30.1.2016 | 09:41
Verður þarna bara ekki sautjánda hringtorgið á svæðinu?
Það yrði sennilega bæði talið of dýrt og úr stíl við gatnakerfið nálægt mótum Krýsuvíkurvegar og Reykjanesbrautar ef farið yrði að gera mislæg gatnamót á þessum vegamótum.
Í Vallahverfinu í Hafnarfirði skammt frá vandræðagatnamótunum við Hellnahraun eru nefnilega ein sextán hringtorgi, - já, segi og skrifa 16 hringtorg!
Það ætti því ekki að muna mikið um að gera 17. hringtorgi, eða hvað?
Gatnamótin þykja stórhættuleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Heyrði sögu af því þegar að verið var að skipuleggja svæðið og verkfræðingarnir voru að fara yfir öll gögn, voru þeir með stórt kort af gatnakerfinu sem náði yfir allt fundarborðið.
Eins og siður er á góðum fundum, þá er boðið uppá kaffi. Einn í skipulagsnefndinni var víst mikið óðamála og hafði stífar meiningar um hvernig göturnar ættu að liggja og fór með miklum handabendingum yfir kortið og lagði alltaf bollann niður hvar sem hann var staddur á kortinu. Bollinn markaði kaffihringi.
Að loknum velheppnuðum fundi var svo kortið sent til Verktakans með öllum sínum kaffihringjum og við skulum bara vona að það verði ekki kaffi í boði þegar skipuleggja á nýtt hverfi í framtíðinni.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.1.2016 kl. 10:28
Hringtorg geta verið ágætis lausn gatnamóta, en þau ætti þó aldrei að nota nema þar sem umferð er hæg, t.d. innan íbúðahverfa og alls ekki nema í hófi.
Á Akranesi og í nágrenni þess búa margir sem vinna á Reykjavíkursvæðinu og öfugt. Til að komast á milli Akraness og Reykjavíkur þarf að aka um a.m.k. 9 hringtorg. Flest þeirra á stofnbrautum með hámarkshraða um 80km/klst.
Þeir sem aka þessa leið daglega verða fyrir frekar óskemmtilegri reynslu. Ef ekki er passað upp á að víxla dekkjum undir bílnum og það nokkuð ört, þá misslitna dekkin verulega, þannig að ytribrún framdekkja hægramegin og innri brún framdekkja vinstramegin slitna mjög hratt. Þetta skeður mjög hratt og hef ég séð dekk sem eknum hafði verið eitt sumar þessa leið þar sem framdekkin voru ónýt, meðan varla sá á mynstri afturdekkja. Í dag eru flest dekk orðin stefnumarkandi þannig að til að víxla dekkjum milli hægri og vinstri hliðar bíls þarf að umfelga þau, með ærnum tilkostnaði.
Þetta má að öllu leyti kenna of miklum hraða gegnum hringtorgin enda þau flest á stofnbraut með tiltölulega háum hámarkshraða, auk þess sem halli götunnar gegnum þau er í flestum tilfellum öfugur.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að hringtorg á stofnbrautum, með háum hámarkshraða, eykur mjög mengun og eldsneytiseyðslu.
Vissulega er mun ódýrara að gera hringtorg en mislæg gatnamót. En það verður líka að horfa á heildarmyndina, ekki bara stofnkostnað.
Skopið í þessu nær þó hámarki þegar byggð eru mislæg gatnamót og ofaná þau sett hringtorg. Þetta þekkist á nokkrum stöðum hér á landi og má t.d. nefna mislægu gatnamótin við Leirvogstungu og Tungumela í Mosfellsbæ (Hringtorgabæ).
Gunnar Heiðarsson, 30.1.2016 kl. 10:50
Mislægu gatnamótin sem eru plönuð þarna eru mjög lítil miðað við mörg önnur.
Með því að bæta þessum gatnamótum mun koma líka betri tenging inn í hverfið sem leyfir fólki að sleppa uppí 5-6 hringtorgum á Ásbraut.
Haraldur (IP-tala skráð) 30.1.2016 kl. 13:34
Ég tek upp hanskann fyrir þessi hringtorg okkar í Hafnarfirði. Þau skapa mikið umferðaröryggi- draga niður umferðahraða á gatnamótum og auðvelda mjög stöðuga hringrás umferðar yfir gatnamót. Miklu betri lausn en umferðarljós sem stífla sírennsli umferðar mjög. Kynntist þessum töfrum fyrst á akstri í Bretlandi og hreifst af- löngu fyrir hrintorgin okkar hér í Hafnarfirði. Hinsvegar er hægt að ofgera öllu t.d eins og í Paris við Sigurbogann - eru ekki sex akreinar þar sem myndast á þeim hring ? Hringtorg gæti hentað mjög vel við Hellnahraun að mínu mati- fer þar oft um. Mislæg gtnamót eru rándýr og krefjast mjög mikillar umferða úr öllum áttum- það er ekki hér.
Sævar Helgason, 31.1.2016 kl. 14:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.