4.3.2016 | 09:19
Minnir á mál Davíðs Schevings hér um árið.
Meðan bannað var að selja áfengan bjór á Íslandi nutu flugliðar og farmenn undanþágu og máttu koma með ákveðið magn inn í landið í gegnum tollinn á Keflavíkurflugvelli eða tollskoðun í höfnum.
Davíð Scheving Thorsteinsson var ósáttur við þetta fyrirkomulag, keypti áfengan bjór í Fríðhöfninni 1979, ætlaði í gegnum tollinn með hann og lét reyna á það að tollverðir stöðvuðu hann og gerðu bjórinn upptækan.
Tiltækið vakti ekki síst athygli vegna orðtaksins um "hvað Davíð keypti ölið."
Á tímum vaxandi ferðamannastraums til landsins var orðið æ erfiðara að standa fyrir bjórbanninu, sem stakk verulega í stúf við það sem tíðkaðist í öðrum löndum, og Sighvatur Björgvinsson, sem þá var ráðherra, gaf út reglugerð sem afnam einkaleyfi flugliða og farmanna til að fara með ákveðinn skammt inn í landið, svo að almennigi var það heimilt.
Að lokum var bjórinn lögleyfður 1. mars 1989 með svipuðum rökum og notuð voru þegar almennu vínbanni var aflétt hálfri öld fyrr með þeim rökum að þessi bönn hefðu reynst óframkvæmanleg bæði hér á landi og erlendis.
Þetta nýja Fríhafnarmál er sérkennilegt og verður fróðlegt að fá að vita hvort það hafi verið vilji löggjafans að svipta Fríhöfnina leyfi til áfengissölu eða hvort um einhvers konar gleymsku hefur verið að ræða.
Svipað álitamál gæti það verið, hvort það hafi verið vilji löggjafans á sínum tíma að nema úr gildi skyldu, sem var í fyrstu bifreiðalögunum 1914 um það að í hverjum bíl væri búnaður til að hægt væri að knýja bílinn afturábak, eða hvort um gleymsku hafi verið að ræða.
Fríhafnarmálið kemur upp á sama tíma og áfengisfrumvarpið svonefnda, um sölu áfengis í matvöruverslunum, er fyrir Alþingi.
Hér er um ólíkar aðstæður að ræða. Fólk fer allt að því daglega í matvöruverslanir og það er niðurstaða rannsókna, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin og fleiri hafa gert, að því aðgengilegra og meira áberandi áfengi er, því meiri verður neysla þess.
Vitað er og viðurkennt þegar fólk fer í áfengismeðferð að það verður að leggja sig fram um það að halda sig frá þeim stöðum og aðstæðum, þar sem neysla eða áfengi er í gangi.
Sama gildir um alla þá sem eru veikir fyrir áfenginu.
Áfengi í matvöruverslunum er því heilbrigðismál sem snertir heilsu og líf of margra til þess að hægt sé að líta fram hjá því.
Um það gildir ein af setningunum úr fræðum frjálshyggjunnar, að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar.
Bannað að selja áfengi í Fríhöfninni? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta mál kemur upp á sama tíma og við eigum heimsmet í lyfjaáti og menn rembast við að þagga niður alþjóðlegt læknahneyksli sem okkur varðar beinlínis með því að sýna ekki myndir um málið á RÚV. Leiðinlegt þegar menn geta ekki skrúfað fyrir netið svo auðveldlega.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.3.2016 kl. 09:41
Margir eru veikir fyrir ýmsu sem þeim er ekki hollt. Rökin gegn sölu áfengis í almennum verslunum eiga einnig við um stóran hluta þeirra vara sem þar eru seldar. Bann við sölu áfengis í almennum verslunum er því eins og að banna Toyotur vegna þess að dauðsföll verða í umferðarslysum. Nóa konfekt vegna offitu og hjartasjúkdóma. Bannið er ekki rökrétt viðbragð við vandanum.
