29.1.2016 | 20:23
M.R. er og var á forræði ríkisins. Yfir til þín, Sigmundur!
Undanfarinn áratug hafa verið á sveimi hugmyndir um að fara út í framkvæmd á hugmyndum um breytingar á því svæði, sem er einstakt í menningarsögu þjóðarinnar og sögu Reykjavíkur.
Þetta er svæðið milli Lækjargötu, Antmannsstígs og Bókhlöðustígs og kennt við Menntaskólann í Reykjavík, M.R.
Á tímabili leit út fyrir að ráðist yrði gegn íþróttahúsi skólans, sem er fyrsta húsið á Íslandi sem reist var sérstaklega sem íþróttahús.
Þar var vagga handboltans á Íslandi og þar fengu kennslu margir af helstu afreksmönnum Íslands.
Þegar litið er á það sem á að gera við Casa Cristi er full ástæða að huga að ástandi íþróttahússins, því að hugmyndir voru um að breyta því í bókasafn og fjarlægja úr því innréttingarnar.
Húsið þekur ekki nema rúmlega 100 fermetra á svæði, sem er á bilinu 10-15.000 fermetrar og því auðvelt að leysa húsnæðisþörf M.R. án þess að snerta við þessu húsi á neinn hátt.
Góð grein í Fréttablaðinu sýnir vel gildi Casa Cristi eða KFUM-hússins eins og það hét áður en M.R. fékk það til afnota seint á sjötta áratugnum.
Húsið er stútfullt af stórmerkri sögu og þar að auki mikils vert hvað arkitektúr varðar.
Ég hef í meginatriðum verið sammála sjónarmiðum Sigmundar Daviðs Gunnlaugssonar varðandi útlit og byggingar í miðborg Reykjavíkur og undrast ef hann ætlar ekki að beita sér í máli sem er beint á forræði ríkisins.
M.R. er langelsti skóli ríkisins, beinn arftaki Bessastaðaskóla og Hólavallaskóla og hefur alltaf verið ríkisstofnun og því margfalt tilefni til þess að ríkisvaldið láti sig málefni skólans og bygginga hans varða.
Kennsla hefur farið fram á vegum M.R. í meira en hálfa öld í Casa Cristi og það á vel að vera hægt að gera húsið upp og halda áfram kennslu í því, ef vilji er fyrir því.
Húsinu var naumlega bjargað frá því að brenna í stórbruna 1947 og er klökkt ef það á nú að verða eyðileggingaröflum á vegum manna að bráð.
Húsið er friðað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hann afhjúpar sig í þessu máli. Fljótfær lýðskrumari.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.1.2016 kl. 20:55
"Kennsla hefur farið fram á vegum M.R. í meira en hálfa öld í Casa Cristi"
Einkennilegt. Ég var í MR seinni hluta sjöunda áratugarins og þá var ekki var ekki kennt í húsinu að ég man best. Casa Nova var nýtt og Þrúðvangur var mikið notaður.
Jón (IP-tala skráð) 29.1.2016 kl. 21:06
Ég var í M.R. veturinn 1959-60 og ók á NSU Prinz 30 bíl mínum inn í KFUM-húsið af grallaraskap en var læstur inni í fatageymslu þegar ég bakkaði inn í hana á leiðinni út!
Ég var að heimsækja Z-bekkinn, sem var kallaður Zetuliðið. Þá var húsið enn að mestu notað fyrir KFUM, og húsvörðurinn á vegum KFUM, því að hann opnaði fatageymsluna fyrir mér og ég brunaði út.
Fjöldamörg vitni voru að þessu og því er þetta rétt: "Kennsla hefur farið fram á vegum M.R. í meira en hálfa öld í Casa Cristi."
Ómar Ragnarsson, 29.1.2016 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.