"Lögfræðingar ráða Bandaríkjunum!" Er það víðar þannig?

Afar athyglisverð og tiltölulega löng umfjöllun bandaríska sjónvarpsþáttarins 60 minutes um hátt á annan tug lögfræðinga á Manhattan afhjúpaði þá nöturlegu staðreynd að þeir fúlsuðu ekki við því að hjálpa til við að veita milljónum dollara af illa fengnu fé inn í Bandaríkin svo að ekki væri hægt að rekja uppruna þess.

Aðeins einn af þeim lögfræðingum, sem leitað var til með faldri myndavél, vildi ekki gera þetta.

Meðal lögfræðinganna var formaður bandarísku lögfræðingasamtakanna, sem eru áhrifamikill þrýstihópur og virðist hafa völd og ríkidæmi lögfræðinga þar í landi í hávegum ef marka má ummæli eins þeirra sem hældist um yfir völdum þeirra.

Talið barst að þeirri mótsögn að í orði kveðnu vilji bandarísk stjórnvöld berjast gegn peningaþvætti og áætluðum þriggja þúsund milljarða króna tekjum, sem renna á hverju ári inn í bandaríska hagkerfið, en samt er glufa í lögum landsins sem bandarískir lögfræðingar nýta sér.

Aðeins Kenía er verri en Bandaríkin að þessu leyti.

Spurt var af hverju bandarísk stjórnvöld, þingið og ríkisstjórnin, settu ekki undir þennan leka. Þeirra væri valdið.

"Ónei," var svarið. "Við höldum þeim á mottunni og kunnum að beita þeim þrýstingi sem nægir".

Eftir ítrekaða spurningu um að þingið og ríkisstjórnin hefðu valdið kom dásamlegt svar: "Lögfræðingar ráða Bandaríkjunum!"

Sem minnir mig á þá tíma sem ég sat í lagadeild Háskóla Íslands sem virtist vera uppeldisstöð fyrir komandi þingmenn og ráðamenn landsins.

Lögfræðingar og viðskiptafræðingar koma alltaf standandi niður eins og kötturinn.

Aldrei var meira að gera hjá þeim en eftir Hrunið.

Nokkur nöfn voru nefnd í 60 minutes um þægileg skattaskjól og miðstöðvar peningaþvættis og hljómaði það svo sem ekkert ókunnuglega, meðal annars Luxemborg og Lichtenstein.

Alcoa leitar til Luxemborgar til að koma milljörðum úr landi í bókhaldsfléttu sem miðar að því að ræna ríkissjóð Íslands milljörðum króna árlega í formi tekjuskatts af gróðanum af álverinu á Reyðarfirði. Tilviljun? 

 

 


mbl.is Fórnarlamb ponzi-svikamyllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Alcoa leitar til Luxemborgar til að koma milljörðum úr landi í bókhaldsfléttu sem miðar að því að ræna ríkissjóð Íslands milljörðum króna árlega í formi tekjuskatts af gróðanum af álverinu á Reyðarfirði. Tilviljun? ..

Núna ætti austfirðingurinn Gunnar að koma sterkur inn og reyna að hrekja þetta eins og alltaf þegar sannleikurinn um þessa bófa birtist..Koma svo, Gunnar !!

Már Elíson, 8.2.2016 kl. 13:55

2 identicon

Sé ekki betur en að Ómar yrði bísna góður lögfræðingur. Honum þykir ekki mikið mál að ljúga fyrir málstaðinn.

Hilmar (IP-tala skráð) 8.2.2016 kl. 14:43

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Byrjaður með "lyga og rangfærslu"-sönginn, Hilmar. Ekkert tiltekið hvað sé lygi, svo að það er sennilega allur pistillinn eða hvað?

Ómar Ragnarsson, 8.2.2016 kl. 17:47

5 identicon

Eðlilega þarftu að spyrja Ómar, það er ekki hægt að ætlast til að þú haldir utan um ósannindin.

En í þessum pistli er það órökstudd ásökun um stórfelld skattsvik álfyrirtækis.

Reyndar líka þetta um atvinnumöguleika lögfræðinga og viðskiptafræðinga eftir hrun., en við getum náttúrulega ekki farið að elta öll þín ósannindi. Menn gerðu fátt annað á meðan.

Hilmar (IP-tala skráð) 8.2.2016 kl. 18:16

6 identicon

Ómar er bara að tala um það sem allir vita, en Hilmar er sennilega löggfræðingur.

freemason (IP-tala skráð) 8.2.2016 kl. 19:14

7 Smámynd: Már Elíson

.."En í þessum pistli er það órökstudd ásökun um stórfelld skattsvik álfyrirtækis.."

Hvernig veistu, "Hilmar"..?...Komdu þá með þína rökfærslu á "ekki skattsvikum" svo allt falli í ljúfa löð og sannleikurinn komi í ljós.

Már Elíson, 8.2.2016 kl. 20:01

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er margsannað að ef allt væri með felldu ætti Alcoa að borga milljarða í tekjuskatt af álverinu í Reyðarfirði. Fyrrum ríkisskattstjóri hefur farið yfir þetta og einnig var vönduð umfjöllun um þetta í Kastljósi.

Ég segi hvergi að um "skattsvik" sé að ræða heldur einungis að fyrirtækið komi þessum fjármunum úr landi með siðlausri bókhaldsfléttu, sem felst í því að annað dótturfyrirtæki félagsins lánar Fjarðaráli nógu mikla peninga til þess að vaxtargreiðslurnar af því láni verði nógu háar til þess að hægt sé að draga svipaða upphæð frá skatti og nemur tekjunum af álverinu í Reyðarfirði.

Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri greindi ítarlega frá þessu á fundi nýlega og jafnframt því að í nágrannalöndum okkar sé verið að reyna að stöðva þetta með því að setja þak á heimild fyrirtækja til að draga vaxtakostnað frá tekjum.

Í samingunum um álverið í Reyðarfirði var hins vegar sett sérstakt ákvæði um það að ekki mætti nýta slíkt varðandi Fjarðarál.

Sem sagt: Hendur næstu kynslóðar bundnar í þessu efni og tekið fram fyrir hendurnar á Alþingi næstu áratugina.

Löglegt en siðlaust sagði Vilmundur einu sinni.

Ómar Ragnarsson, 8.2.2016 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband