27.2.2016 | 17:55
Nægur tími fyrir mann sem þarf bara þriggja tíma svefn.
Svefninn er talinn nauðsynlegur fyrir hverja manneskju, helst ekki minni svefn en 7-9 stundir.
Þó er þetta persónubundið og sagt var að Margareth Thatcher hefði ekki þurft nema um fimm stundir og sömuleiðis Albert Guðmundsson hér heima.
Albert var kominn niður á Kaffivagninn á Grandagarði klukkan sex á morgnana, mörgum stundum áður en sumir aðrir Alþingismenn voru að hefja vinnu.
Á Kaffivagninum tók Albert púlsinn á lífinu í borginni og fór síðan upp í ráðuneyti á eftir á þeim árum sem hann var ráðherra.
Nýjar rannsóknir þykja hafa sýnt að enda þótt fólk komist upp með stuttan svefn, hafi það áhrif á skaplyndi þess og hegðun á daginn, og ekki til bóta.
Nú er búið að upplýsa fyrir vestan haf að Donald Trump hafi hér um árið sagt frá því að hann svæfi yfirleitt ekki nema í þrjár stundir á næturnar.
Ef fyrrnefnd lýsing á afleiðingum svo stutts svefns er rétt, útskýrir það flest atriðin í hegðun Trumps, sem hafa vakið svo mikla athygli undanfarnar vikur.
Og ekki þarf að undra þótt hann teldi sig hafa nægan tíma til að eyða nótt með Díönu heitinni Bretaprinsessu.
Þess má geta að 2008 gekk ég í gegnum tímabil mismunandi langs svefns. Vegna ofsakláða af völdum lifrarbrests gat ég ekkert sofið í þrjá mánuði, og ástandið var þannig að það stefndi í algert óefni , en það var ólýsanlegur munur þegar í fyrsta sinn kom þriggja stunda svefn.
Nokkrum dögum síðar kom nótt með 2x3 stundum og það var jafnmikill munur og þegar svefninn fór úr 0 upp í þrjár stundir.
Viku síðar kom síðan fullur svefn, alls 10 klukkustundir, og enn var um að ræða stórkostlegt framfaraspor.
Sagt er að Albert Einstein hafi þurft 14 stunda svefn, og skal engan undra það.
Ekki hikað við að sofa hjá Díönu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Do the greatest figures owe their success to sleeping less?
Þorsteinn Briem, 27.2.2016 kl. 19:52
Things your brain does while you sleep
Þorsteinn Briem, 27.2.2016 kl. 19:59
Einhvern tímann las ég það að Edison hefði sofið 4 klukkutíma á sólahring.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.2.2016 kl. 23:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.