22.2.2016 | 21:35
Dauðagildrur. Af hverju ekki nothæf skilti á Íslandi?
Einbreiðar brýr eru ekkert séríslenskt fyrirbæri. Slíkar brýr er að finna í mörgum löndum og öllum heimsálfum. Í hinum ríka Noregi voru meira að segja einbreiðar brýr á þjóðleiðinni milli Osló og Björgvinar, stærstu borga Noregs fyrir aðeins áratug.
Eftir akstur um endilangan Noreg, Svíþjóð, Finnland og á þjóðvegum í norðvestanverðu Rússlandi, sést vel að íslenskir þjóðvegir eiga sér samsvörun víða. Og í fyrstu slíkri ferð okkar Helgu, í hópi norrænna bílablaðamanna árið 1978 á nýjum Volvobílum frá Rovaniemi í Finnlandi um Kolaskaga til Murmansk, sáum við víða skilti við einbreiðar brýr, sem sjá má í yfirlitum yfir viðurkennd vegaskilti í Evrópu.
Efri myndin hér á síðunni er tekin upp úr íslenskri minnisbók 2016 og þar sést vinstra megin í miðröðinni á myndinni, svona skilti, kringlótt með tveimur örvum. .
Ég tók af einu svona skilta á Kolaskaga meðfylgjandi svarthvíta mynd, sem ég hef litað eftirá með rauðleitum lit þar sem það er rautt. Bíll kemur á móti á malarvegi, og í baksýn er einbreið brú.
Á skiltinu eru tvær örvar, önnur svört en hin rauð. Svarta örin vinstra megin táknar bílinn, sem kemur á móti, en rauða örin, sem vísar upp hægra megin, táknar bílinn sem við erum í.
Hún táknar, að ef við mætum bíl á brúnni framundan, hefur umferðin á móti forgang, þannig að verði árekstur, er hann okkur að kenna. Í íslensku minnisbókinni stendur: "Skylt að veita umferð, sem kemur á móti, forgang".
Í Íslandi eru hins vegar ekki svona skilti, sem ég minnist að hafa séð, heldur á sá bíll forgang sem fyrr kemur inn á brúna og það hefur valdið mörgum árekstrum, örkumlum og jafnvel mannskæðum slysum, til dæmis þegar báðir bílstjórarnir hafa farið í nokkurs konar kappakstur til þess að verða á undan hinum inn á brúna.
Á vegi með 90 kílómetra hámarkshraða, þar sem tveir bílar mætast, minnkar bilið á milli þeirra með hraða, sem samsvarar því að annar sé kyrrstæður en hinn á 180 kílómetra hraða.
Ég hef komið að árekstri á einbreiðri brú þar sem annar ökumaðurinn hélt að hann yrði örugglega á undan inn á brúna en hinn var á aflmiklum Benz og jók ferðina svo mikið að hann komst inn á brúna en henti hinum bílnum í stórárekstri til baka út af brúnni!
Bílstjórinn á Benzinum taldi samt að hann hefði átt "réttinn", átt forgang, af því að þegar bílarnir stöðvuðust stöðvaðist hans bíll langt inni á brúnni og hinn virtist ekki hafa komist inn á hana.
Bílstjórinn á bílnum, sem hent var afturábak í hinum harða árekstri, sagði hins vegar, að fyrir hann hefði verið ómögulegt að sjá fyrir hinar breyttu aðstæður sem breyttu stöðu hans úr því að verða á undan inn á brúna í það að báðir bílarnir kæmust inn á brúna.
Bílstjórinn á Benzanum hélt að það sæist vel að hann hefði verið á undan af því að hinn bíllinn var handan við brúna þegar bílarnir stöðvuðust. Hann gætti hins vegar ekki að því að glerbrotin úr bílunum báðum voru á þeim enda brúarinnar sem hann kom inn á og sýndu hvar bílarnir skullu saman.
Þegar merki blasa fyrirfram við báðum bílstjórum, þar sem sýnt er hvor á forgang og framundan er þrenging vegar, er hins vegar enginn vafi: Sá sem ekur inn á brúna og er táknaður á skiltinu með rauðri ör, ber ábyrgðina ef árekstur verður.
Ég spurði Rússana hvernig þetta hefði reynst og þeir töldu þetta hafa reynst mjög vel og voru hissa á að svona merki væru ekki notuð á Íslandi.
Þegar ég sagði frá þessu hér heima og sýndi myndina af merkinu í Rússlandi létu menn sér fátt um finnast og maður fékk nokkuð fyrirséð viðbrögð: "Við höfum ekkert með einhver rússnesk merki að gera, heldur höfum þetta í samræmi við "séríslenskar aðstæður".
Eftir tvö ár verða 40 ár síðan ég bar þetta mál upp og mér vitanlega hefur ekkert gerst.
Eina skiltið af þessu tagi sem ég hef séð er við mjóa innkeyrslu niður á bílaplan hjá Heklu við Laugaveg.
Ekki er mér kunnugt um hvort einhverjir hafa á þessum 38 árum kynnt sér notkun þessara skilta erlendis.
Útlendingar geta engan veginn vitað hvað íslensku skiltin um einbreiðu brýrnar þýða. Þeir skilja ekki orðin "einbreið brú", og í yfirlitinu í minnisbók minni um umferðarmerki eru þessi íslensku merki ekki sýnd, enda finnast þau hvergi erlendis nema í Bretlandi, og þegar gúglað er um þau finnast þau sem jólaskraut!
Með öðrum orðum: Í núverandi ástandi merkinga við einbreiðar brýr á Íslandi eru tifandi tímasprengjur fyrir útlendinga.
Ekki þarf annað en að setja upp viðurkennd og skiljanleg alþjóðleg skilti um að þrenging sé framundan á veginum þar sem bílar nálgast einbreiðar brýr, lækka leyfilegan hraða ofan í 70 km/klst í tæka tið og hugsanlega setja líka upp forgangsskilti til þess að gerbreyta aðstæðunum, sem hafa þegar kostað tvo harða árekstra með stuttu millibili, örkuml og banaslys.
Tæki kannski 2-3 vikur að gera það.
Það eina sem virðist hafa gerst varðandi banaslys eystra er að annar bílstjórinn, sem lenti í öðru slysinu, útlendingur, var settur í gæsluvarðhald og er enn í farbanni, maður sem kom að stað, þar sem nauðsynleg, alþjóðlega viðurkennd og skýr skilti vantaði.
Fyrir 38 árum var sagt að skilti sem útlendingar notuðu og skildu hvaða merkingu hefðu við einbreiðar brýr ættu ekki við á Íslandi.
Á þessu ári munu fimm sinnum fleiri útlendingar koma til Íslands en nemur fjölda okkar sjáfra. Ef þeir aka hringveginn bíða þeirra 40 einbreiðar brýr sem eru dauðagildrur fyrir þá.
Sömu svörin heyrast nú og 1978 um gagnsleysi fyrrnefndra skilta, þrengingarskiltis og forgangsskiltis sem útlendingar þekkja og mega eiga von á við einbreiðar brýr í öðrum löndum, - að þau eigi ekki við hér á landi.
Hefur gagn og gildi þessara skilta í öðrum löndum verið kannað af íslenskum yfirvöldum?
Og jafnvel þótt hér væru engir útlendingar, af hverju eiga þau ekki við eins og á Kolaskaga 1978, þegar þar voru nánast engir útlendingar á ferð? Af hverju hefur gagnsemi þeirra í svo einsleitri umferð ekki verið könnuð?
Það kæmi mér ekki á óvart að það hafi ekki verið gert, - ekki frekar en fyrir tæpum fjórum áratugum.
Kostar 13,2 milljarða að útrýma einbreiðum brúm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Síðastliðinn miðvikudag:
"Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að umræðan um fjármögnun innviða ferðaþjónustunnar sé á villigötum.
"Hvernig stendur á því að stjórnmálamenn velti fyrir sér af hverju þurfi að eyða fjármunum í ferðaþjónustuna?," spurði hún á fundi sem Íslandsstofa boðaði til í morgun um samstarf og markaðssetningu erlendis á árinu 2016.
