15.3.2016 | 00:19
Gamalkunnug aðferð.
Sú aðferð sem Ketill Sigurjónsson segir Norðurál beita er gamalkunnug og ég þekki hana ágætlega frá árunum 1999-2003 þegar ætlunin var að "eyðileggja mig" svo að ég noti lýsingu Ketils.
Ég sagði frá þessu í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár", sem borinn var í Jöklugöngunni niður Laugaveg 26. september 2006.
Fram til 1999 hafði ég í fréttum og þáttum í sjónvarpinu reynt að gera það sama og Ketill Sigurjónsson, að leita eftir upplýsingum og mismunandi skoðunum um ákveðin mál og miðla þeim.
En árið 1999 kemur áhrifamaður að máli við konu mína í trúnaðarsamtali og segir henni frá því að hún eigi engra annarra kosta völ en að "stoppa mig" í því sem ég sé að gera.
Ef hún geri það, muni hún gera bæði henni sjálfri og mér mikinn greiða, því að þá geti ég einbeitt mér að því að gera það sem mér láti best, að fjalla um land og þjóð og mannlíf án þess að blanda virkjanamálum og hálendinu inn í það og skemma fyrir mér með því. Muni okkur báðum vel farnast ef hún geri þetta.
Hún svaraði því til að hún hefði sjálf farið með mér á eigin kostnað í margar þær ferðir sem væru svona umdeilanlegar og sæi enga ástæðu til þess að "stoppa mig".
"Athugaðu vel hvað þú ert að gera með því að stoppa hann ekki", var svarið, "því að ef þú stoppar hann ekki, verður hann stoppaður samt."
Sem sagt: Tilboð, sem ekki var hægt að hafna.
En hún hafnaði því og afleiðingarnar létu ekki á sér standa, bæði gagnvart mér og henni.
Hrint var af stað mikilli aðför með kröfu um að ég yrði rekinn frá Sjónvarpinu. Svo öflug var þessi aðför, að útvarpsráð lét fara fram ítarlega rannsókn á meintri hlutdrægni minni og "einokun" á fréttaflutningi af virkjanamálum og kom í ljós að ekkert var hæft í þessum ásökunum.
Þremur árum síðar, þegar ég vann að gerð myndarinnar "Á meðan land byggist" fóru mér að berast hótanir um aðför að mér þar sem ég yrði afgreiddur endanlega.
Þessar hótanir bárust ekki beint, heldur eftir krókaleiðum í formi orðróms um að hópur manna ynni að því að bera fram ásakanir á hendur mér, sem myndu eyðileggja feril minn og æru í eitt skipti fyrir öll. Leitt yrði í ljós, að útilokað væri að ég gæti gert þessa mynd öðruvísi en að fjársterk skuggaleg öfl mokuðu peningum í það og þar með yrði flett ofan af mér.
Þetta rímar vel við aðferðina, sem er notuð gegn Katli Sigurjónssyni.
Góðir vinir mínir sögðu mér frá yfirvofandi aðför vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af þessu, en þannig var um hnúta búið að þeir gátu ekki rakið hvaðan sögusagnirnar komu.
Ég sagði við þá að þeir skyldu svara svona sögum á þann veg að ég væri alveg tilbúinn í þennan slag og jafnvel það að missa æruna. En hugsanlegur ærumissir yrði ekki nema um stundarsakir, því að ég væri með of gott tvöfalt og jafnvel þrefalt bókhald og upplýsingar um það hvernig þessi mynd væri gerð, svo sem með því að gera bíldruslur að farartækjum, vinnustað og gististöðum á hálendinu og með nákvæmu bókhaldi um viðveru, kílómetratölur og flugtíma.
Ég væri tilbúinn að missa æruna þá mánuði, sem þessi gögn yrðu skoðuð, en þar á eftir skyldu menn sjá, hverjir það yrðu, sem yrðu ærulausir.
Aldrei varð af þessari aðför, en tilhugsunin um ærulausu mánuðina var ekki skemmtileg.
Ketill Sigurjónsson getur verið stoltur af orkubloggi sínu og á miklar þakkir skildar fyrir það.
Það er mikill missir ef það hverfur nú, en ofangreinda sögu vil ég segja honum til uppörvunar.
Segir Norðurál í herferð gegn sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú eykst salan á orkuskjöldun sbr. Star Wars og Harry Potter
Júlíus Valsson, 15.3.2016 kl. 07:20
Hvers vegna er svona mikið af gráðugum siðblindingjum í þessu landi.Þetta fólk seldi ömmu sína í þrældóm fengi það nokkrar krónur fyrir.
Skammtíma græðgi fyrir örfáa um þaö snýst allt á þessu landi í dag
Anna (IP-tala skráð) 15.3.2016 kl. 09:22
17.12.2015:
Norðurál þrýstir á lægra orkuverð
Landsvirkjun segir Norðurál sýna mikla hörku og hóta lokun
Þorsteinn Briem, 15.3.2016 kl. 12:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.