Tímamótaverkfall?

Í 45 ár hefur ekkert gerst í samskiptum á vinnumarkaðnum sem er hliðstætt því sem nú er að gerast í kjaradeilunni í Straumsvík.

Aldrei fyrr hefur það gerst í samskiptum erlendra stóriðjufyrirtækja og íslenskrar verkalýðshreyfingar að frá erlendum höfuðstöðvum eins þeirra hafi komið fyrirskipun, sem gilda á í fyrirtækjum þess alls staðar í heiminum um að laun megi ekki hækka í þessum fyrirtækjum.

Þar með er vinnudeilan í Straumsvík orðin hluti af launapólitík fyrirtækisins hvarvetna og það, sem gerist í henni, mögulega fordæmisgefandi fyrir verksmiðjur þess víða um lönd.

Í 45 ár hefur það smám saman orðið óhugsandi í hugum Íslendinga að verkfallsaðgerðir valdi stöðvun í söluferli afurða álfyrirtækis eins og nú stefnir í í Straumsvík.

Á sama tíma og þetta er að gerast er ekki hægt að ná í forstjóra Rio Tinto af því að hann er í fríi í skíðaferð.

Í ljósi þess að krafan um launafrystingu var algild hjá fyrirtækinu og sömuleiðis krafan um aukna starfsemi verktaka, vakna áhugaverðar spurningar.

Er fjarvera forstjórans merki um það að lítið sé að marka yfirlýsingarnar um að stjórn fyrirtækisins hafi alvarlegar áhyggjur af deilunni og stöðu þess?

Eða er fjarveran merki um að eigendur fyrirtækisins séu tilbúnir að loka álverinu í kjölfar þess að öllum starfsmönnum verði sagt upp, en frá talsmanni álversins hefur komið fram sá möguleiki "að taka alla starfsmenn út af launaskrá", sem verkalýðsforystan íslenska telur ólöglega framkvæmd á verkbanni.

Eða er fjarveran tákn um magnað kæruleysi hjá yfirstjórn Rio Tinto eftir að í 45 ár hefur aldrei kastast svo mjög í kekki í samskiptum álvera og starfsmanna þess og nú hefur gerst?

Yfirlýsing forstjóra Landsvirkjunar í dag um að ekki sé hægt að anna eftirspurn eftir íslenskri raforku kemur einmitt á þeim tíma sem báðir deiluaðilar í Straumsvík eru að meta vígstöðu sína.

Það má túlka sem svo, að verði álverinu lokað, verði ekki vandræði við að finna kaupendur að orkunni.

Álverið í Straumsvík hefur alla tíð verið eitt af þessum stórfyrirtækjum, sem á íslenskan mælikvarða hefur verið talið of stórt til að það megi gerast að því verði lokað.

Sömuleiðis hefur það verið trú Íslendinga að ekki sé hægt að hugsa sér traustverðugri viðskiptavin og kaupanda íslensks vinnuafls en álver.

Í 45 ár hefur verið hægt að treysta því vegna eðlis starfseminnar að verkföll muni aldrei lama starfsemi þess eða verða til þess að menn missi vinnuna og góð launakjör.

Aðgerðir eigenda álversins til að auka framleiðni og bæta afkomuna undanfarin ár hafa að þeirra sögn ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt og álverð sé þar að auki of lágt til að reksturinn beri sig.

Þess er því krafist að launþegar við álverið taki á sig sinn hluta af þeim taprekstri sem nú ríkir.

Það skapar nýtt sjónarhorn, því að hingað til hefur þjóðin öll tekið á sig verðfall á áli með því að hafa ákvæði í orkusölusamningum þess efnis að verð á orkunni fylgi álverði.

Við upphaf verkfalls við Straumsvíkurhöfn í nótt verða tímamót, hvort sem þau tímamót verða stór eða minni, því að nú þegar er komin upp ný og tvísýnd staða þar sem öryggi 45 ára samfellds stöðugleika ríkir ekki lengur.  

  


mbl.is „Rio Tinto þarf að hugsa sinn gang“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það styttist óðum í raforkusæstreng til ESB

þá losnum við endanlega við alla þessa stóriðju

og getum loks selt Landsvirkjun

Grímur (IP-tala skráð) 23.2.2016 kl. 23:11

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hélt að Framsóknarflokkurinn vildi endilega að Bretland segði sig úr Evrópusambandinu, Grímur framsóknarmaður.

Það þarf engan raforkustreng héðan frá Íslandi til Bretlands til að átrúnaðargoð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, erlend stórfyrirtæki sem eingöngu hugsa um sinn eigin hag, loki álverum sínum hér á Íslandi.

Þorsteinn Briem, 24.2.2016 kl. 00:00

3 identicon

Ætlaði bara að skrifa smá en svo sér maður svona skrif eins og hjá Grími sem eru ÓÞOLANDI að mínu mati. Engan sæstreng takk fyrir, ef ég má einhverju ráða. En til þess sem í upphafi var stefnt til. Þótt það væri hræðilegt fyrir það fólk og fjölskyldur sem eiga vinnu sína undir álverinu í Straumsvík, Hafnarfjörð og samfélagið allt hér á Íslandi ef þeir myndu loka þarna þá megum við íslendingar aldrei gefa eftir fyirir þessum auðhringjum. Komi þeir sem koma vilja "með okkar forsendum" en fari þeir sem fara vilja.

Og hana nú.

Látum EKKI kúa okkur.

Björn J. Guðjohnsen (IP-tala skráð) 24.2.2016 kl. 01:57

4 identicon

Sæll.

