24.1.2016 | 14:46
Lifa í veruleika þróunarlandanna.
Stóriðjan passaði vel inn í efnahagslíf þeirra ríkja um miðja síðustu öld þar sem alþjóðleg stórfyrirtæki sóttust eftir að nýta ódýrar auðlindir og stefna verkalýðshreyfingar og jafnaðarmanna var að skapa sem flest störf fyrir fjölmenna stétt verkamanna og iðnaðarmanna í stóriðjuverum.
Ódýra orku var helst að finna í þróunarríkjum, og enda þótt Ísland væri öflugt matvælaútflutningsland, ágætar þjóðartekjur og hefði nokkuð þróaða innviði og menntunarstig, var gjaldeyrisbókhaldið einhæft, samgöngukerfið vanþróað og raforkuskortur.
Þess vegna var greið leið og í sátt við vilja meirihluta þjóðarinnar að virkja stórt í Þjórsá og selja helmning orkunnar til 33 þúsund tonna álvers í Straumsvík.
Nú eru allt aðrir tímar og á Vesturlöndum er forsenda fyrir velgengni þjóða vel menntaður mannauður, sem þiggur góð laun við skapandi störf sem byggjast á tækni, þekkingu og frumkvæði og getur byggt upp þjóðfélag í fremstu röð varðandi heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
En eigendur stærstu fjölþjóðlegu stóriðjufyrirtækjana lifa enn í hálfrar aldar gömlum veruleika og sækjast eftir að nýta sér fátækt þróunarríkjanna til að komast yfir auðlindir þeirra og vinna úr þeim með láglaunavinnuafli.
Þess vegna hefur stórum verksmiðjum og úrvinnslufyrirtækjum á borð við álver og olíuhreinsistöðvar fækkað á Vesturlöndum og til dæmis hefur engin olíuhreinsistöð verið reist á Vesturlöndum í 20 ár.
Eigendur Rio Tinto lifa í þeimm veruleika að geta deilt og drottnað í þeim fátæku löndum, sem þjóna best hagsmunum þeirra við að nýta auðlindir innfæddra fyrir spottpris og skammta starfsfólki skít úr hnefa í launum.
Þegar þeir gefa út allsherjar tilskipun um að lækka laun, eins og frysting launa þýðir í raun hér á landi, treysta þeir á að innlendir og áhrifamiklir áltrúarmenn veiti þeim stuðning, meðal annars með því að hvetja til að látið verði að vilja hins alþjóðlega stóriðjuauðvalds sem hótar því að loka álverum ef því býður svo við að horfa og flytja starfsemina til fátækra landa.
Eigendur Rio Tinto treysta á það að Íslendingar hugsi eingöngu um þrönga skammtímahagsmuni og skjálfi á beinunum yfir hættunni á að nokkur hundruð manns missi vinnuna í bili.
En það eru til mörg smærri fyrirtæki, sem vilja borga hærra orkuverð en álverið í Straumsvík og geta komið í staðinn fyrir Rio Tinto í orkukaupum á örfáum árum, einmitt á þeim tíma sem skortur er á vinnuafli í uppsveiflunni sem ferðaþjónustan skapar og nemur þúsundum nýjum störfum á hverju ári.
Þegar vá þótti fyrir dyrum á Akureyri við fall Sovétríkjanna og hrun útflutnings á iðnaðarvörum þangað, var kveinað um það að aðeins álver í Eyjafirði gæti "bjargað Akureyri og Norðurlandi."
Álverið reis ekki og farið var inn á nýjar og ólíkar brautir í atvinnuuppbyggingu í staðinn.
Nú blómstrar Akureyri sem aldrei fyrr.
Fyrirtækið að étast upp innan frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er engin spurning að smá og meðalstór verðandi fyrirtæki á íslandi geta borgað betur fyrir raforkuna, en stórfyrirtækin gera í dag. En til að svo verði þarf ýmsu að breyta, t.d. er smáum og meðalstórum fyrirtækjum boðið upp á okurvexti og verðtryggu, hér á landi, þegar stórfyrirtækin taka erlend lán á 2-2.5% nafnvöxtum, og eru með útflutningtekjur í erlendri mynt. Því fagna ég því mjög að þingmennirnir Helgi Hjörvar og Sigríður Ingadóttir eru búin að leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingar, allavega af neytendalánum. Ég get ekki betur séð en þau séu búin að stilla framsókn svo kyrfilega upp við vegg, að það sé ekki nema ein útgönguleið fyrir framsókn, að þjóðin fái að kjósa í ráðgefandi kostningu um afnám verðtryggingar, samhliða forsetakoningunum í sumar, því ef framsókn svíkur landsmenn í sambandi við verðtrygginguna getur framsókn alveg sleppt því að bjóða fram fyrir þingkosningar árið 2017.
Jón Ólafur (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 15:42
Sæll.
Þessi sögulega yfirferð þín er nokkuð áhugaverð en það er eigi að síður staðreynd að erlend fyrirtæki sem starfa í löndum öðrum en sínu upprunalandi borga oftast nær hærri laun en gerist og gengur í þessum löndum.
Í þessum pistli þínum gleymir þú alveg hinni hliðinni á jöfnunni: Álverð er lágt og hefur verið lágt í langan tíma þannig að erfitt er að vera í álbransanum núna. Fyrirtæki framleiða ekki peninga þó ýmsir haldi það og sveiflur í heiminum valda því að fyrirtæki ýmist stækka, minnka eða fara einfaldlega á hausinn.
Kannski vill Alcan einfaldlega loka hér til að minnka kostnað? Menn sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta geta talað af stærilæti og bölsóttast út í græðgi sumra. Staðreyndin er hins vegar sú að yfirleitt eru fyrirtæki ekki rekin lengi með tapi. Stjórnendur fyrirtækja sem ekki bregðast við aðstæðum gera bæði sig og starfsmenn sína fljótlega atvinnulausa.
Vel má vera að aðrir geti borgað meira fyrir rafmagnið en álverið gerir en þá kostar líka meira að dreifa því - enn eitt atriðið sem þú gleymir.
Svo er líka vert að hafa í huga að eftir því sem ég best veit hefur Hafnarfjarðarbær verulegar tekjur af álverinu. Höfum líka í huga að fjárhagslega stendur Hafnarfjarðarbær afar illa. Ef álverinu verður lokað er hætt við að Hafnarfjarðarbær fari einfaldlega á hliðina fjárhagslega. Hvaða afleiðingar ætli það hafi? Hafa menn hugleitt það?
Það er alltaf nauðsynlegt að skoða báðar hliðar málsins - því sleppir þú því miður alveg :-(
Botninn mun detta úr ferðaþjónustunni eftir fáein ár, ég giska á 2-5 ár. Þá munu Íslendingar sitja uppi með mörg galtóm hótel :-(
@Jón Ólafur:
Afnám verðtryggingar er ekki sú töfralausn sem þú heldur að hún sé. Kynntu þér málin áður en þú tekur ástfóstri við þetta mál. Svo er líka ágætt fyrir þig að vita að lágir vextir eru ekki sú blessun sem þú og aðrir halda að þeir séu, það muntu sjá innan 5 ára eða svo. Vextir hafa verið lágir í bæði Evrópu, Bandaríkjunum og víðar í mjög langan tíma en samt er staðan þar ekki góð. Hvers vegna?
Helgi (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 16:17
Það er svolítið magnað, ef maður hugsar út í það, hvað Ómar Ragnarsson getur hatast út í starfsemi, sem borgar með sér, en varið með kjafti og klóm, listamenn sem lifa sníkjulífi á skattborgurum, og koma aldrei til með að borga til samfélagssins.
Hilmar (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 16:19
@3:
http://www.vb.is/skodun/andri-snaer-og-listamannalaunin/124388/
Það á að leggja þessi listamannalaun alfarið niður. Þessir svokölluðu listamenn verða bara að gera svo vel og vinna fyrir sér eins og annað fólk - þeir eru ekkert of góðir til þess!!
Helgi (IP-tala skráð) 24.1.2016 kl. 16:40
Að sjálfsögðu er hægt að banna hér alla verðtryggingu strax í fyrramálið.
Vextir hér á Íslandi lækka hins vegar ekki með afnámi verðtryggingar.
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 19:55
15.11.2015:
Alcoa aldrei greitt skatt hér á Íslandi - Um 57 milljarðar króna farið frá Alcoa í Reyðarfirði til Lúxemborgar
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 20:05
17.12.2015:
Norðurál þrýstir á lægra orkuverð
Landsvirkjun segir Norðurál sýna mikla hörku og hóta lokun
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 20:08
Nettóskuldir Landsvirkjunar voru 1. janúar 2013 309,4 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar fyrir árið 2012, andvirði tveggja Kárahnjúkavirkjana.
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 20:09
21.2.2014:
Landsvirkjun tapaði 4,4 milljörðum króna árið 2013 vegna lækkandi álverðs
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 20:10
10.4.2013:
"Á aðalfundi Landsvirkjunar í dag var samþykkt tillaga stjórnar fyrirtækisins um arðgreiðslu til eigenda, þ.e. ríkissjóðs, að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2012.
Landsvirkjun greiddi 1,8 milljarða í arð í ríkissjóð í fyrra en fyrirtækið greiddi engan arð fjögur ár þar á undan."
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 20:12
17.2.2015:
"Íslandsbanki spáir því að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar verði 342 milljarðar króna árið 2015, eða ríflega ein milljón króna á hvern Íslending.
Greinin hefur vaxið mun hraðar en hagkerfið og með sama áframhaldi verða tekjurnar farnar að nálgast útgjöld ríkisins innan nokkurra ára en þau eru áætluð um 640 milljarðar króna í ár."
"Ingólfur Bender forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka segir ferðaþjónustuna orðna "langumfangsmestu atvinnugrein þjóðarinnar á mælikvarða gjaldeyrisöflunar.""
Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar um 342 milljarðar króna í fyrra, 2015
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 20:18
Síðastliðinn þriðjudag:
Nærri uppselt til Íslands á þessu ári, 2016
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 20:29
Í dag:
Jón Baldvin segir koma til greina að kjósa Pírata
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 22:23
Stefnumál Pírata - Píratar
Stefna Pírata í sjávarútvegsmálum - Píratar
1.4.2015:
"12. mars síðastliðinn tilkynnti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra Evrópusambandinu að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki."
Straumurinn til Pírata eftir 12. mars síðastliðinn
Í fyrradag:
Fylgi Pírata eykst enn og er nú 38% en Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælst minni
Þorsteinn Briem, 24.1.2016 kl. 23:08
Framlegð þessara "listamanna sem lifa sníkjulífi á skattborgurunum" nemur tugum milljarða króna í beinum gjaldeyristekjum í gegnum kvikmyndaiðnaðinn, tónlistarflutning bæði hér á landi og erlendis og sölu á íslenskum bókum og listaverkum.
Ómar Ragnarsson, 25.1.2016 kl. 01:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.