21.1.2016 | 17:44
Snjóflóð á Blönduósi? Já, fyrir rúmum tveimur áratugum.
Það voru afdrifarík mistök á síðari hluta 20. aldar að reisa íbúðabyggðir á stöðum, þar sem landi hallaði fyrir ofan byggð og gat snjóað mikið.
En þessi tvö atriði taldi norskur snjóflóðasérfræðingur, sem var kvaddur hingað til lands í framhaldi af snjóflóði á Seljalandsdal 1994, að nægðu til að snjóflóð gætu fallið.
Og varaði við snjóflóðahættu á Vestfjörðum.
Menn uggðu ekki að sér af því að engar sagnir voru úr fortíðinni um snjóflóð á nýjum byggingarsvæðum, svo sem í Súðavík og á Flateyri.
En þá gleymdist, að vegna þess að þarna voru áður auð svæði, höfðu snjóflóð þar ekki talist til tíðinda.
Ég minnist þess enn þegar fregnir bárust af snjóflóði á Blönduósi fyrir rúmum tuttugu árum, trúði ég því ekki í fyrstu.
Taldi mig þekkja það vel til staðhátta á Blönduósi, að þar væri útilokað að snjóflóð félli.
Ekkert fjall og engin hlíð.
Þegar komið var á staðinn blasti hins vegar við, að furðu stórt snjóflóð hafði fallið úr lágri brekku fyrir vestan bæinn Enni, og fallið upp að íbúðarhúsum, sem þar stóðu.
Þegar ég var þarna í sveit var engin þéttbýlisbyggð nálægt Enni, heldur öll fyrir vestan Blöndu.
Hafi fallið snjóflóð austan við ána á fyrri tíð og fyrri öldum hefur varla nokkur orðið þess var.
Huldufólk á hættusvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skilgreind hafa verið snjóflóðahættusvæði á Hvolsvelli, Blönduósi, Sauðárkróki, Vík Hvolsvelli og Kirkjubæjarklaustri.
Ástæðan er alger skógareyðing sem veldur því að skafrenningur ræður ríkjum og snjósöfnum verður í hlíðum ofar byggðar. Annarsstaðar er ekkert skjól að hafa.
Það er íbúum og sveitrastjórnum þessara byggðarlaga til skammar að hafa ekki bruðgðist við með hræódýrri skógrækt og skjólbeltagerð. Með þeim aðferðum má stjórna því að snjósöfnunin verði annarsstaðar en í þessum hættulegu brúnum.
Skógleysið og lausaganga sauðfjár kostar samfélagið milljarða ár hvert í óþörfum skafrenningi og sviftivindum sem gera samgöngur erfiðari og dýrari en annars þyrfti.
Nútímasamgöngur eru enn í hlekkjum nauðþurftasauðfjárbúskapar fyrri alda.
Sigurður Sunnandvindur (IP-tala skráð) 21.1.2016 kl. 19:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.