"Fjallagrasatínsla..."

Enn í dag má sjá einstaka menn nota orðið "fjallagrasatínsla" þegar rætt er um "eitthvað annað" en stóriðju og þessir áltrúarmenn segja um þá, sem finnst nóg komið af henni, að þeir "vilji fara aftur inn í torfkofana" og "vera á móti rafmagni."

Einhver greip þetta á lofti fyrir 15 árum og síðan hefur hver étið upp eftir öðrum.

Í augum þessara manna er 100 milljarða króna vöxtur gjaldeyristekna í ferðaþjónustu á aðeins tveimur árum og sköpun á annan tug þúsunda nýrra starfa ekki þess virði að minnst sé á slíkt.

Þegar formaður atvinnumálanefnda Alþingis var um daginn inntur eftir því hverjar væru helstu stoðir atvinnulífs og gjaldeyrissköpunar landsmanna nefndi hann aðeins sjávarútveg og stóriðju.

Sama ríkisstjórnin og gerði álver í Helguvík að fyrsta "einróma" stefnumáli sínu fyrir tveimur og hálfu ári og hefur ekki afturkallað þá stefnumörkun, nýtur nú góðs af því, eins og flestir landsmenn, hvernig "fjallagrasatínsla" og "eitthvað annað", svo sem skapandi greinar, leggur grundvöll að hagvexti og góðri stöðu ríkissjóðs.

Að ekki sé minnst á eindæma lágt olíuverð, sem olíuríkin beita með þeim afleiðingum að möguleikum annarra orkugjafa til að ryðja sér til rúms er haldið í skefjum.

Vöxtur ferðaþjónustunnar mætti að vísu vera hægari og meira fjármagni veitt í markvissar aðgerðir til að styrkja innviði hennar og skipulag svo að undirstaðan, einstæð náttúra landsins, verði ekki fótum troðin í bókstaflegri merkingu.

En í kunnuglegri græðgi og kæruleysi,sem er lenska hér, skortir mjög á það að við nýtum okkur reynslu erlendis af því að hafa fulla stjórn á umgengni jafnvel mun fleiri ferðamanna við land og líf.    


mbl.is 100 milljarða aukning á 2 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ferðaþjónusta skapar fyrst og fremst láglaunastörf og ferðamönnum fylgir mikil mengun.  Álver skapar hálaunastörf og mengun af starfseminni er staðbundin.

Ertu að segja að ferðaþjónusta sé betri en álver?  Með allri sinni mengun og láglaunastörfum sem krefjast engrar menntunnar?

Bjarni (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 09:45

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Enginn áltrúarmaður er ég enda tel ég að það eigi ekki að setja öll álitamál í farveg trúarbragða og stjórnmála. Gallinn við álverin er mengun- varla staðbundin eins og Bjarni ýjar að. Kosturinn er sá að notkun áls í bíla og flugvélar minnkar eyðslu og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Eins má nefna að framleiðsla stáls í heiminum minnkar á móti. Ferðaþjónustan er ágæt fyrir sitt leiti. Kosturinn er tekjur fyrir ríkissjóð og kynning á íslenskum framleiðsluvörum. Gallinn er uppbygging ferðamannamannvirkja sem raskar umhverfi, gífurleg mengun einkabíla og langferðabíla sem flytja ferðamenn út a land og aukinn utanvegaakstur, sérstaklega á hálendinu þar sem vantar nothæfan veg . 

Jósef Smári Ásmundsson, 6.12.2015 kl. 10:29

3 Smámynd: Sævar Helgason

368 milljarða gjaldeyristekjur þjóðarinnar af ferðamönnum slær bæði sjávarutvegi og stóriðjunni við.
Ferðaiðnaðurinn er okkar langstærsta tekjulind.
Stóriðjan er þar langt á eftir en gjaldeyristjekju af eru fyrst og fremst í formi vinnulauna hjá þeim sem við hana starfa og henni tengt.
Raforkan sem seld er fer í áð greiða niður kostnað við virkjanir á stærstum hluta.
Þannig að okkar höfuð atvinnuvegir eru nú , ferðaiðnaður og sjávarútvegur. Hátækniiðnaður er mjög að sækja á og eru Marel og Össur gott dæmi þar um.
Í hátækniiðnaði liggur okkar langstærsti möguleiki - einkum fyrir velmenntað fólk.
Þessi uppákoma hjá Rio Tinto í Straumsvík hefur opnað augu fólks fyrir því hversu fallvölt þessi áliðja er.
Öll okkar orkuegg er í einni og sömu körfunniö álkörfunni.
Áliðnaður er á niðuleið- hraðri.

Sævar Helgason, 6.12.2015 kl. 10:36

4 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Áliðnaður er ekki á niðurleið. Hann er það hjá vestrænum fyrirtækjum en tilkoma kínverja inn á þennan markað veldur verðhjöðnun á heimsmarkaði. Álnotkun eykst stöðugt í heiminum vegna krafa um aukna náttúruvernd en framboðið í dag er umfram þörfinni. Sennilega kemur þetta til með að jafna sig. En það er að sjálfsögðu rétt að setja ekki öll eggin í sömu körfu. Það á einnig við í ferðamannaiðnaðinum og mig grunar að gullgrafaraæðið sem er í hótelbyggingum muni koma mönnum í koll.

Jósef Smári Ásmundsson, 6.12.2015 kl. 13:12

5 identicon

Það er ekkert athugavert við það að kenna fjallagrasatínsluna upp á þá sem eru á móti rafmagni og vilji fara aftur inn í torfkofana. Fjallagrasatínslan var eitt af þessu "eitthvað annað" sem stungið var uppá í stað álvers til að koma í veg fyrir brottflutning og landauðn á Austurlandi. Á þeim tíma stóðu okkur ekki til boða milljón ferðamenn, og enn vantar mikið upp á að Austfirðir sjái milljón ferðamenn. Milljón ferðamenn í Reykjavík gera lítið fyrir atvinnu og búsetu á Austurlandi.

Í augum þessara manna er 100 milljarða króna vöxtur gjaldeyristekna í ferðaþjónustu á aðeins tveimur árum og sköpun á annan tug þúsunda nýrra starfa sönnun þess að álverunum hefði mátt sleppa. Þeir sjá bara þessa viðbót og telja engar tekjur af álverum. Eins og hækkunin geri aðrar tekjur óþarfar. Og fólk geti vel búið á Austurlandi ef hótel í Reykjavík eru full af túristum....sem væntanlega bíða þar spenntir eftir næstu sendingu af fjallagrösum að austan.

Þegar formaður atvinnumálanefnda Alþingis var um daginn inntur eftir því hverjar væru helstu stoðir atvinnulífs og gjaldeyrissköpunar landsmanna nefndi hann aðeins sjávarútveg og stóriðju. Ferðaþjónustan, með sín láglaunastörf unnin mikið til af erlendum farandverkamönnum sem fara með launin úr landi, telst ekki með vegna lélegra skila skatta og hás kostnaðar erlendis og í innfluttum aðföngum.

Við höfum fjölda dæma um hver fjárhagslegur ávinningur af ferðaþjónustunni er: Spánn, Grikkland, Portúgal, Ítalía......fyrirmyndir og framtíðardraumar fjallagrasatínslufólksins. Allir eiga að verða ríkir á því að skipta um lök á rúmum og afgreiða í lundabúðum.

Hábeinn (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 15:17

6 identicon

Ansi er það merkilegur skilningur á gildi menntunar að halda því fram að tungumálakunnátta sé ekki menntun. Að maðru sem lært hefur matreiðslu sé ómenntaður. Að þjónar séu fúskarar og menntun þeirra ómark. Flugmenn eru þá væntanlega líka ómenntaðir?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 15:42

7 identicon

Ef vinstrimenn vilja ekki að fjallagrasatínsla sé í umræðunni, þá hefðu þeir kannski átt að sleppa því, að telja hana vera möguleika til atvinnusköpunar, í stað stóriðju. Þjóðin hló að þessu á sínum tíma, og hún er enn að hlægja. Víst er það, að vinstrimönnum sárnar, eins og sést á þessu bloggi, en staðreynd er staðreynd, og staðreyndin er sú, að vinstrimenn héldu virkilega að að þetta gæti orðið blómlegur atvinnuvegur.

Ferðamennska var annar möguleiki sem vinstrimönnum var tíðrætt um. Sem segir okkur, að umhverfisvernd sé bara alls ekki efst í huga vinstrimanna, því ferðamennska á Íslandi er margfalt meiri mengunarvaldur en sú stóriðja sem hér er starfrækt.

Ferðamennska er sóunarbissness. Við byggjum sífellt fleiri og fleiri hús fyrir ferðamenn. Við kaupum inn sífellt fleiri og fleiri mengandi bíla fyrir ferðamenn. Við flytjum inn sífellt meira og meira af vörum fyrir ferðamenn. Matvæli, fatnað, byggingavörur, "íslenskt" gjafadrasl fyrir lundabúðir, framleitt í Kína, lyf, pappír, húsgögn, áhöld af ýmsu tagi, hjólbarða og aðra varahluti, eða allt sem þarf til að reka samfélag ferðamanna.

Allur þessi innflutningur skilur eftir sig margfalt meira "kolefnisspor" en nokkurn tíma álver. Svo ekki sé minnst á þá gífulegu mengun sem fylgir flugi með ferðamenn til og frá Íslandi, sem og siglingar skipa með draslið sem flutt er inn. Þá er ónefnt sorpið sem skilið er eftir, þegar ferðamaðurinn hefur lokið sér af á Íslandi.

Og ágangurinn á landið. Maður, þetta er skelfilegt hvernig landinu er nauðgað í þá ferðamannaiðnaðar. Það er orðið vonlaust að njóta fegurðar og þagnar sem óbyggðirnar veittu okkur. Allar líkur eru á, að náttúruperlan sem þú ætlar að heimsækja, sé menguð af hundruðum háværra ferðamanna, í tugum rútubíla. Ferðamennska hefur rænt okkur perlunum.

"Umhverfissinnar" vilja aldrei tala um þessar staðreyndir. Auðvitað ekki, umræðan um þessa gríðarlegu mengun sem fylgir ferðamennsku, opinberar hræsnina hjá þessu fólki í garð stóriðju.

Hilmar (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 16:01

8 identicon

Að hafa lært ensku er vissulega menntun, almennt kallað grunnskólamenntun.  Það að elda hamborgara og skúra golf er enginn sérstök menntun, hentar vel skólafólki með námi.

Bjarni (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 16:06

9 identicon

Ég myndi miklu frekar vilja 1 -2 álverksmiðjur til vðbótar heldur enn meiri vöxt í ferðaþjónustu sem hefur í för með sér mun meira álag á umhverfið.  Ég skil heldur ekki þessa rosalega óvild í garð iðnaðar. Þessar verksmiðjur eru að framleiða vörur sem er þörf fyrir og álið sem slíkt er mun umhverfisvænni kostur en ýmis önnur efni sem myndu þá koma í staðinn.  Ég semsagt skil ekki alveg hvað Ómar og ýmsir skoðanabræður hans vilja. Vilja þeir að hæt verði að framleða t.d. ál í heiminum eða vilja þeir bara að það verði framleitt annarsstaðar? Er það þeirra umhverfisvernd? 

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 17:47

10 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Fjallagrös eru reyndar fágæt líkt og annað "annað". Viðurkennum það bara strax að það felst engin náttúruvernd í að nýta þetta "annað". 
Fallvötnin hins vegar gefa möguleika, tiltölulega ómengaða, á því að fólk geti lifað í þessu annars harðbýla landi.

Kolbrún Hilmars, 6.12.2015 kl. 17:51

11 Smámynd: Sævar Helgason

Við erum búin að vera með álver í landinu í tæp 50 ár. 
Það vinna um 1-1.5 % af vinnuafli okkar við áliðnað í dag.
Allir hinir starfa við eitthvað annað eða 98,5- 99 % 
Þó að allir staðir á Íslandi fái ekki gnótt ferðamanna til sín - þá dreifist samt hagnaður af ferðaiðnaðinum um landið allt með ýmsum hætt- hagsæld lands  og lýðs eykst. Er t.d ekki verið að byggja flott jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar  svo dæmi séu tekin um hagsældina og dreifingu arðsemi. ?  

Sævar Helgason, 6.12.2015 kl. 18:34

12 identicon

Það er ljóst að maður sem heldur að grunnskólamenntun á ensku sé næg til að kunna eitthvað í eða geta haldið uppi samræðum á því máli hefur ekki hugmynd um hvað menntun er. Og það að matreiðsla fyrir ferðamenn sé jafngildi þess að kunna að steikja hamborgara! Hann kemur því þó ekki að að flugmenn séu ómenntaðir, en þó er mála sannast að þeir hafa einna minnstu menntunina þeirra sem við ferðsmennsku fást að undanskildum bílstjórum og ætla ég síst að gera lítið úr menntun þeirra, lærður á báðum sviðum. Ætli störf í ferðamennsku þarfnist ekki ámóta margra menntamanna hlutfallslega og stóriðjan? Ferðamálafræðingar, rekstrarfræðingar, hótelstjórnun, leiðsögumenn, framreiðslumenn, matreiðslumenn.

Eða hvaða menntun þurfa menn annars að hafa til að elda handa stóriðjuverkamönnum? Duga ekki hamborgarasteikjarar þar? Skúra gólfin þar? Keyra lyftara?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 20:22

13 identicon

Snýst þetta ekki um að hafa ekki öll eggin í sömu körfunni

álverð hefur lækkað

fiskur (síld) hefur horfið

olíuverð hefur farið upp í hæstu hæðir

á morgun gæti Ísland verið EKKI vinsæll staður fyrir ferðamenn

yfirtaka og flutningur á góðum fyrirtækjum t.d. í lyfjageiranum til útlanda kemur sennilega verst við okkur til lengri tíma litið

Grímur (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 20:29

14 identicon

Tungumálakunnátta lærist ekki í skóla, heldur með því að tala og hlusta, það vita þeir sem kunna annað en sitt móðurmál.

