26.2.2016 | 11:44
Höldum við enn að við séum ein í þessu landi?
Það er ekki langt síðan að við Íslendingar vorum að mestu ein í landinu og útlendingar það fáir að við töldum okkur geta látið okkur það í léttu rúmi liggja.
Þegar ég sýndi í sjónvarpi myndir af stuðlaberginu við Reynisfjöru vissi fólk almennt ekki um þennan stað, en nú er hann orðinn að einu helsta aðdráttarafli á ferðamannaslóðum á Suðurlandi.
Við gerum ráð fyrir því að útlendingar viti að sjórinn hér sé ekki yfir 20 stiga heitur heldur niður undir frostmarki.
Við gerum ráð fyrir því að útlendingar geti á löngu færi lesið orðin "einbreið brú" þegar þeir nálgast slíka brú og vitað líka hvað orðin "einbreið brú" þýðir.
Allt frá árinu 1978 hef ég sýnt alþjóðleg umferðarmerki sem útlendingar þekkja og er meira að segja í minnibókum okkar og gefur ljóslega til kynna að framundan sé þrenging vegar, þannig að nauðsynlegt sé að gera glögglega til kynna hvor bíllinn sem kemur að brúnni eigi að hafa forgang.
En yfirvöld hafa látið eins og hér ríki einhverjar "séríslenskar aðstæður" sem réttlæti það að þetta öryggisatriði, merkingar og stjórnun á þennan hátt, eigi ekki við og sjáist hvergi nema við innakstur í Múlagöngin.
Og í krafti þessa eru allar einbreiðu brýrnar vitlaust merktar og dauðagildrur eins og nýleg dæmi sanna.
Útlendingur, sem lenti í því síðasta, var settur í fangelsi og er enn í farbanni, rétt eins og það geti verið úrbót í málinu.
Að sönnu verða ævinlega til bæði Íslendingar og útlendingar sem sýna kæruleysi og gjalda fyrir það.
En það réttlætir ekki að við látum eins og að við séum ein í landinu og tímum ekki að verja örlitlu broti af hundraða milljarða króna tekjum af ferðamönnum til að sporna gegn óþarfa slysum.
Sex í mikilli hættu í Reynisfjöru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
17.2.2016:
"Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að umræðan um fjármögnun innviða ferðaþjónustunnar sé á villigötum.
"Hvernig stendur á því að stjórnmálamenn velti fyrir sér af hverju þurfi að eyða fjármunum í ferðaþjónustuna?," spurði hún á fundi sem Íslandsstofa boðaði til í morgun um samstarf og markaðssetningu erlendis á árinu 2016.
Helga sagði að stjórnmálamönnum ætti að vera ljóst að um góða fjárfestingu sé að ræða sem muni skila sér margfalt til baka.
Hún nefndi að innan 15 ára geti gjaldeyristekjur Íslands í ferðaþjónustunni numið svipaðri tölu og heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar eru í dag.
Einnig sagði Helga að áætlað sé að gjaldeyristekjurnar í ferðaþjónustunni hafi aukist um 100 milljarða króna frá árinu 2013 til 2015.
"Stundum finnst mér eins og stjórnmálamenn séu ekki tilbúnir til að samþykkja þennan nýja veruleika," sagði hún.
"Það þarf að byggja upp innviði fyrir þessa atvinnugrein eins og aðrar.
Uppbyggingin nýtist okkur öllum vel.""
Umræðan um fjármögnun innviða ferðaþjónustunnar er á villigötum - Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Þorsteinn Briem, 26.2.2016 kl. 11:49
Er slæm hugmynd að selja inn þarna?
Hafa 2 gjöld.
Þeir sem borga lægri upphæðina (sem gæti verið mjög lágt málamyndagjald) fá að fara að kaðli í öruggri fjarlægð frá sjónum.
Svo mætti borga hærra verð sem innheldur öryggislínu fyrir þá sem vilja ganga lengra. Það mætti jafnvel markaðssetja þetta eins og teygjustökk og hafa öryggismál eftir því.
Edda Björk Ármannsdóttir (IP-tala skráð) 26.2.2016 kl. 17:01
Athyglisverð frétt á visi.is, viðtal við leiðsögumann sem var í fjörunni.
Ég er sammála greiningu hans á stöðu ferðamannamála.
Hann segir, í stuttu máli, að áður fyrr og þar til fyrir nokkrum árum hafi verið allt öðruvísi ferðamenn að meginstofni. Núna sé um að ræða massatúrisma þar sem meginstofn ferðamanna hefur miklu minni þekkingu á aðstæðum en áður. Það viti sumir nánast ekki neitt hvað þeir komnir útí.
,,Ég var að reka alla upp ofar í fjöruna hægra megin og þá voru allt í einu allir komnir vinstra megin,“ segir Hermann. „Þetta er eins og að fara til fjalla að smala og vera einn.“
Hermann telur að aðilar sem koma að stýringu ferðamála hér á landi séu búnir að missa tökin á ferðamannafjöldanum. Þau geri sér ekki grein fyrir því hvað sé að gerast með ferðamennina og bendir á Íslandsstofu og Ferðamálaráð sem dæmi.
,,Við erum komin inn í algjört brjálæði,“ segir Hermann og telur ekkert duga nema gæslu á svæðinu."
http://www.visir.is/leidsogumadur-i-reynisfjoru--madur-faer-bara-skammir-/article/2016160229045
Ómar Bjarki Kristjánsson, 26.2.2016 kl. 17:20
Í fyrirsögn fréttarinnar segir að kynlíf sé þarna í mikilli hættu:
Sex í mikilli hættu í Reynisfjöru
Að sjálfsögðu þarf að vera gæsla í Reynisfjöru og benda þar einnig ferðamönnum, jafnt íslenskum sem erlendum, á það með mörgum skiltum á að minnsta kosti eitt hundrað tungumálum í hverju hættan felst.
Til eru alls kyns gæslumenn, í sveitum eru til að mynda forðagæslumenn sem hafa eftirlit með heybirgðum og Pamela Anderson var strandvörður, sællar minningar:
Þorsteinn Briem, 26.2.2016 kl. 18:16
Yfirleitt er ekki hægt að banna útlendingum að dvelja hér á Íslandi eða Íslendingum að veita þeim hér þjónustu samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, meðal annars um frjálsa för fólks og frjáls þjónustuviðskipti á svæðinu.
Og Kínverjar sem komnir eru inn á Evrópska efnahagssvæðið, til dæmis til Noregs, geta að sjálfsögðu flogið þaðan hingað til Íslands.
Hins vegar er hægt að meina glæpamönnum sem búa á Evrópska efnahagssvæðinu landgöngu hérlendis.
Þorsteinn Briem, 26.2.2016 kl. 18:27
Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi og er þar í 235. sæti.
Röð landa eftir þéttleika byggðar
Hér á Íslandi dvöldu um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna í fyrra, 2015.
Hver erlendur ferðamaður dvelur hér á Íslandi í eina viku og því voru hér að meðaltali í fyrra um 25 þúsund erlendir ferðamenn á degi hverjum allt árið á öllu landinu.
Um níu af hverjum tíu Íslendingum ferðast hér innanlands á ári hverju og gista að meðaltali tvær vikur á þessum ferðalögum.
Að meðaltali eru því um ellefu þúsund Íslendingar á ferðalögum hér innanlands á degi hverjum, einungis um tvisvar sinnum færri en erlendir ferðamenn.
Þorsteinn Briem, 26.2.2016 kl. 18:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.