3.5.2016 | 08:46
Útskýrir varfærnina eftir umferðarslys um daginn.
"Ef fyrir liggur að höggin, sem lemstrað hafa fólk, sem hingað kemur, hafa verið mjög þung, skoðum við og myndum sérstaklega ítarlega alla líkamshluta."
Þetta sagði læknir á bráðamótttöku Landspítalans við mig þegar ég var tekinn í myndatöku eftir umferðarslys fyrir tæpum þremur vikum.
Ég hafði verið á reiðhjóli á gangbraut þegar bíl var ekið þvert á mig vegna þess að bílstjórinn blindaðist á örlagaríku augnabliki af lágri kvöldsól, ég hafði kastast upp á framrúðu bílsins og brotið hana með hlífðarhjálminum og síðan kastast af bílnum og lent harkalega á malbikinu.
Sjúkraflutningamenn höfðu greint frá brotinni framrúðu og vitnisburði sjónarvotta og á grundvelli þess var farið út í svo ítarlegar myndatökur á bráðadeildinni, að mér fannst nóg um.
"Þú þarft nú varla að taka myndir af brjóstholinu og lungunum" sagði ég í hálfkæringi við lækninn. "Þú finnur ekkert nema svifryk þar."
En þá svaraði hann mér á þá leið, sem sagt var frá í upphafi þessa pistils.
Og hann bætti við: "Miðað við frásagnir vitna er ótrúlegt að þú skulir hvergi vera beinbrotinn þótt það sýnist tæpt á einstaka stað. Það er vegna þess að innvortis og útvortis meiðsli allt frá ökklum og hnjám upp í öxl og herðar sýna, að höggið hefur dreifst yfir allan líkamann. Og þau meiðsli samanlagt sýna tvö mikil högg,fyrst á vinstri hlið þína við áreksturinn sjálfan, og síðan á alla hægri hliðina eftir flugið af þaki bílsins og þetta gerir það að gera það að verkum að við viljum hafa þig hérna í nótt."
Mér sýnist, að breski ferðamaðurinn, sem kom á bráðadeild um helgina, hafi verið svo óheppinn að í upphafi hafi tilfelli hans sýnst frekar lítilvægt eins og langflest slysin eru, sem koma þangað inn á borð.
Í þeim efnum geta fyrstu vitnisburðir orðið afdrifaríkir, svo sem ef viðkomandi virðist einfaldlega aðeins hafa hrasað eða dottið um sjálfan sig á jafnsléttu.
Ef vegfarendur hefðu komið að mér þar sem ég lá eftir að hafa, að því er virtist, aðeins hrasað á hjólinu,er ekki víst að viðbrögð allra hefðu orðið á þá lund, sem raun bar vitni, umsvifalaust kallað á sjúkraflutningamenn og lögreglu og greinargóð lýsing sjónarvotta legið fyrir þegar á bráðadeild var komið.
Við slíkar aðstæður getur skilið á milli feigs og ófeigs og hinn heppni getur þakkað forsjóninni fyrir að ekki fór verr.
Ferðamaðurinn var sendur heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.