29.3.2016 | 09:08
Innrás í daglegt líf veldur mestri ólgu.
Alda hryðjuverka í heiminum hófst fyrir tæpri hálfri öld. Í fyrstu beindust aðgerðir hryðjuverkamanna aðallega að því að ræna flugvélum og þegar litið er á tölur um fallna í hryðjuverkum, sést að þeir voru fleiri mörg árin á fyrstu áratugum þeirra en þeir eru nú.
Undantekning er árið 2001 þegar um þrjú þúsund voru drepnir í árásinni á Bandaríkin.
Þótt fleiri létust vegna hryðjuverka mörg árin á síðustu öld en á okkar tímum, er svo að sjá að hryðjuverk okkar tíma veki mun meiri ótta og ólgu en jafnvel mannskæðari hryðjuverk fyrri tíma.
Ástæðan er líklega sú, að flugslys hafa fylgt farþegaflugi frá upphafi og orðið smám saman hluti af veruleika þessa afmarkaða sviðs nútíma lifnaðarhátta.
Að fljúga með flugvél er mun afmarkaðra athafnasvið en daglegt líf á jörðu niðri og venjulegur farþegi sættir sig við þá áhættu sem fylgir því hverju sinni að fljúga með flugvél.
En þegar hryðjuverkamenn fóru að sprengja sjálfa sig í loft upp innan um fólk í daglegu lífi var það ný ógn á vettvangi friðsæls og öruggs daglegs lífs.
Þetta var eins og að ráðast þannig inn í daglegt líf fólks, að það væri hvergi óhult og alltaf í hættu.
Hryðjuverk nútímans fela í sér atlögu að öryggi, friði og farsæld og miða að því að skapa ótta, ólgu, tortryggni og hatur.
Og því meiri upplausn og ólgu sem hryðjuverkamenn skapa, því meira verður þeim ágengt í þessari aðför að mannréttindum, friði og frelsi vestræns lýðræðis.
Egypskri farþegaþotu rænt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.