"Fáskrúðsfirðingurinn frækni", fyrsta íþrótta-sjónvarpsstjarnan.

Skúla Óskarsson, eða "Fáskrúðsfirðinginn frækna", má telja fyrstu íþróttasjónvarpsstjörnu Íslands, því að með því að færa kraftlyfingamót, glímumót, borðtennismót og jafnvel frjálsíþróttamót inn í Sjónvarpssal, var hægt að sjónvarpa furðu mörgum íþróttamótum beint í fyrsta sinn í sögu sjónvarpsins.

Einhverjir hvá vafalaust, - ha, var ekki hægt að sjónvarpa beint frá íþróttamótum utan sjónvarpshússins?

Nei, það var ekki hægt allt til ársins 1974, ekki einu sinni árið 1971, þegar við fengum lánaðan endurvarpa frá Noregi til þess að sjónvarpa beint frá komu handritanna.

Þegar búið var að ganga frá öllum hnútum varðandi útsendingu frá landsleik í Laugardalshöllinni, neitaði þáverandi útvarpsstjóri að leyfa útsendinguna vegna þess að hún væri nýjung!

Sagt var að um þessar mundir hafi þessi setning hljómað á einum útvarpsráðsfundi: "Allar nýjungar hafa reynst okkur varasamar og flestar til hreinnar bölvunar!"

Þetta var svo snautlegt áfall fyrir mig sem eini fastráðni íþróttafréttamaður sjónvarpsins, að ég beið í óþreyju eftir því að geta fengið fast starf sem almennur fréttamaður alveg fram til ársins 1976, en öll árin fram að 1976 var ég reyndar á kafi í fréttum sem afleysingamaður og í dagskrárgerð jafnframt því að sinna íþróttunum.

Þá kom sér vel að eiga einstakan hauk í horni, þar sem var Bjarni Felixson, sem tók oft að sér verkefni þegar ég var í fréttaleiðöngrum úti á landi og verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir það.

Meðal þeirra greina, sem hlutu vinsældir sem sjónvarpsefni, voru lyftingar og kraftlyftingar og þar heillaði Skúli Óskarsson alla upp úr skónum með einstaklega líflegri og skemmtilegri framkomu, sem var nýlunda við slík tækifæri hér á landi.

Hann var fyrirrennari Jóns Páls Sigmarssonar hvað það snerti.

Eitt skemmtilegasta atvikið var þegar hann kallaði "mamma!" í einni af erfiðustu lyftunni.

Til hamingju, Skúli, með gullmerkið!


mbl.is Skúli sæmdur gullmerki - myndskeið af heimsmetinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Já hann Skúli var sko engum líkur! Merkilegt að lesa hvurslags dauðyfli þetta voru, sem réðu ríkjum á Sjónvarpinu. Nefnum engin nöfn, en allir vita við hverja er átt. Nægir að horfa á áramótaávörp þessa "skemmikrafts" til að átta aig á því hve ömurlegur stjóri hann var. Hugsa sér bara, að einn leiðinlegasti maður landsins væri látinn halda áramótaávarp tíu mínútur í tólf, á gamlárskvöld, árum saman!

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.3.2016 kl. 02:47

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta var afar vandaður og góður heiðursmaður og verður að skoða afstöðu hans með tilliti til þess umhverfis sem hann var í, ríkisverndaðri og úreltri einokun.

Ómar Ragnarsson, 13.3.2016 kl. 11:22

3 identicon

Sá sem ekki gat fundið og skilið snilldina í áramótaávörpum Andrésar Björnssonar hefur sennilega verið betur geymdur úti við að skjóta upp flugeldum.

Áramót eru hvorki hopp né hí eingöngu heldur og dauðans alvara. Memento mori!

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 13.3.2016 kl. 12:18

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er allaveg ógleymanlegt þegar hann setti heimsmetið.

Fyrsta heimsmet íslendings, minnir mig.

Það sem þetta vakti mikla athygli maður minn lifandi.

Gjörbreytt samfélag núna.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.3.2016 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband