Næsta skref er matið á umhverfisáhrifum við Kröflu.

Fréttablaðið velur setningu í grein minni í dag um mat á umhverfisáhrifum vegna stórfelldra virkjunaráforma á Kröflussvæðinu til þess að taka út fyrir með stærra letri.

Til þess er full ástæða.

Ég hef skoðað það dæmi árum saman og þetta mat er ekkert annað en reginhneyksli, greinilega til þess eins gert að þóknast sem best hagsmunum virkjanaaðila.

Í umhverfisfræðum ber þrjú atriði einna hæst: Vistkerfi, landslagsheildir og afturkræfni.

Gróflega rangt er farið með tvö síðastnefndu atriðið í þessu endemis mati.

Í matinu eru tilgreindar tvær landslagsheildir: Gæsafjöll annars vegar og hins vegar nokkurn veginn það svæði sem virkja við Kröflu.

Nú þegar er búið að virkja það mikið af þessari meintu landslagsheild við Kröflu, að "hvort eð er" röksemdin nýtist virkjanafíklum.

Engum dettur í hug að virkjað verði í Gæsafjöllum og því hentar vel skilgreina þau sem landslagsheild!

Alveg er skautað yfir þá stórkostlegu landslagsheild sem blasir jafnvel við leikmanni á þessu svæði, sem kallað var "Leirhnjúkur-Gjástykki" í kosningaloforði tveggja ráðherra Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar 2007 þar sem lofað var því að það ekki yrði virkjað á því svæði og nokkrum öðrum verðmætustu náttúrverðmætasvæðum landsins nema með sérstakri meðhöndlun hjá Alþingi.

Svæðið "Leirhjúkur-Gjástykki" var vettvangur Kröfluelda 1975- og á sér enga hliðstæðu, hvorki hér á landi né annars staðar í veröldinni.

Ég hef notað um það orðin "sköpun jarðarinnar og ferðir til mars."

Þar hafa alþjóðasamtök um marsferðir valið sér æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar og þetta er eini staðurinn þar sem sjá má gjár, þar sem meginlandsflekarnir, Ameríka og Evrópa, hafa rifnað hvor frá öðrum, og nýtt Ísland í formi hrauns komið upp úr gjám.

Og til af þessu einstæðar myndir og vitnisburðir, gagnstætt því sem er til dæmis í "gjánni milli heimsálfa" á Reykjanesi, þar sem ekki er hægt að sjá hvort og þá hvað kom upp úr gjánni og því síður nein gögn eða vitnisburði um það.

Þegar hafa verið unnin óafturkræf spjöll ofan við Víti, algerlega að óþörfu, og ending jarðvarmans til raforkuframleiðsu er áætluð um fimmtíu ár, sem er langt frá alþjóðlegri kröfu um sjálfbæra þróun.

Næsta skref er að stöðva þau áform sem hið dæmalausa mat á umhverfisáhrifum fela í sér.

Sjá má nánar um þetta í umsögn, sem ég sendi á vegum Framtíðarlandsins til iðnaðarráðuneytisins 2011.  


mbl.is Skora á stjórnvöld að bjarga lífríki Mývatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi frétt fjallar um skólplosun og ferðamenn, ekki virkjanir.  Þarftu endilega að afvegaleiða umræðuna Ómar?  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.5.2016 kl. 08:51

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mývatnssveit er ein heild hvað umhverfisáhrif af manna völdum snertir. En þeir, sem vilja sækja að þessari djásn úr þremur áttum reyna að forðast að horfa heildstætt yfir sviðið og tala um að það sé verið að "afvegaleiða" umræðuna með því að horfa yfir lengri tíma á öllu svæðinu.

Grein mín í Fréttablaðinu var að vísu skrifuð í tilefni af áhrifum af margs konar losun í vatnið en naskur fréttamaður sá atriðí sem skiptir máli.

Stórvirkjun í Bjarnarflagi mun hafa áhrif á vatnið sjálft vegna affallsvatns og röskunar á flæði í vatnið úr austri.

Þeir, sem vilja aðskilja slíka losun í vatnið frá annarri losun eru að reyna að afvegaleiða umræðuna.

Ómar Ragnarsson, 5.5.2016 kl. 11:47

3 identicon

Þetta er ekkert flókið Ómar.  Kúluskíturinn er horfinn.  Í staðinn fengum við ferðamannaskít.   

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.5.2016 kl. 13:44

4 identicon

Ef við ætlum að líta heildstætt yfir sviðið þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvað valdi því að VG gefi grænt ljós á olíuvinnslu en skrattist út í virkjanir eins og þeim sé borgað fyrir það.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.5.2016 kl. 14:18

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn eru í meirihluta á Alþingi, sem hefur getað veitt fé í hreinsibúnað við Mývatn ef sveitarfélagið hefur ekki efni á því.

Ferðaþjónustan hefur bjargað fjárhag ríkisins eftir Hrunið hér á Íslandi haustið 2008, sem var í boði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

Þar að auki er formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra þingmaður fyrir Norðausturkjördæmi.

Þorsteinn Briem, 5.5.2016 kl. 14:32

6 identicon

 Ef bjarga á Mývatni verður banna búskap í kringum vatnið, bændur nota gríðarmikið af tilbúnum og lífrænum áburði sem eykur þörungamyndun í vatninu. Ekki bætir að skólp rennur í vatnið bæði frá íbúum og ferðamönnum. Ekki að ég sé fylgjandi virkjanaframkvæmdum þarna í grennd en þær koma þessu máli ekkert við.

Hermundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.5.2016 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband