær áhyggjur Sivjar Friðleifsdóttur í sjónvarpsviðtali að hætta væri á að ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu orkuauðlindanna yrði að veruleika. Siv ætti að vita hvað hún er að tala um eftir 12 ára samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sem meðal annars hefur birst í því í hvaða nöfn glyttir í í sambandi við það sem er að gerast á orkusviðinu, bæðí hjá Landsvirkjun og í sambandi við kaup á 15 prósenta hlut í Hitaveitu Suðurnesja.
Nú má búast við því að Páli Magnússyni verði skipt út sem stjórnarformanni Landvirkjunar og að í staðinn komi fulltrúi nýrrar ríkisstjórnar.
Það verður fróðlegt að sjá hver verða næstu skref í sambandi við frekari einkavæðinu í orkugeiranum en vonandi munu Framsóknarmenn notfæra sér vitneskju sína um það hvernig kaupin gerast á eyrinni í þeim efnum og standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar varðandi eignarhald á auðlindinni.
Siv, ég treysti á þig og þína að bæta að einhverju leyti fyrir það sem gerðist í fortíðinni þótt erfitt sé að jafna upp það sem gerðist í Kárahnjúkamálinu.
Athugasemdir
Þú ert á svo miklum villigötum Ómar minn. Það að einkavæða orkufyrirtækin þýðir alls ekki að virkjað verði þar sem orkufyrirtækjunum dettur í hug. Framkvæmdaleyfi verður eftir sem áður háð ríkisvaldinu. Auk þess held ég að Samfylkingin muni knýja fram áætlun sína um Fagra Ísland í stjórnarviðræðunum við sjálfstæðisflokkinn, sem er sjálfsagt mál (svo framarlega sem ekki verði um einhvert öfgaumhverfisplagg að ræða).
Ef eitthvað er, þá er einkavæðing í orkugeiranum jákvæð út frá umhverfissjónarmiðum. Ekki verður þá lengur hætta á að ákvarðanir um virkjanir verði teknar út frá hagsmunum kjördæmapotara í stjórnmálaflokkum, heldur verður arðsemi höfð að leiðarljósi. Samkvæmt fullyrðingum margra andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar um litla og jafnvel enga arðsemi þeirrar framkvæmdar, þá hefði aldrei verið farið í það verkefni ef einkafyrirtæki hefði tekið þá ákvörðun á eigin arðsemisforsendum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þau hefðu gert það, en það er önnur saga.
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.5.2007 kl. 15:49
Mikil hætta er á því að Landsvirkjun verði einkavædd á þessu kjörtímabili. Bankaforstjórar hafa sagt í mörgum viðtölum að núna sé góður tími til að einkavæða í orkugeiranum. Ef Landsvirkjun verður einkavædd þá erum við á skelfilegri leið með þetta þjóðfélag. Nóg er komið af einkavæðingu!
Ólafur Örn Pálmarsson (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 22:06
Gunnar minn , þú ert enn og aftur á villigötum og enn meira núna þegar flokkurinn þinn ætlar að sænga með erkióvininum. Þú hefur heldur betur tekið hringsnúning í stóriðjumálunum ef Fagra Ísland þeirra Samfó manna er orðið sjálfsagt mál. Þar er greinilega talað um stóriðjustopp.
Og einkavæðing orkufyrirtækjanna myndi bara leiða til tvö eða þreföldunar rafmagnsverðs til almennra notenda eins og reyndin hefur verið t.d. í Bandaríkjunum. Einkaeigendur orkufyrirtækjanna myndu kalla á ásættanlega arðsemi af t.d. Landsvirkjun og ekki myndi hún fást hjá stórnotendunum sem fá orkuna á tombóluprís. Og talandi umkjördæmapotara, þá voru þeir duglegir þarna fyrir austan þegar landsmenn tóku á sig ábyrgð á 100 milljarða láni til að skaffa djobb handa 500 manns.
Lárus Vilhjálmsson, 21.5.2007 kl. 00:14
Við getum því miður ekki breytt Kárahnjúkahryðjuverkunum en lifað í voninni um að "Fagra Ísland" Samfylkingarinnar hafi einhverja meiningu. Ef fyrirhugaðar Þjórsárvirkjanir eru enn á teikniborðinu auglýsi ég eftir dýnamíti og mikið af því. Svo vantar mig að vísu líka leiðbeiningar um hvernig á að nota það.
Ástæður mínar fyrir því að vera hér eru þessar:
Lækjarsprænan Þjórsá og vald LandsvirkjunarLækurinn Þjórsá - Um kunnáttu þrastarins í japanskri Kamakazi hernaðarflugtækniStóriðja eða dauði?Ævar Rafn Kjartansson, 21.5.2007 kl. 00:48
Lárus: Fagra Ísland er fyrst og fremst rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrunnar. Það er rétt að Samfylkingin talaði um stóriðjustopp og mér skilst að það sé sjálfgefið að framkvæmdir gætu í fyrsta lagi hafist á Húsavík eftir 4-5 ár. Eitthvað styttra með Helguvík.
Vg talaði um stóriðjustopp en þegar þeir lögðust á skeljarnar fyrir Samfó þegar ljóst var að Geir og ISG voru að byrja að ræða saman, þá var Steingrímur J. tilbúinn að slá af kröfum um stóriðjustopp. Þegar fólk kynnir sér stóriðjumálin þá er tilhneigingin sú að æ fleiri verða hlynt þeim, fólk vaknar upp af fjallagrasadraumnum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.5.2007 kl. 01:09
Virkjun neðri Þjórsá verður sennilega mesta eyðilegging á íslenskri náttúru fyrr eða síðar. Ég spái því að mikil reiði grípi um sig meðal þjóðarinnar þegar hún loks sér með eigin augum hvað þessar framkvæmdir hafa í för með sér. Þá mun Sjálfstæðisflokkurinn tapa miklu fylgi og Framsókn ennþá meira.
Árni (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 06:37
Það er leiðinda manía að tala í tíma og ótíma um að virkjanir séu af hinu illa.
Snorri Hansson, 25.5.2007 kl. 02:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.