Það er álíka mikil menntun á bakvið hvert starf í ferðaþjónustu og er á bakvið hvert starf i götuhreinsun, og með þessu er ég ekki að gera lítið úr götuhreinsun

Bjarni (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 22:07

15 Smámynd: Sævar Helgason

Lítil menntun á bak við hvert starf í ferðaþjónustu -tíunda menn hér.
368 milljarðar í gjaldeyristekjur koma nú samt um þennan menntunnarsnauða geira.
Sennilega hefur aldrei jafn lítil þekking skapað jafn mikla tekjur á landi hér.
Þannig að hinir menntunarsnauð eru í fremstu röð við að halda uppi hárri arðsemi í þessu þjóðfélagi. Og kunna kannski ekki ensku :-)
 

Sævar Helgason, 6.12.2015 kl. 22:51

16 identicon

Arðsemi per starf í ferðaþjónustu er mjög lítil. Mörg störf sem hvert skilar litlu verða háar upphæðir til samans. Þegar 10 störf í ferðaþjónustu skapa ríkinu sömu tekjur og eitt í stóriðju er augljóst hvað er að halda þjóðfélaginu uppi og hvað er bara matvinnungur.

Hábeinn (IP-tala skráð) 6.12.2015 kl. 23:17

17 Smámynd: Sævar Helgason

Nú er ég einn af frumherjum í áliðnaði á Íslandi og til 40 ára 
Ekki kannast ég við nein ofurlaun sem eru 10 x meiri en fólk sem sinnir ferðaiðnaði hefur . Hinsvegar vinna margir svart samkvæmt opinberum upplýsingum- í ferðaiðnaði. T.d vinna um 400 manns í Straumsvík- og svo viðlíka í hinun tveimur - svona um 1500-1600 manns Ertu Hábeinn, að halda því fram að þetta fólk haldi uppi þjóðfélaginu.... 

Sævar Helgason, 7.12.2015 kl. 00:52

18 identicon

Tekjur ríkisins, þjóðfélagsins, eru ekki það sama og launatekjur starfsmanna. Tekjur þjóðfélagsins af stóriðju deilt niður á starfsmenn í greininni eru margfalt það sem ferðaþjónustan skilar á hvern starfsmann. Þó upphæðin sé há frá ferðaiðnaðinum þá er starfsmannafjöldinn slíkur að innkoman verður lítil fyrir hvert starf í ferðaiðnaði.

Ef valið stendur um hvort fólk sé atvinnulaust eða í ferðaþjónustu þá er ferðaþjónustan betri. En ef valið er um hvort sköpuð verða störf við stóriðju eða í ferðaþjónustu þá hefur stóriðjan vinninginn.

Hábeinn (IP-tala skráð) 7.12.2015 kl. 02:16

19 identicon

„Það er álíka mikil menntun á bakvið hvert starf í ferðaþjónustu og er á bakvið hvert starf i götuhreinsun,...“

Þetta er hreint bull og bendir til yfirgripsmikillar vanþekkingar á ferðaþjónustustörfum.

En kannski er ekkert hægt að munnhöggvast við tröll? Jafnskynsamlegt trúlega og að gelta á tunglið til að slökkva á því.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.12.2015 kl. 06:54

20 Smámynd: Sævar Helgason

Nú er eru útflutningstekjur frá stóriðjunni háar í þjóðarbókhaldinu og það í gjaldeyri. En langstærstur hluti þessara útflutningstekna er eign hinna erlendu fyrirtækja í stóriðjunni-inni í þessum tölum eru einnig vinnulaun okkar og raforkan sem við seljum- hvorutveggja mjög lítill hluti af heildinni. Þannig að hið eðlilega er við mat á útflutningstekjum okkar af þessu er að draga frá hlut eigenda stóriðjunnar- þá fáum við rétta mynd. Varðandi ferðaiðnaðinn þá eru tekjur okkar fyrirtækja þar miklar t.d Icelandair sem er hálaunaiðnaður-hótel og bílaleigur-ferðaþjónustufyrirtæki-allt með háar tekjur. Mér finnst nú ,Hábeinn að þú sér um og og bograndi yfir skúringafólki og aðstoðarfólki í ferða- þjónustunni-með lág laun- það er lítill hluti verðmyndunar í ferðaiðnaði.
  

Sævar Helgason, 7.12.2015 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband