9.3.2016 | 08:45
Þegar tvíþekjan stefndi á Harald myndatökumann.
Starf kvikmyndatökumanna og fréttamanna er ekki hættulaust. Þeir þurfa oft að vera á stöðum þar sem hættan ýmist liggur í leyni eða er ljós, eins og til dæmis í náttúruhamförum og eldsvoðum.
Einstaka sinnum ná kvikmyndatökumenn myndskeiðum, þar sem hættan, sem þeir lenda í, sést vel.
Á 40 ára afmæli hernáms Íslands vorið 1980 fórum við Haraldur Friðriksson myndatökumaður austur í Flóa til að taka myndir í Kaldaðarnesi á gamla flugvallarstæðinu þar.
Á þessum tíma var flughæf gömul kanadísk tvíþekja af gerðinni Fleet Finch í í eig Árna bónda í Múlkoti og var ákveðið að taka mynd af henni í flugtaki á Selfossflugvelli.
Hliðarvindur var og vandasamt að stjórna flugvélinni.
Í fyrstu gekk allt að óskum, en skyndilega reið stífur hliðarvindur yfir völlinn og flugvélin skrikaði þannig til að hún stefndi beint á Harald þar sem hann stóð og myndaði í gríð og erg.
Allt stefndi í að vélin færi beint á Harald en á síðustu stundu tókst Árna að beina vélinni framhjá Haraldi, en afar litlu mátti muna.
Haraldur var ævinlega sallarólegur við myndatökur sínar og haggaðist ekki þau augnablik sem flugvélin stefndi beint á hann.
Ég spurði hann eftir á hvort hann hefði ekki orðið hræddur en hann kvað svo ekki vera, heldur miklu frekar hrifinn af því hvað myndskeiðið varð flott.
Og vissulega varð það flott þegar það birtist á skjánum.
Svipað hafði komið fyrir í gosinu í Heimaey morguninn eftir að það byrjaði, að Þórarinn Guðnason kvikmyndatökumaður virtist ekki veita því athygli að hraunslettur féllu rétt hjá honum þar sem hann stóð skammt frá Kirkjubæ og var kominn afar nálægt gosinu.
Svo einkennilega sem það hljómar virkar myndataka oft þannig á þá sem horfa í gegnum linsuna, að þeim finnst þeir vera að horfa á kvikmynd frekar en að upplifa það sem er að gerast og skynja því ekki hættu á sama hátt og myndavélarlaus maður.
Fréttamaður slapp með skrekkinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.