Frelsi þeirra sem litla sjálfstjórn hafa eða vilja vera án þessara vara er á engan hátt skert með því að leyfa þeim að kaupa og njóta sem vilja. Enginn er þvingaður til að kaupa vöru þó hún sé í hillum verslana. Ekki er frelsi nokkurs manns skert með því að heimila sölu í almennum verslunum. Og skortur á sjálfstjórn eins á ekki að skerða frelsi annars.
Hábeinn (IP-tala skráð) 4.3.2016 kl. 12:13
Ómar Ragnarsson hefur graðgað í sig Prins Póló og kók fyrir sextán milljónir króna á núvirði, miðað við 50 þúsund 39 gramma Prins Póló á 70 krónur stykkið og 50 þúsund kók fyrir 250 krónur flöskuna.
Þorsteinn Briem, 4.3.2016 kl. 12:38
Banna ætti það gríðarlega þjóðfélagslega mein sem sala á Prins Pólói og kóki er í matvöruverslunum hér á Íslandi, þar sem salan veldur miklu heilsutjóni fjölmargra Íslendinga, samfélagslegum kostnaði og sjúkrahússvist vegna offitu og sykursýki.
Margar fjölskyldur hafa komist á vonarvöl vegna þessarar fíkniefnaneyslu og mikilla fjárútláta.
Eins og dæmin sanna.
Þorsteinn Briem, 4.3.2016 kl. 12:39
Þetta mál kemur upp á sama tíma og það kemur upp úr dúrnum að lögreglan hafi verið í nánu samstarfi við fíkniefnasala árum saman. Kannski að lögreglan tengist jafnvel hvarfi Valgeirs Víðissonar? En endilega höldum í ÁTVR til að hafa þokkalega stjórn á hlutunum.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 4.3.2016 kl. 12:42
Hábeinn skilur ekki að við lifum í samfélagi. Áfengi er ekki venjuleg neysluvara. Þetta er svona svipaður málflutningur og samtök byssueigenda/framleiðenda í USA stendur fyrir. Útúrsnúningur og vitleysa þó að öll mótrök og staðreyndir liggi fyrir.
Daniel Þorsteins (IP-tala skráð) 4.3.2016 kl. 12:47
Ég hef gaman að því að fara stundum á veitingahús, borða þar góðan mat og drekka með honum einn eða tvo bjóra.
Sumir myndu hins vegar drekka frá sér allt vit ef þeir fengju sér einn sopa af áfengi, sama undir hvaða kringumstæðum það væri.
Áfengissýki er því erfðafræðilegt fyrirbæri, fíkn í ákveðin efni.
Áfengi var hins vegar til löngu áður en maðurinn varð til.
Ég hef aldrei haft nokkurn áhuga á svokölluðum eiturlyfjum og ekkert mál fyrir mig að hætta að reykja fyrir mörgum árum.
En það reynist mörgum mjög erfitt.
Ég gæti hins vegar vanið mig á að drekka áfengi um hverja helgi, eins og margir Íslendingar gera.
En það er heldur ekkert mál fyrir mig að sleppa því.
Þorsteinn Briem, 4.3.2016 kl. 13:09
"Við gerum ráð fyrir að spyrjandi eigi við áfenga drykki en sjálft áfengið í þeim, etanólið (C2H5OH), er náttúrulegt efni og ekki fundið upp af neinum."
Vísindavefurinn - Hver fann upp áfengið?
"Etanólið (CH3CH2OH) í áfengum drykkjum er næstum alltaf framleitt með gerjun, þ.e. efnaskiptum kolvetnis (yfirleitt sykur) af ákveðnum tegundum gers í fjarveru súrefnis."
Áfengir drykkir
Þorsteinn Briem, 4.3.2016 kl. 13:12
Hábeinn!... "þeirra vara sem þar eru seldar."
Varir til sölu?
Skuggi (IP-tala skráð) 4.3.2016 kl. 13:14
Er þetta ekki bara einhver fúll vínsali sem hefur ekki fengið vínin "sín" seld í Fríhöfninni?
Hvumpinn, 4.3.2016 kl. 15:01
Skuggi..."Vörur...til vara..." Allt rétt hjá Hábeini.
Már Elíson, 4.3.2016 kl. 16:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.