7.3.2016 | 18:51
Frumkvæði Íslands ekki sjálfgefið.
Það var ekki sjálfgefið í baráttu Eystrasaltsríkjanna fyrir endurheimt sjálfstæðis síns 1990 að vestræn ríki viðurkenndu sjálfstæðisyfirlýsingar þeirra.
Leiðtogar NATO vildu stíga varlega til jarðar til að styggja ekki Michael Gorbatstjov, sem var um þessar mundir að feta Sovétríkin í gegnum lok Kalda stríðsins án þess að eiga á hættu að harðlínumenn í Moskvu vikju honum til hliðar.
En Gorbatsjov hafði ekki hugað að því, að þegar hann kom því til leiðar að griðasáttmáli Stalíns og Hitlers yrði lýstur ólögmætur, gaf það Eystrasaltsþjóðunum fótfestu til að krefjast þess að staða þeirra yrði færð aftur til daganna fyrir griðasáttmálann þegar þau voru öll sjálfstæð ríki, höfðu fengið sjálfstæði í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar á sama tíma og Íslendingar.
En Íslendingar áttu snjallan, hugsjónaríkan og hugrakkan utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem hafði bundist persónulegum vinaböndum við leiðtoga Eystrasaltsríkjanna, og hikaði ekki við að fara með engum fyrirvara til Lítháens þegar leiðtogi Litháa hafði samband við hann vegna yfirvofandi valdbeitingar Sovétmanna.
Jón Baldvin fór og sameinaðist sjálfstæðisbaráttufólkinu og beitti sér í framhaldinu fyrir því að Íslendingar viðurkenndu sjálfstæði Litháens, fyrstir þjóða.
Danir fylgdu fljótlega á eftir og og komið var skarð í kúgunarmúrinn sovéska, sem stækkaði hratt.
Og þrátt fyrir að Gorbatsjov sendi herlið til Litháens sem beitti grimmu valdi til að byrja með, var samstaða þjóðarinnar svo mikil, að Gorbi heyktist á að fara alla leið í valdbeitingunni, og í framhaldinu fengu þjóðirnar þrjár sjálfstæði.
Frumkvæði NATO-þjóðarinnar Íslendinga og Dana í kjölfarið í óþökk helstu ráðamanna NATO var ekki sjálfgefið.
Þess vegna er nafn Íslands og utanríkisráðherra okkar í hávegum haft í þessum löndum.
Takk fyrir Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rétt hjá þér, Ómar, stuðningur við sjálfstæði þeirra var ekki sjálfgefinn af hálfu margra stjórnmálamanna.
Meðal þeirra hérlendis, sem beittu sér eindregið gegn þessu, var ráðherrann Páll Pétursson, sjá hér: Barátta fyrir endurheimt sjálfstæðis Litháens, í III. lið þar (einnig á beinni, opinni vefslóð þeirrar Morgunblaðsgreinar minnar 7. apríl 1990, hér: Ísland viðurkenni sjálfstæði Litháens: Forsætisráðherra afhent áskorun 600). Á fyrri vefslóðinni er einnig að finna í heild áskorun þá, sem það tók mig þrjá daga að safna (einkum í miðbænum og á háskólasvæðinu) og ég afhenti svo Steingrími Hermannssyni, þáv. forsætisráðherra, í Stjórnarráðshúsinu.
Og þótt Jón Baldvin hafi staðið sig þarna afspyrnuvel, þegar endanlega á reyndi og á hólminn var komið, þá var jafnvel stuðningur hans ekki sjálfgefinn fyrst í stað, eins og ég kynntist vel. Ég heyrði það skýrt í máli Bryndísar konu hans, að JBH var smeykur vegna hugsanlegra viðbragða sovétmanna, vildi því stíga varlega til jarðar, og að það kom honum virkilega í ójafnvægi, að meðal þeirra, sem skrifuðu undir áskorun mína, var sjálfur bróðir hans Arnór Hannibalsson. En í hópi undirskriftamanna voru fleiri prófessorar í HÍ, m.a. þrír i lagadeild.
Dr. Arnór varð einmitt síðar ræðismaður Litháens á Íslandi.
Jón Valur Jensson, 7.3.2016 kl. 19:58
Það tók mig ekki þrjá daga (heldur fjóra) að safna áskoruninni (sem ég samdi einn), heldur undiskriftum undir hana! Einn ágætur maður, sem ég eignaðist einmitt þá að vini og æ síðan, rétti mér hjálparhönd við verkið og náði um 50-60 undirskriftum, og allnokkrar komu í 2-3 verzlunum í nágrenni mínu.
Jón Valur Jensson, 7.3.2016 kl. 20:05
Hvað finnst þér þá um það fólk sem vill endilega framselja vald þjóðarinnar til Brussel? Er það eitthvað annað, og sér í lagi nú þegar Jón Baldvin hefur snúið við blaðinu, flottur eins og hann er alltaf.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.3.2016 kl. 20:10
Byrjarðu nú enn og aftur sönginn um að framselja vald til Brussel, Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Vald íslenska ríkisins var framselt til Brussel með aðild ríkisins að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir meira en tveimur áratugum, eins og hér hefur margoft komið fram og þú veist mætavel.
Og enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra þegar Ísland fékk aðild að Evrópska efnahagssvæðinu 1. janúar 1994 og Schengen-samstarfinu 25. mars 2001.
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 20:25
Margfalt meira vald, já, afgerandi meira úrslitavald íslenzka ríkisins yrði framselt til Brussel með inngöngu (innlimun) landsins í Evrópusambandið, þótt ESB-málpípan Þorsteinn vilji ekki viðurkenna það.
Jón Valur Jensson, 7.3.2016 kl. 20:41
Eystrasaltsríkin Eistland, Lettland og Litháen fengu aðild að Evrópusambandinu og NATO árið 2004.
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 20:49
Óvart vísaði ég hér á III. hluta [frétt Mbl.] þeirrar stóru blogggreinar minnar sem er fyrri tengillinn í innleggi mínu hér kl. 19.58, en ætlaði að vísa á II. liðinn, á grein mína í Mbl. 26. apríl 1990. En það er sama hvað ég reyni, ég næ ekki að finna hana með leit í gagnasafni Mbl., svo að ég vel einfaldlega að endurbirta hana hér:
Hvað gerir ríkisstjórnin í Litháen-málinu?
Opið bréf til allra ráðherra í ríkisstjórn Íslands
eftir Jón Val Jensson
„Raunveruleg afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar til fullveldis Litháens mun koma í ljós í afstöðu hennar til þessara tillagna."
Hæstvirti ráðherra.
Þann 6. þ.m. afhenti ég undirritaður Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra undirskriftalista með nöfnum um 640 manna með áskorun á rfkisstjórnina að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Litháens þegar í stað og undanbragðalaust.
Þar sem mál þetta mun ekki hafa verið kynnt í ríkisstjórninni og fjölmiðlar hafa gert því misgóð skil, sendi ég yður hér með texta áskorunarskjalsins ásamt nöfnum nokkurra þekktra manna, sem undir það skrifuðu.
Ég vil nota tækifærið til að ítreka þá staðreynd, að ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafzt það í þessu máli, sem uppfylli vilja okkar, sem stöndum að áskoruninni. Sé það á hinn bóginn afstaða ríkisstjómarinnar í heild, að viðurkenning okkar á fullveldi Litháens frá því í nóvember 1922 sé í fullu gildi, þá ætti að sýna það og virða í verki með ótvíræðum hætti, svo að Litháar og við sjálfir séum fullsæmdir af. Í 1. lagi er sjálfsagt mál að tilkynna þessa afstöðu okkar litháískum yfirvöldum og einnig til stjórnvalda í Sovétríkjunum, sem hafa rofið fullveldi Litháens með hervaldi; í 2. lagi er eðlilegt, að tekið verði upp stjórnmálasamband milli Íslands og Litháens, t.a.m. með því að sendiherra okkar í Stokkhólmi verði jafnframt sendiherra okkar í Litháen; í 3. lagi ber Íslendingum, í samræmi við þessa viðurkenningu sína, að sækja um vegabréfsáritun hjá Litháum sjálfum, ef ferðazt er til landsins, en ekki hjá hinu gamla hernámsveldi Sovétríkjunum. Raunveruleg afstaða íslenzku ríkisstjórnarinnar til fullveldis Litháens mun koma í ljós í afstöðu hennar til þessara tillagna.
Ekki verður hjá því komizt að átelja framkomu háttvirts þingmanns Páls Péturssonar — fulltrúa Íslands í Norðurlandaráði og forseta ráðsins — þegar hann leyfir sér að tala um Litháen sem „hluta Sovétríkjanna" og kveðst efast um, að það sé „lögformleg leið" að sækja um vegabréfsáritun beint til Litháa sjálfra og ekki fyrir milligöngu Sovétmanna (viðtal í ríkissjónvarpinu þ. 17. þ.m.). Með þessum orðum er þingmaðurinn að óvirða þá viðurkenningu á fullveldi og sjálfstæði Litháens, sem forsætis- og utanríkisráðherra hafa sagt, að sé í fullu gildi. Ég vænti þess, að þér séuð mér sammála um þetta atriði.
Með vinsemd og virðingu,
Jón Valur Jensson.
Höfundur er guðfræðingur.
Mbl. 26. apríl 1990, bls. 12.
Jón Valur Jensson, 7.3.2016 kl. 20:53
Undirritaður ekki málpípa eins eða neins, ekki háður einum eða neinum og er ekki félagi í stjórnmálaflokki, eins og hér hefur margoft komið fram.
Hversu oft þarf að staglast hér á þessu?!:
Eiríkur Bergmann Einarsson forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst:
"Svíþjóð er aðeins gert að innleiða hluta af heildar reglugerðaverki Evrópusambandsins.
Og ef við beitum svipuðum aðferðum og Davíð Oddsson gerði í sínu svari getum við fundið út að okkur Íslendingum er nú þegar gert að innleiða ríflega 80% af öllum lagareglum Evrópusambandsins sem Svíum er gert að innleiða."
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 20:59
Útlendingar, til að mynda Kínverjar, geta nú þegar átt helminginn af öllum aflakvóta íslenskra fiskiskipa en útlendingar hafa mjög lítið fjárfest í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
23.11.2010:
"Friðrik J. Arngrímsson, [nú fyrrverandi] framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að lögin hafi alltaf verið skýr varðandi erlent eignarhald í sjávarútvegi.
"Erlendir aðilar mega eiga allt að 49,99% óbeint, þó ekki ráðandi hlut, og svona hafa lögin verið lengi," segir Friðrik."
"Nefnd um erlenda fjárfestingu hefur að undanförnu fjallað um málefni sjávarútvegsfyrirtækisins Storms Seafood sem er að hluta til í eigu kínversks fyrirtækis, Nautilius Fisheries.
Eignarhlutur Kínverjanna er um 44%, beint og óbeint.
Og niðurstaða nefndarinnar er að það sé löglegt."
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 21:03
"Fjórfrelsið gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað.
Að auki kveður samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið á um samvinnu ríkjanna á svæðinu í til dæmis félagsmálum, jafnréttis-, neytenda-, umhverfis-, mennta-, vísinda- og tæknimálum."
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 21:06
"Aðilar, sem njóta réttar hér á landi samkvæmt reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) um frjálsa för fólks, staðfesturétt, þjónustustarfsemi eða fjármagnsflutninga, geta öðlast heimild yfir fasteign hér á landi án leyfis dómsmálaráðherra, enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna."
Reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum, nr. 702/2002
Á Evrópska efnahagssvæðinu eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein og í EFTA eru Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein.
"Fasteign merkir í lögum þessum afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt."
Jarðalög nr. 81/2004
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 21:11
"Lög og reglugerðir sem gilda um innflutning dýraafurða:
Reglugerð nr. 1043/2011 um eftirlit með heilbrigði eldisdýra og dýraafurðum í viðskiptum innan Evrópska efnahagssvæðisins."
Á Evrópska efnahagssvæðinu eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein.
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 21:12
15.12.2015:
"Eignarhaldsfélagið Langisjór hagnaðist um 624 milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt nýbirtum ársreikningi.
Félagið á og rekur nokkur fyrirtæki í matvælavinnslu, þar á meðal kjúklingaframleiðandann Matfugl og Salathúsið, og var rekið með jákvæðri afkomu upp á 813 milljónir árið 2013."
Stærsti eigandi kjúklingaframleiðandans Matfugls er skráður á Möltu
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 21:24
Um að gera að kvarta svo undan því að undirritaður birti hér of margar athugasemdir, þegar þið hægriöfgamennirnir viljið ekki viðurkenna allar þessar staðreyndir.
Þorsteinn Briem, 7.3.2016 kl. 21:34
Greinilega varð Steini fyrir áfalli að fá á sig svar mitt. Ekki dugðu honum færri en sjö innlegg til að bregðast við ábendingum mínum!
Hann segist "ekki málpípa eins eða neins, ekki háður einum eða neinum," en fer síðan beint í að vitna í Eirík Bergmann, eins og honum sé treystandi í ESB-efnum!
En um þennan meinta traustsverða Eirík Bergmann má upplýsa:
1) Einn örfárra Íslendinga var hann beinn starfsmaður ESB í Brussel.
2) Ennþá er hann óbeint launaður af Evrópusambandinu, því að ESB styður fjárhagslega ákveðna evrópska stofnun, sem vinnur að því að sameina Evrópu og styður þess vegna með ríflegum fjárstyrkjum Evrópufræðasetur Háskólans á Bifröst, það sama sem nefndur Eiríkur þiggur laun af og Steini Briem virðist treysta svo mætavel !
Jón Valur Jensson, 8.3.2016 kl. 00:01
Það er lítið gaman þegar tveir leiðinlegustu furðufuglar bloggheima stangast á. Verst að þeir skuli ekki geta haldið sig á sínum síðum, þar væru þeir þó velkomnir og engum til ama.
Vagn (IP-tala skráð) 8.3.2016 kl. 01:36
Er það þér til ama, "Vagn", að ég bendi á staðreyndir?
Æ, hvað þú átt bágt !
Jón Valur Jensson, 8.3.2016 kl. 02:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.