Athyglisverð grein um gáttaflökt.

Gáttaflökt eða hjartaflökt var eitt af því sem Kári Stefánsson nefndi sem dæmi um óviðunandi ófremdarástand í heilbrigðiskerfinu.

Í Fréttablaðinu í dag er athyglisverð lýsing manns sem veiktist af gáttaflökti í Kverkfjöllum og framundan reyndist margra mánaða óvissutími vegna tafa og biðlista, þar sem hann var milli vonar og ótta um það að gáttaflöktið leiddi til heilablæðinga eða áfalls, sem gæti leitt hann til örkumla eða dauða.

Þessi greinarhöfundur var heppinn og slapp með skrekkinn.

En þannig er það ekki alltaf.

Einn vinur minn fékk alvarlega heilablæðingu á meðan hann beið eftir að það kæmi að honum á biðlistanum, var haldið sofandi í öndunarvél og síðar biðu hans margar vikur á Grensásdeild.

Beinn kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna þessa áfalls nemur áreiðanlega margföldum sparnaði, sem menn telja sér trú um að fáist með því að láta fólk bíða mánuðum saman eftir bráðnauðsynlegum aðgerðum.

Þá eru ótaldar þjáningar, vinnutap, örorka og annað sem fylgir alvarlegum veikindum og ótímabærum dauða.

 


mbl.is Kári segir munnhöggin mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Mér finnst bæði Kári og Sigmundur hafa nokkuð til síns máls.

Mér finnst eins og Kári átti sig ekki á því að sömu krónunni verður ekki eytt tvisvar. Ef Kári vill auka fjárútlát til heilbrigðiskerfisins ætti hann líka að nefna hvar hann vill láta skera niður. Það væri heiðarlegra af honum. Vill hann kannski auka á skuldir hins opinbera? Heilbrigðiskerfið er langt í frá eini góði málaflokkurinn sem verðskuldar aukið fé. 

Svo gleymir Kári alveg verulegri launahækkun sem bæði læknar og hjúkrunarfræðingar fengu nýlega. Tuttugu og hvað prósent? Hver eru meðallaun lækna í dag? Hver eru meðallaun hjúkrunarfræðinga í dag?

Kanada eyðir 10.9% í heilbrigðiskerfi sitt. Samt er það svo að tugir þúsunda þar fara suður yfir landamærin á hverju ári og kaupa sér þjónustu sem fæst ókeypis í Kanada. Hvernig vitum við þá, ef Kári fær sínu framgengt, að allt verði flott og fínt hér við að eyða 11% í heilbrigðiskerfið?

Af hverju stingur Kári ekki upp á 17% eins og USA eyða? Getum við látið 11% nægja? Vita menn t.d. hvað stendur á bak við þessar tölur frá USA? Er kerfið þar óskilvirkt og lélegt vegna þess hve miklu þeir eyða? Þess má geta að Haiti eyðir sama hlutfalli og Ísland. Þurfum við þá ekki hærra hlutfall? Af hverju vilja menn miða við Norðurlöndin? Er alveg víst að kerfið þar sé svo gott? Eru menn vissir um að samanburður á prósentum sé gallalaus samanburður? 

Svo gleymir Kári, þegar hann vill bera okkur saman við Norðurlöndin, hvers konar stórslys sænska heilbrigðiskerfið er þó auðvitað megi ekki ræða það.

Á hinn bóginn eru biðlistar afar slæmir.

Lausnin er að hverfa frá miðstýrðu heilbrigðiskerfi og einkavæða. Ég vil ekki vera að niðurgreiða heilbrigðisþjónustu fyrir offitusjúklinginn sem reykir eins og strompur - viðkomandi á að greiða fyrir eigin lífsstíl og þær heilsufarlegu afleiðingar sem hann hefur í för með sér.

Helgi (IP-tala skráð) 28.1.2016 kl. 21:55

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ein helsta gagnrýnin á heilbrigðiskerfið í BNA er hvað það er dýrt, og kenna sumir gróðasjónarmiðum innan þess um.

Ómar Ragnarsson, 29.1.2016 kl. 03:00

3 identicon

Þá sagði Drottinn við Kain: Hvar er Abel bróðir þinn? En hann mælti: Það veit ég ekki, á ég að gæta bróður míns?

Til allrar hamingju eru viðhorf eins og Helga hér að framan ekki útbreitt á voru landi, Íslandi. Jafnvel forystumenn sjálfstæðisflokksins birta ekki slíkar skoðanir, jafnvel þótt þær séu áberandi í málflutningi ungliðahreyfingar flokksins, enda sæma þær ekki flokki sem kennir sig við kristin gildi.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 29.1.2016 kl. 10:28

4 identicon

Mig langar aðeins að benda á að Kári hefur hvergi minnst á aukin fjárútlát.  Aðeins talað um að forgangsraða og nota ákveðna prósentutölu af vergri landsframleiðslu. Það er að skipta kökunni með öðrum hætti en gert hefur verið.  
Sama hvað má segja um Kára þá finnst mér að þjóðin megi nú aðeins líta upp til hans að hafa þorað því sem margir tala um en koma aldrei á prent.  
Finnst að þjóðin ætti að hundskast til að flykkja sér um þessa hugmynd hans Kára og skrifa undir.  Þetta er í fyrsta skipta sem ráðamenn hafa tækifæri til að sjá hug fólks í landinu um þetta stóra mál svo það er bara um að gera að gefa þeim góða línu um hvað þjóðin vill.   Fyrir mér er þetta risaskoðanakönnun ekkert annað og afhverju ekki að taka þátt í því. 

Kveðja: Baldvin

Baldvin Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.1.2016 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband