5.12.2015 | 13:54
Esjan truflar veðurkerfið.
Esjan og hálendið frá Kjalarnesi að Hvalfjarðarbotni hefur oft mikil áhrif á veðrið á höfuðborgarsvæðinu í norðan- og norðaustlægum áttum, eins og er einmitt núna.
Stundum þarf vindáttin ekki að breytast nema um fáar gráður til þess að ýmist detti allt í dúnalögn eða rjúki upp í versta óveðri.
Af blöndu af landfræðilegum- og veðurfræðilegum ástæðum getur verið þreifandi blint og ófært í sumum hverfum þótt annars staðar sé veður skaplegt.
Þegar svona mikil lausamjöll er, hefur vindurinn mest áhrif, og skafrenningurinn er oft svo mikill að á jörðu niðri virkar kófið sem snjókoma.
Sums staðar þarf ekki nema einn skafl og einn bíl til að allt lokist.
Nema náttúrulega ef jöklajeppi er við höndina.
Þeir segja að mesta ófærðin sé í nágrenni við mig, í Grafarvogi og Grafarholti.
Vindurinn hefur náð sér upp meðfram fyrrnefndu fjalllendi að austanverðu, þótt miklu skaplegra veður sé vestar í borginni. Auk þess hefur vindurinn úr að moða miklum lausasnjó eins langt og augað eygir í norðausturátt.
Um leið og vindurinn hreyfist aðeins til norðurs, gæti veðrið snarbatnað í austanverðri borginni en orðið bálhvasst í Vesturbænum.
Ég þarf að fara af bæ og verð kannski að grípa til minnsta jöklajeppa landsins, fornbílsins Suzuki Fox "86 á 32ja tommu dekkjum, eða Range Rover með dísilvél, módel 1973, á 38 tommu dekkjum. Kemur í ljós.
P.S. Það kom í ljós að færið í Grafarvogshverfinu var með því allra besta sem verið hefur síðustu daga, og ekki einu sinni þörf á að fara á bíl, - búið að ryðja hjólastíga!
Björgunarsveitir að störfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo sannalega myndar Esjan veðrasviftingar hérna höfuðborgarmegin.
Var að skoða veðurkort Veðurstofunnar um kl 12:00 Þá voru 24 m/ sek á veðurmælingunni í Geldinganesi en 3-4 km austar - við Úlfarsfellið var aðeins 6 m/sek Enginn smámunur á ekki lengra bili. Og allt eru þetta tvö fjöll sem spila svona mögnun - fyrst og fremst Esjan og síðan leikur Úlfarsfellið undir og lægir hviðurnar.
Sævar Helgason, 5.12.2015 kl. 16:30
Ómar. Já, fjallabíll Reykjavíkur og nágrennis. Stærri bílar eru oft á ferðinni af minna tilefni á "óspillta" höfuðborgarsvæðinu.
Það "snjóaði" upp í móti í dag, því nóg var af lausamjöllinni þegar lognið hætti að vera kyrrt.
Erum við ekki komin með Danmarks-tækni í spádómskúluna? Esjan er hærri en Himmelbjerget, en allt ólíkt rúmast nú víst innan ferkantaðs heildar-ramma ESB, o.s.frv?
Eða hvað?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.12.2015 kl. 17:45
Það kom í ljós í dag, að færið var betra nú síðdegis en verið hefur undanfarna daga og hægt að fara á hjóli ferða sinna, því að búið var að moka hjólastíga!
Ómar Ragnarsson, 5.12.2015 kl. 19:44
Spurning hvenær við giktar/örorku/sjúklinga-gamlingjarnir hjólum bara á englanna vængjum upp á Esjutopp um hávetur?
Eða hvað? Það hlýtur að finnast einhver skynsamlegur millivegur á ósættis-stígnum pólitíska, í allar áttir fyrir alla skattgreiðandi og þrælandi?
Vonandi finnst hinn gullni meðalvegur í ó-útkljáðu málunum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.12.2015 kl. 22:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.