5.12.2015 | 02:09
Einn sá allra fallegasti.
Ég minnist þess enn hvað ég varð hrifinn af BMW 507 sportbílnum, þegar hann kom fram 1956.
Þessar bogadregnu línur voru svo vel heppnaðar vegna þess að þær féllu óvenjulega vel inn í svonefnt "forward look" sem Virgil Exner hjá Chrysler innleiddi á þessum árum, en "forward look" leiddi hins vegar yfirleitt af sér ansi kantað útlit.
Enn þann dag í dag er BMW 507 einn allra fallegasti bíll allra tíma.
Einn af frægum, sem keypti BMEW 507 var Elvis Presley, þegar hann gegndi herþjónustu í Vestur-Þýskalandi.
Á þessum árum reru BMW verksmiðjurnar lífróður vegna þess að þær vantaði bíla í þeim verðflokkum sem mest sala var í.
Þeir voru með stóra og afar gamaldags bíla, sem áttu ekki roð í Benzana, og síðan með örbílinn BMW Isetta, sem var á hraðri útleið vegna stórbatnandi lífskjara í Vestur-Þýskalandi.
1959 duttu verksmiðjurnar niður á einstaklega vel heppnaðan og fallegan tveggja strokka smábíl, BMW 700, sem bjargaði þeim frá gjaldþroti.
Hann var með loftkældri "boxara" vél í sönnum BMW vélhjóla stíl og lagði grunninn að jafn vel heppnuðum millistærðarbíl, BMW 1500 og 1800, sem varð fyrirrennari BMW 1600 og BMW 3-seríunnar sem enn lifir góðu lífi.
Á miðmyndinni má sjá BMW 700 sport, sem ég gæti vel hugsað mér að eiga ef ég ætti fyrir honum.
En næstneðsta myndin er af BMW 1500, en toppurinn á þróun hans í aðeins minni bíl var BMW 2002 turbo sem var og er klassabíll og erfði útlitið að mestu frá 1500 bílnum.
Væri ekki amalegt að eiga einn slíkan, 172 hestöfl í um 1100 kílóa bíl.
BMW hékk á "forward look" í 35 ár, en sumir lýstu því útliti með orðunum "gríptu mig, ég er að detta fram fyrir mig!"
Fágætur Bimmi brátt boðinn upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.