7.3.2016 | 09:11
Aðeins sumarhöfn, því miður.
Nú eru liðin sex ár frá gosinu í Eyjafjallajökli, en framburður aurs í upphafi þess goss niður eftir farvegi Markarfljóts var notaður sem útskýring og eins konar afsökun á sandburðinum inn í Landeyjahöfn.
Sömuleiðis hafa "óvenjulega miklir umhleypingar" verið algeng útskýring á lokun hafnarinnar á veturna, þegar hið rétta er, að erfið vetrartíð er lögmál á Íslandi, af því að landið liggur á útmánuðum á þeim stað á jörðinni þar sem að jafnaði dýpsta lægð jarðar á sunnanverðu Grænlandshafi liggur upp að næst hæstu hæð jarðar yfir Grænlandi, en þar með er lagður grunnur að einum vindasamasta stað jarðarinnar.
Um allt land eru grjótgarðar notaðir til að safna að sér sandi þar sem aðgerða er þörf vegna landbrots, og er það til dæmis lausn, sem nota þarf við Vík í Mýrdal.
Þess vegna var það ofur fyrirsjáanlegt að garðarnir út úr Landeyjahöfn myndu gera það sama og garðar við Vík og fyrirsjáanlegt að Landeyjahöfn yrði aðeins nothæf á sumrin.
Við það missa Vestmannaeyingar því miður algerlega af ferðamannastraumnum, sem nú leikur í vaxandi mæli um Ísland að vetrarlagi og ekkert við því að gera, ekki frekar en að breyta lögmálum veðurfars og sandburðar við suðurströndina.
Það breytir ekki því að úr því sem komið er verður að reyna að nýta þessa höfn eins og mögulegt er ef gæta á jafnræðis með landsmönnum varðandi samgöngur og samgöngumannvirki.
Dýpkun gengur hægt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er sorglegt Ómar og erfitt að vita af ferðamönnunum sem streyma hér eftir suðurlandsvegi án viðkomu í Landeyjahöfn og til Vestmannaeyja. Þetta er sorglegt fyrir þá frábæru ferðaþjónustuaðila sem með dugnaði hafa reist hér og byggt upp hótel og veitingastaði á heimsmælikvarða að sjá á eftir þessari gullgæs sem er að færa þjóðarbúinu milljarðatekjur.Það er allt hægt ef að viljinn er fyrir hendi og líka að gera Landeyjahöfn þannig úr garði að frátafir verði sem minnstar yfir árið.Þetta er allt spurning um peninga og miðað við verðið sem farþegar þurfa að borga í Herjólf ætti nú kannski eitthvað af þeim aurum að skila sér í bættum samgöngum á þjóðvegi 1 sem Herjólfur er fyrir eyjamenn.Eins og er er þetta sorgarsaga en ég er sannfærð um að hægt sé að breyta þessu í sólarsömbu. Takk fyrir þitt ágæta innlegg hér á blogginu alla tíð Ómar.
Ragna Birgisdóttir, 7.3.2016 kl. 09:51
24.7.2007:
"Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. hefur lokið mati á kostnaði við gerð jarðganga sem vegtengingu milli Vestmannaeyja og Landeyja.
Niðurstaða matsins er sú að tæknilega sé mögulegt að gera slík göng og kostnaðurinn yrði líklega 50-80 milljarðar króna."
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 09:54
Á núvirði eru 50-80 milljarðar króna í júlí 2007 79-126 milljarðar króna, svipað og áætlað er að hraðlest myndi kosta á milli Keflavíkurflugvallar og Umferðarmiðstöðvarinnar (BSÍ) í Reykjavík, með jarðgöngum undir Hafnarfjörð og alla leið til BSÍ.
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 10:14
Ekki gott fyrir vestmannaeyinga að missa ferðamennina. Gríðartækifæri fyrir eyjamenn í þeim bransa og það eru enn nægilega margir búsettir í eyjunum til að hægt sé að halda úti þokkalegum ferðamannabissnes. Útlendingar eru alveg æstir í stutta ferjuferð og sjá eyjarnar. Alveg sólgnir í það. En 2-3 tíma ferð í vondum sjó er alveg vonlaust uppá ferðamenn.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.3.2016 kl. 14:31
Rétt er það Ómar Bjarki. Stutt sigling á milli lands og eyja er þjóðhagslega hagkvæm og kemur öllum á þessu svæði vel,bæði eyjamönnum og sunnlendingum því að auknar samgöngur austur og vestur fyrir Selfoss er afskaplega mikil innspýting í það svæði hvað þá ef að samgöngur væru eðlilegar allt árið ekki bara 4 mánuði.Allt er mun léttara þegar að höfnin virkar.Herjólfur er alls ekki skemmtiferð þegar að förinni er heitið til Þorlákshafnar.Flest viljum við komast allra okkar leiðar án vanlíðunnar eða áfalla.Ferð um hávetur í t.d suðvestan ógeði eða öðru hvassviðri er skelfileg upplifun fyrir sjóveikt fólk.Draumur væri auðvitað að fá göng eins og Steini fjallar um hér að ofan. Það kostar ekkert að láta sig dreyma.
Ragna Birgisdóttir, 7.3.2016 kl. 15:29
Bíðið bara eftir vonbrigðunum með nýju ferjuna bara hönnunin er milljarður.(broskall)
GB (IP-tala skráð) 7.3.2016 kl. 15:46
Sandurinn á Suðurströndinni og einkenni hans í tengslum við haföldu og strauma er gjörþekkt - alveg frá landnámi . Sandurinn er á fleygiferð í sjávarborðinu .
Baráttu fiskimanna á áraskipunum um aldir er vel lýst í sagnaritinu mikla "Íslenskir sjávarhættir " eftir Lúðvík Kristjánsson.
Þegar fiskimenn settu á flot árla dags var það gert í lygnum sem mynduðust innan sandrifja og síðan fundin hlið til að komast út á sjó. Og að loknu fiskiríi var aldrei á vísan að róa með að finna hlið á sandeyrunum sem farið var frá að morgni - það gat munað kílómetrum sem sandrifin höfði færst til. Eðli sands,haföldu og strauma hefur ekkert breytst frá upphafi Íslandsbyggðar- það er allt við það sama. Og að láta sér detta í hug að byggja fastsetta höfn við þessar aðstæður- er bara út í bláinn.... Landeyjarhöfn verður aldrei höfn vegna sandsins,haföldunnar og strauma-sem fyrr. Best er nú að setja í gang smíði á afkastamikill ferju milli Eyja og Þorlákshafnar og styrkja flugið bæði með verð og tíðni. Annað er bæði tíma og stór fjármunaeyðsla -án árangurs. Bara bíta íð það súra epli.
Sævar Helgason, 7.3.2016 kl. 16:02
Það var einhver að segja, að höfnin hefði í raun aldrei verið kláruð.
Nýtt skip og fullkláruð höfn bæta kannski eitthvað en eftir þessa reynslu undanfarin ár efast maður náttúrulega um að það leysti allt.
Virðist eitthvert vanmat hafa verið í gangi.
Menn mis- eða vanreikna strauma og sand og jafnframt er líkt og menn hafi venmetið hve vont getur orðið í sjóinn þarna. Það er engu líkara.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 7.3.2016 kl. 16:25
Þetta eru allt saman ágætar umsagnir hér um grein Ómars. Einnig að menn telji það sjálfsagðan rétt íbúa að hafa boðlegar samgöngur þeim til handa og gestum sömuleiðis, íslenskum sem erlendum (svokölluðum túristum ef þeir eru erlendir). Annar er þó staður á Íslandi sem býr við hörmungar samgöngur, en það er sunnanverðir Vestfirðir. Á suma staði þar má til dæmis ekki fara á minnstu bílaleigubílunum og hlýtur það að bitna á ferðamannaflæði til Vestfjarða.
Vestfirðir eru úr einu elsta bergi á Íslandi og því ekki hægt að kenna um verkfræðilegum vanköntum vegna síkviks undirlags eða nokkurs slíks. Hins vegar hefur mannlegi þáttur svokallaðs yfirfólks í þessum málaflokki haft það að venju um áratuga skeið að fresta framkvæmdum þar. Allar ákvarðanir sem teknar hafa verið um framkvæmdir þar hafa reynst eins fastar í hendi eins og hinn síkviki sandur suðurstrandarinnar.
Gaman væri að sjá skilning á því að Vestfirðir væru partur af Íslandi, rétt eins og Vestmannaeyjar.
Arnar (IP-tala skráð) 8.3.2016 kl. 10:03
Svo sem rétt ábending.
Samgöngukerfi Íslands hefur alltaf verið í lamasessi.
Bara ef maður hugsar útí hve seint vegir komu á suma staði, - alveg með ólíkindum stutt síðan.
Vegalengdirnar á Vestfjörðum eru svo miklar að maður skilur það ekki nema sjá það eða reyna það.
Ísland hefur bara verið eftirá í þessu. Göng eru að koma hér allt of seint miðað við td. í Færeyjum.
Færeyingar voru ekkert að vandræðast með þetta. Þeir boruðu bara eiginlega göng til allra! Jafnvel þar sem enginn bjó. Og eru fyrir löngu búnir að því.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 8.3.2016 kl. 17:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.