Þetta hefði Sigurður Ben átt að frétta.

Sigurður Benediktsson hét mætur og snjall maður, verkfræðingur að mennt, skemmtilegur flugáhugamaður, sem lést fyrir allmörgum árum.

Hann var mjög virkur og áhugasamur svifflugmaður og komst oft skemmtilega að orði, ekki hvað síst þegar mörg r voru í orðunum sem hann sagði, því að hann var dálítið gormæltur eins og það var kallað.

Frægt varð það atvik þegar Sigurður lenti í vandræðum efst í Mosfellsdal á svifflugu og varð að lenda henni á úfnu landi vestast á Mosfellsheiði, þannig að svifflugan fór að miklu leyti í mask.

Sigurð sakaði ekki og gat sent út af talstöðinni, sem var í lagi þessa orðsendingu, og er stafurinn r skrifaður með stafnum g, það er að segja linu g, svipað og í sögninni að laga:

"Geykjavík flugstjógn. Sigugðug Alfgeð Kgistján tótal kgassaðug á Mosfellsheiði."

Mönnum brá eðlilega við að heyra þetta á bylgjunni, - að vera "tótal krassaður" þýddi nánast eitt, og því kom þetta svar til baka:

"Hvaðan kallar þú eiginlega?"

Við Sigurður bjuggum í nokkur ár í blokkinni að Sólheimum 23.

Einn morgun urðum við samferða að morgni til í lok apríl út úr blokkinni, og þegar við opnuðum útidyrnar blés austan stórhríð upp í nefið á okkur, svo að erfitt var að komast út.

Ég leit á Sigurð og sagði: "Það er varla hægt að una við þetta, að það skuli vera að koma maí, og hríðin stendur beint upp á mann."

Sigurður svaraði um leið:  "Vegtu gólegug. Þetta heldug Tygkjunum fgá."

Framsýnn maður, Sigurður, sagði þetta 25 árum áður en flóttamannabylgjan frá Tyrklandi skall á Evrópu.

En það hefði verið gaman ef hann hefði lifað það að frétta af Tyrkjanum, sem tjaldaði á Egilsstöðum í fjögurra stiga frosti og snjó í gærkvöldi og gisti í tjaldinu fram á morgun.

 


mbl.is Ungur Tyrki tjaldaði í snjónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband