Minnir á 17. öld í Evrópu.

17. öldin var einhver óróasamasta öld sögunnar í Evrópu og ástandið þar að auki eitt hið flóknasta, enda ríki álfunnar óhemju mörg og flækjustig stjórnmála- og trúarbragðahagsmuna svo hátt.

Flest ríki álfunnar drógust meira og minna inn í styrjaldarátök og ekki fór að greiðast úr þeirri flækju, sem ríkjafjöldinn í Þýskalandi og á Ítalíu olli einn og sér, fyrr en á 19.öld.

Ástandinu, sem verið hefur að myndast í Miðausturlöndum síðan stríð Íraks og Íran hófst á níunda áratug síðustu aldar, svipar um ýmislegt til 17. aldarinnar í Evrópu og getur þessvegna tekið aldir að vinda ofan af því þarna eystra rétt eins og í Evrópu.

Stríð Íraks og Írans var dæmigert fyrir hið flókna ástand á svæðinu og var að mörgu leyti tímamótastyrjöld.

Ef litið var eingöngu á leiðtoga ríkjanna tveggja sýndist þetta vera stríð milli súnní múslima og shíta múslima, en enda þótt Saddam Hussein einræðisherra Íraks væri súnni múslimi, er mikill meirihluti Íraka shíta múslimar.

Sem oftar voru það önnur atriði en trúarleg sem réðu undir niðri mestu um það að þessi styrjöld og fleiri stríðsátök síðan hafa brotist út á svæðinu og munu halda áfram að brjótast út um ófyrirsjánlega framtíð.

Rétt eins og í Evrópu spila stórveldi á ástandið í Miðausturlöndum samræmi við hagsmuni sína með hliðsjón af stöðu sinni og annarra stórvelda á svæðinu.

Öldum saman var það aðalatriði í utanríkismálastefnu Breta að hamla gegn því að nokkurt stórveldi næði yfirburðastöðu á meginlandi Evrópu, og svipaðan leik leika Bandaríkjamenn og Rússar í Miðausturlöndum.

Á meðan Bandaríkjamönnum sýndist hætta á að rísandi veldi harðlínuklerka í Íran gæti náð yfirburðastöðu og "ógnað stöðugleika" á svæðinu, studdu þeir Saddam Hussein í stríðinu gegn Íran.

Þegar Saddam gerðist síðan frekur til fjörsins snerist dæmið snarlega við.

 


mbl.is Hernaðarbandalag 34 landa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru merkilegar fréttir.  Skrítið hvað þær fá lítið pláss.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 15.12.2015 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband