2.3.2016 | 17:32
Miðhálendisnefnd einróma um iðnaðarsvæðið Gjástykki.
Árið 2000 kom Bob Zubrin, nýkominn úr viðtali í stórri umfjöllun Time um marsferðir, til Íslands og flaug yfir Kverkfjöll norður til Mývatns til að kynnast þeirri samsvörun við mars sem íslenska hálendið er.
Tveimur árum síðar valdi sérstök nefnd alþjóðasamtaka um marsferðir svæði í Gjástykki sem hentugt ævingasvæði fyrir marsfara, á svipuðum forsendum og framkvæmt var 1967 við Öskju fyrir komandi tunglfara.
Á myndinnihér við hliðina stendur ferðafólk á þeim stað þar sem nýtt Ísland kom upp haustið 1984 þegar gjá opnaðist við það að fleki ameríku, til vinstri, færðist frá fleka Evrópu, til hægri.
Myndin fyrir neðan er tekin norðar við sömu sprungu, þar sem hraunið, sem kom upp úr sprungunni sunnar, rann á einum stað ofan í hana aftur. Að þessu voru vitni og teknar af því myndir, og þessi staður á engan sinn líka í víðri veröld, heldur ekki á Íslandi.
En nefnd um skipulag miðhálendisins hefur samþykkt einróma að Gjástykki verðí iðnaðarsvæði í líkingu við svæðið sem Hellisheiðarvirkjun er á.
Askja hefur öðlast frægð og dregið að sér ferðamenn, sem vilja upplifa eitthvað svipað og tunglfarar.
Ég spurði Hamilton sl. föstudag hvort hann teldi líklegt að Gjástykki gæti notið svipaðrar frægðar vegna komandi marsfara, sem þær reyndu að upplifa mars innan um kerfi af gufuleiðslum, háspennulínum, vegum og tilheyrandi, þar á meðal stöðvarhúsi og skiljuhúsi.
Hann taldi það ólíklegt en nefndin um skipulag miðhálendisins var greinilega ósammála þvi, sem og meirihluti landeigenda Reykjahlíðar.
Ég fór með tveimur fulltrúum úr landeigendafélaginu fyrir nokkrum áru til þess að sýna þeim æfingasvæðið, sem nefnd alþjóðasamtakanna hafði valið fyrir marsfara, og breytti það engu um þá skoðun þessara ferðafélaga minna, að þarna skyldi rísa jarðhitaorkuver.
Ísland einstök hliðstæða Mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mikill fróðleiksmoli, einstök náttúra. Hvað þýðir hins vegar þetta, Ómar :
Að þessu voru vitni og teknar af því myndir, og þessi staður á engan sinn líka í víðri veröld, heldur ekki á Íslandi. - Ég næ þessu ekki alveg. Mér fannst eins og þú værir að tala um Ísland í pistlinum.
Már Elíson, 2.3.2016 kl. 18:50
Már!
Það er vegna þess að þessi staður á sér engan sinn líka í veröldinni. Þess vegna á hann sér heldur engan sinn líka á Íslandi vegna þess að Ísland er í veröldinni. Nema þú teljir að staðirnir séu tveir vegna þess að Gjástykki líkist sjálfu sér?
Gjástykki er sem sagt einstakt.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 2.3.2016 kl. 20:10
Já, ég skil....Það er einstakt..og líka á Íslandi ! - Einmitt.
Már Elíson, 2.3.2016 kl. 22:52
Ég nefni þetta vegna þess að á Reykjanesi er hin fræga "gjá á milli heimsálfanna".
Hún er full af sandi, enginn sá hana myndast, engar myndir voru teknar af því og hvergi sést að "hið nýja Ísland hafi komið þar upp.
Þingvellir taka Gjástykki heldur ekki fram. Vesturbrún Almannagjár er tákn um meginlandsfleka Ameríku, en Evrópuflekinn byrjar ekki fyrr en austur undir Heklu.
Á milli þeirra er "hlutlaus" fleki, stundum nefndur Hreppaflekinn.
Engin vitni voru að myndun Þingvalla og þaðan af síður teknar af því myndir.
Ómar Ragnarsson, 3.3.2016 kl. 00:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.