Helga sagði að stjórnmálamönnum ætti að vera ljóst að um góða fjárfestingu sé að ræða sem muni skila sér margfalt til baka.
Hún nefndi að innan 15 ára geti gjaldeyristekjur Íslands í ferðaþjónustunni numið svipaðri tölu og heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar eru í dag.
Einnig sagði Helga að áætlað sé að gjaldeyristekjurnar í ferðaþjónustunni hafi aukist um 100 milljarða króna frá árinu 2013 til 2015.
"Stundum finnst mér eins og stjórnmálamenn séu ekki tilbúnir til að samþykkja þennan nýja veruleika," sagði hún.
"Það þarf að byggja upp innviði fyrir þessa atvinnugrein eins og aðrar.
Uppbyggingin nýtist okkur öllum vel.""
Umræðan um fjármögnun innviða ferðaþjónustunnar er á villigötum - Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Þorsteinn Briem, 22.2.2016 kl. 22:17
Klassa umfjöllun Ómar. Algjörlega rétt niðurstaða. Af hverju í dauðanum erum við ekki búin að leysa þetta mál. Við vitum hvað er að, vitum hvernig á að merkja þetta, vitum hvað bílarnir þola, en samt látum við þetta viðgangast.
Vandamál einbreiðra brúa á Íslandi má leysa á tveim vikum með betri, vitrænum og viðurkenndum merkingum. Jafnframt þarf að taka hraðann niður þegar ökumenn eru settir í þá aðstöðu að aka hvor á móti öðrum, þannig að bílarnir þoli höggið ef eitthvað bregður útaf. Sá hraði er 70 km/klst.
Einfalt mál, en vantar ákvörðun og þor í samfélaginu og pólitíkinni til að gera þetta.
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 22:56
Það er svona skilti á Réttarholtsveginum ef ég man rétt og umferð í suður á forgang.
Ólafur Bjarni Bjarnasono (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 22:57
Ég hef hvergi séð þessi örvaskilti hér á landi nema á nokkirum stöðum innanbæjar í Reykjavík og þar sýna þau hvor á réttinn þegar komið er að þrengingu í umferðargötu. Þetta er á nokkrum stöðum í borginni eins og Ólafur Bjarni bendir á hér á undan og fer ég oft um þessa þrengingu á Réttarholtsvegi rétt sunnan við gatnamótin þegar ekið er til suðurs frá Sogavegi. Ég hef oft velt fyrir mér af hverju þessi skilti eru ekki notuð við einbreiðar býr á landsbyggðinni í staðinn fyrir skiltið "Einbreið brú" eða jafnvel að hafa bara bæði þessi skilti við einbreiðar brýr.
Sigvaldi Friðgeirsson (IP-tala skráð) 22.2.2016 kl. 23:58
Á síðasta klukkutímanum hef ég verið að fínpússa þennan pistil aðeins, fara betur yfir atriðin og gera þetta ögn skýrara.
Ómar Ragnarsson, 23.2.2016 kl. 00:24
Víðast úti í Evrópu þar sem er bara pláss fyrir 1 bíl eru þessi skilti og aðferð reglan.
Einar Steinsson, 23.2.2016 kl. 09:07
Hér í Þýskalandi þar sem ég bý núna er þetta reglan, að nota svona örvar. Mikið öryggi þar sem þetta getur ekki valdið misskilningi. Þyrfti að taka strax upp á Íslandi. Takk Ómar.
Sigurður Rúnar Jónsson (IP-tala skráð) 23.2.2016 kl. 09:34
Það er ótrúlegt að þessar merkingar skuli ekki vera meira notaðar á íslenskum vegum. Er ekki slík skilti í Ólafsfjarðagöngunum þegar þú ekur norðureftir.
Varðandi kosnaðinn við að fækka þessum einbreiðu brúm þá eru líklega innan við 6 lengstu brýnnar á þjóðvegi 1 sem eru helmingur kosnaðar á brúarsmíði.
Af hverju er ekki gert átak í að fækka þeim brúm sem ræsi leysa af hólmi. Það eru þær brýr sem eru hættulegastar.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 23.2.2016 kl. 11:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.