18.3.2016 | 17:32
Þyrlur, sírenur, vegatálmar og lokanir hafa sagt sína sögu.
Það hefur ekki farið framhjá manni frá því á þriðjudag að mikið hefur verið á seyði í nágrenninu hér í Brussel. Þyrlur hafa verið á sveimi, sírenur í gangi og mikið um lokanir á götum.
Umferðartafir hafa verið miklar og mikið legið í loftinu.
Í morgun fréttist um það að fingraför Salah Abdeslam hefðu fundist þar sem lögreglan réðist til atlögu fyrr í vikunni.
Að vísu hefur mikið af þessu umstangi verið vegna leiðtogafundar ESB hér skammt frá, en nálægðin við hann og leitina að höfuðpaurnum að baki hryðjuverkunum í París hefur ekki leynt sér.
Tvær þyrlur, sem sveimuðu beint yfir höfðum okkar í fyrradag voru örugglega ekki í þeim leiðangri vegna leiðtogafundarins.
Efri myndin er tekin í garðinum hjá þeim Þorfinni og Ástrósu, en neðri myndin er tekin beint upp í loftið þar sem önnur af tveimur þyrlum sveimar yfir húsþökunum.
Þess má geta að í íslenskum fjölmiðlum hefur verið talað um það að aðsetur hryðjuverkamannanna hafi verið í "úthverfi" Brussel, en hið rétta er að það er aðeins einn kílómetra frá borgarmiðjunni.
Það er skondið að þetta skuli ekki vera í fyrsta skiptið sem maður fái tilfinningu fyrir því að vera eins konar íslenskur Forrest Gump, að vera ekki fyrr kominn á vettvang í Brussel en að eftirlýstasti glæpamaður Evrópu sé handsamaður.
Abdeslam handsamaður í Brussel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, ertu genginn í Evrópusambandið?
Guðmundur Ásgeirsson, 18.3.2016 kl. 18:26
Við Helga erum nú bara að heimsækja Þorfinn son okkar og Ástrósu Gunnarsdóttur, sambýliskonu hans, en hann er yfirmaður upplýsingadeildar Flóttamannasambands Evrópu, sem hefur aðsetur hér og hefur ekkert með ESB að gera, - er samband 90 félaga á þessu sviði víðs vegar um alla álfuna.
Það er gott að þú spyrð, því að Brussel er eina borgin, sem ég kem í erlendis og þarf sífellt að útskýra og nánast afsaka eftir á að hafa komið í.
Ómar Ragnarsson, 18.3.2016 kl. 22:09
Þetta var nú bara ætlað sem grín þar sem höfuðstöðvar ESB eru í Brüssel. :)
Ég var sjálfur þar fyrr í vetur og þetta sýndist mér hin ágætasta borg, iðandi af mannlífi. Mér sýnist af myndunum þínum að það hafi hlýnað eitthvað síðan þá, miðað við hvernig gróðurinn virðist vera að taka við sér.
Óska alls hins besta.
Guðmundur Ásgeirsson, 18.3.2016 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.