Ansi tala nú margir barnalega hér. 

Áliðnaðurinn í heiminum er í miklum vandræðum vegna verðlækkunar á áli. Til þess að fyrirtæki geti hækkað laun þurfa að vera rekstrarlegar forsendur til þess. Þær eru einfaldlega ekki til staðar. Búið var að bjóða vel og ef mönnum líst ekki nógu vel á það má auðvitað vaða áfram í blindni eins og sumir eru að gera en það hefur auðvitað afleiðingar. 

Það kæmi mér ekki á óvart að Alcan lokaði einfaldlega Straumsvík. Þá missa auðvitað starfsmenn þar vinnu og LV verður fyrir tekjumissi. LV mun sjálfsagt fljótlega finna kaupendur og fyrrnefndir starfsmenn vonandi fljótlega fá aðra vinnu en þetta millibilsástand mun kosta peninga. Stóra spurningin er svo Hafnarfjarðarbær. Af hve miklum tekjum verður hann ef álverið lokar varanlega? Þolir bærinn það fjárhagslega? Þjóðarbúið verður líka tímabundið fyrir tekjumissi. Hvers vegna nefnir enginn þessi augljósu atriði? Geta menn ekki nálgast þetta mál málefnalega vegna andúðar sinnar á erlendu fyrirtæki?

Manni sýnist að sumir hér séu ekki búnir að hugsa þetta mál í gegn. Hvers vegna?

Sumir eru alfarið á móti stóriðju og vilja eitthvað annað eins og t.d. túrisma. Miklu skiptir fyrir efnahagslega velferð þjóðarinnar að hafa atvinnulífið eins fjölbreytt og hægt er. Botninn mun detta úr túrismanum innan nokkurra ára. Þá er gott að hafa aðra fjölbreytta og öfluga atvinnustarfsemi líka. Áliðnaðurinn hefur fært þjóðinni miklar og góðar tekjur og skapað vel launuð störf. Hvers vegna líta menn framhjá því?

Sæstrengurinn er og var ekkert annað en skýjaborg af ýmsum ástæðum enda heyrist nú æ sjaldnar talað um hann.

Helgi (IP-tala skráð) 24.2.2016 kl. 05:58

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eins og flestir aðrir vesalingar ertu hér nafnleysingi, "Helgi."

Það eru engin rök í máli að segja eitthvað út í loftið eins og til að mynda þetta:

"Botninn mun detta úr túrismanum innan nokkurra ára."

Við höfum öll séð þessa fullyrðingu frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum árum saman.

Einnig að heimsmarkaðsverð á áli muni hækka bráðlega.

Einmitt þveröfugt hefur gerst og ekkert að marka þessar fullyrðingar.

Þegar menn rökræða mál eiga þeir að beita rökum en ekki "ég held og mér finnst" og krefjast þess svo að aðrir beiti rökum í málinu.

Menn eiga sem sagt ekki að krefjast hærri launa vegna þess að einhverjir aðrir geti tapað á því, til að mynda ríkið.

Flestir Íslendingar hafa fengið miklar launahækkanir undanfarið vegna þess að þeir hafa farið í verkföll eða hótað því að fara í verkfall.

Vilji fyrirtæki hér á Íslandi ekki hækka laun eins og önnur fyrirtæki í landinu verður því einfaldlega lokað og starfsmennirnir fá sér vinnu í öðrum fyrirtækjum sem geta hækkað laun vegna þess að þau eru ekki rekin með tapi.

Starfsmennirnir eru ekki þrælar erlendra stórfyrirtækja eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vilja greinilega að þeir verði.

Og álverið í Hafnarfirði er ekki rekið með tapi vegna launa starfsmannanna.

Þorsteinn Briem, 24.2.2016 kl. 07:58

6 identicon

Það eru undarleg rök að álverið fái ekki að ráða verktaka vegna þess að verkalýðsfélagið telur sig ófært um að verja kjör þeirra starfsmanna. Fyrirtækið þarf að gjalda fyrir dugleysi verkalýðsfélagsins. Í eðlilegu umhverfi væri fyrirtækinu frjálst að haga sínum rekstri eins og hagstæðast væri og verkalýðsfélagið sæi um að að kjör starfsmanna væru eftir kjarasamningum.

Hábeinn (IP-tala skráð) 24.2.2016 kl. 10:28

7 identicon

Í framhaldi af því sem Ómar ritar hér að ofan, þá er kannski ástæða til að velta því fyrir sér hvort forsvarsmenn Rio Tinto séu þegar farnir að haga sér og taka ákvarðanir eins og fyrirhugaðir samningar um TISA og TTIP eða hvað þeir nú heita séu þegar búnir að taka gildi. Þeir innibera m.a. að alþjóðlegir auðhringir fari með yfirþjóðlegt vald og þjóðþing og aðrar stofnanir einstakra ríkja hafi ekkert með það að gera hvert framferði þeirra er og hvað reglur einstakra smáríkja þeir brjóta að viðlögðu því að bandarískir dómstólar í þeirra "eigu" fari í raun með lögsöguna.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 24.2.2016 kl. 10:51

8 identicon

Ráða verktaka sem eru meira eða minna á hliðarlínunni varðandi kjarasamninga

Pú, pú..........

Og eyðileggja íslensk launakjör

Samnber þessa anskota sem undirborga pólverja hér og að ég tali nú ekki um dæmið sem kom í ljós í síðustu viku í Vík.

Björn J. Guðjohnsen (IP-tala skráð) 24.2.2016 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband